Heilsuskóli A&B – þriðja vika

Hörgárdalur í Eyjafirði

Heilsuskóli A&B – þriðja vika

Æfing að taka ábyrgð – fasta núna 2 daga (með lærri en 500 hitaeiningum). 

Í þriðju og fjórðu viku mælum við með:

Probiotica (góðir gerlar), 1 x á dag.
Steinefni. Mælum með freyðitöflum sem fást í Heilsuhúsinu. ½ – 1 tafla út í glas af vatni.
D vítamín – 2000 iu – 2 x á dag.

Í þessari viku skulum við draga úr kaffidrykkju; Einn til tvo kaffibolla á dag, báða fyrir hádegi.
Gott er að fá sér glas af mysu við og við og rauðrófusafa er hollur og góður.

Áætlið 110-120 g af fiski eða kjöti þegar eru kjöt- eða fiskimáltíðir og um 1 bolla af súpu (ath að uppskriftirnar eru misstórar).

—-    —-    —-

Mánudagur

1 tsk. eplaedik út í vatn á fastandi maga

Morgunmatur: fasta – vatn

Hádegismatur: Te/kaffi – 1 tsk kollagen og rjómi/kókosfita

millimál : epli og bláber

Mánudagskvöld: Sætkartöflusúpa með fiski


Kvöldmatur:
Sætkartöflusúpa 

Ein meðalstór sæt kartafla (miða við 2 – 3 skammta)
1 lítil ferna kókoscream  (fæst í Bónus) eða kókosmjólk í fernu. Má líka nota 1 dl rjóma.
1 stk grænmetisteningur
½ – 1  lítri soðið vatn
2 tsk fínt saxað engifer
¼ tsk cayennepipar
salt og pipar
1 tsk hunang
Fiskur (þorskur, ýsa eða lax, miða við 120 g á mann)

Bakið sætu kartöfluna í ofni í klukkutíma á 190°C – Skerið í tvennt og kælið lítillega setjið í pott ásamt vatni. Eða flysjið hana, skerið í bita og sjóðið í vatninu (byrja á ½ líter og bæta vatni út í ef súpan er of þykk þegar búið er að mauka hana). Bætið við súputeningi, kryddi, hunangi, kókosmjólk eða rjóma. Maukið með töfrasprota. Kryddið eftir smekk – má vera sterk. Skerið fiskinn í bita og látið út í og sjóðið í nokkrar mín.

Má bæta ferskum kryddjurtum eða spínatkáli út í súpuna.

ATH, súpan verður einnig í hádeginu á morgun

—-    —-    —-

Þriðjudagur

1 tsk eplaedik út í vatn á fastandi maga.

Morgunmatur: Fasta fram að hádegi.

Millimál: 1 skeið kollagen og 1 tsk. kókosfita út í volgt vatn eða einn kaffibolla (með kollageni og rjóma).

Hádegismatur: sætkartöflusúpa með fersku salati

1 diskur af sætkartöflusúpu – