Heilsuskóli A&B – önnur vika

 

Myndin er tekin við Heiðarvatn á Breiðdalsheiði

Heilsuskóli A&B – önnur vika

Einfalt – hollur næringarríkur matur – minni skammtar og föstur.

Fyrsta mánudag í annarri viku föstum við frá kvöldmat á sunnudegi fram að kvöldmat á mánudegi.

Hugleiðum amk þrisvar í þessari viku: Slökkvið á símanum. Komið ykkur vel fyrir á góðum stað, kveikið á kerti og reykelsi. Finnið góða hugleiðslutónlist og hugleiðið í 5-10 mín.

Áætlið 110-120 g af fiski eða kjöti þegar eru kjöt- eða fiskimáltíðir og um 1 bolla af súpu (ath að uppskriftirnar eru misstórar).

Mánudagur

Eplaedik + vatn

Kl 10: Kaffi, kollagen og rjómi.
Fasta fram að kvöldmat – vatn, te og sódavatn – bláber og epli.

Mánudagskvöld: Tær hvítkálssúpa

Kvöldmatur: Tær hvítkálssúpa

3-4 b hvítkál, skorið í bita
1 dl saxað sellerí
1 l vatn
1-2 msk ólífuolía

Léttsteikið hvítkál og sellerí í olíunni.
Bætið við vatni, súputeningi, chili, salti og pipar
Sjóðið í 10-15 mín.

—-    —-    —-

Þriðjudagur

Eplaedik + vatn. Kaffi, kollagen og rjómi

Þriðjudagshádegi: Salat með reyktum laxi

Hádegismatur: Salat með laxi
50 g reyktur lax
1 linsoðið eða harðsoðið egg

Salat
klettasalat, spínatkál eða grænkál
4 msk granatepli eða mangó í bitum
gúrkubiti
1 msk parmesan osti
½ bolli perlubygg.

Dressing:
2 msk olífuolía
smá eplaedik
smá hunang
hrist saman.

Aðferð: kaldur laxinn ofaná salatið ásamt eggjabátum og ávöxtum – sósan sett yfir og skreytt með parmesan

Millimál: 4 msk bláber með 2 msk grískri jógúrt og kókosflögur

Soðinn fiskur með gulrótum og blómkáli

Kvöldmatur: Soðinn fiskur
Soðinn fiskur eða grillaður fiskur (100 g af fiski)
Blómkál og gulrætur, léttsoðið í saltvatni.
Salt og pipar
Berið fram með salati smjöri og súrkálinu góða.

—-    —-    —-

Miðvikudagur

Eplaedik + vatn. Kaffi með 1-2 tsk smjöri (sl. kollageni og rjóma)
Fasta fram að hádegi

Hádegi: Chiagrautur með kollageni, bláberjum, epli, kanil og kókosflögum.

Millimál – skorið niður grænmeti og ávextir 200 grömm

Miðvikudagskvöld: kjötsúpa

Kvöldmatur: Kjötsúpa
Súpukjöt
2 msk olía
1 hvítlauksrif, saxað
1 tsk smátt saxað engifer
2 msk saxaður blaðlaukur
vatn
2-5 msk súpujurtir
1-2 stk. súputeningur (grænmetis eða kjöt)
Ferskar kryddjurtir (steinselja, kóríander, rósmarín) (má sleppa)
1/2 b gróft söxuð sellerírót
1/2 b gróft saxað grasker
Salt og svartur pipar (smá chili ef vill).

Setjið olíu í pott, léttsteikið blaðlauk, bætið við hvítlauk og engifer. Látið vatn, súpukjöti, grænmeti, teninga, súpujurtir og krydd saman við. Hitað að suðu og látið malla á lágum hita í 1 ½ – 2 tíma.

Mjög góð kjötsúpa (-; miða við um 100 grömm af kjöti (eða hugsa einn diskur í venjulegri stærð).

Ath að súpan verður aftur í hádeginu á morgun

—-    —-    —-

Fimmtudagur

Eplaedik + vatn. Kaffi með 1-2 tsk smjöri (sleppa kollageni og rjóma)
Fasta fram að hádegi

Hádegi – kjötsúpa (afgangur frá því í gær)

Millimál: ½ rauð paprika skorin í lengjur ásamt ¼ gúrku – borðið fram með sósu: 2 msk grísk jógúrt, 1 msk AB mjólk, 2 tsk jurtasalt, ferskar kryddjurtir (ef þið eigið til annars má sleppa þeim) 1/2 tsk hunang.

Fimmtudagskvöld: Tær grænmetissúpa

Kvöldmatur: Tær grænmetissúpa

2 b hvítkál, skorið í bita
2 b annað grænmeti sem er til (skorið í bita)
1 l vatn
1-2 msk ólífuolía

Léttsteikið grænmeti í olíunni.
Bætið við vatni, súputeningi, chili, salti og pipar
Sjóðið í 10-15 mín.

—-    —-    —-

Föstudagur

Fasta fram að hádegi
Hádegismatur: Chiagrautur með kollageni og ávöxtum

Millimál: Grænmeti og ávextir

Föstudagskvöld: Ítalskar kjötbollur og kúrbítspasta

Kvöldmatur: Ítalskar kjötbollur og kúrbítspasta

400 g nauta- eða lambahakk
3 msk. kollagen
3 msk. fetaostur
3 msk. parmesan ostur
2 msk. fersk basilíka
1 msk. ítalskt krydd
½ tsk. cayenne pipar
1 egg
1 dl rifinn ostur
salt og pipar, eftir smekk
olía til steikingar.

Setjið öll hráefnin í skál og hrærið saman. Hnoðið litlar bollur, setjið á smjörpappír og penslið með olíu. Bakið í ofni við 180°C í 20 mín.

Kúrbítspasta:
Rífið niður 1 kúrbít, setjið í skál, saltið og látið standa í 15 mín. Hitið pönnu með olíu. Kreistið kúrbítinn þannig að sem mestur vökvi náist úr. Setjið á heita pönnu ásamt 1 dl af tómatsósu*. Bætið kjötbollunum út í. Gott að bæta við ferskri basiliku og parmesan osti.
*Notið góða tilbúna pastasósu, t.d. basilíku sósuna frá Sollu.

—-    —-    —-

Laugardagur

Vatnsfasta fram að hádegi

Laugardagsbrunch – egg, avókadó, súrkál og hveitikímkaka

Hádegismatur kl.13:  Hveitikímkaka, 1 egg, 1/2 avókadó, súrkál.
1 msk mæjónes og 2 msk grænmeti að eigin vali til að skreyta.

Millimál – 1 bolli af skornu grænmeti með 3 msk heimagerðu mæjónessósu (mæjónes, hunang, paprikuduft, cayennepipar og sjávarsalt og pipar hrært saman).

Kvöldmatur: Hakkréttur með lauk og brokkólí
.

nautahakk
2 msk hveitikím
1 egg
1 msk kartöflumjöl
salt og pipar
2 bollar skorið spergilkál
1 b saxaður blaðlaukur eða vorlaukur (rauðlaukur fyrir þá sem þola hann).
1 bolli rifinn ostur
1 msk smjör

Blandið hveitikími, eggi, kartöflumjöli, salti og pipar við hakkið. Fletjið út með kökukefli á smjörpappír. Setjið spergilkálið, laukinn og ostinn. Rúllið upp. Bræðið smjör og penslið rúlluna með því og má krydda ofaná með góðu grill kryddi
Hitið í ofni í 40-45 min. Við 180 °C

Sósa
1 blá askja af sveppum
2 msk smjör eða olía
1 lítil askja af sveppaosti
1 nautakjötsteningur
½ l vatn
Saxið sveppina og steikið í smjörinu. Bætið við sveppaostinum, teningnum og vatninu. Látið malla í smá tíma.

120 grömm af rúllunni, 4-5 msk af blómkálsmúsinni og 3 msk sósa.

Blómkálsmús

1 lítið blómkálshöfuð
2/3 dl rjómi
1 dl rifinn ostur
salt og pipar
1 msk smjör

Saxið blómkálið eða rífið í matvinnsluvél. Setjið í pott ásamt rjóma, salti og pipar og látið malla á vægum hita í 15 mínútur.
Maukið með töfrasprota. Hrærið ostinum saman við.

Blómkálsmús

—-    —-    —-

Sunnudagur

Hádegi: 100 g afgangur af kjötrúllu + súrkál

Kvöld: Graskerssúpa + 1 soðið egg.

Endilega: #beta_reynis og #alberteldar

Önnur vikan búin, vel gert!

Hlökkum til að heyra í ykkur og
vera með ykkur áfram!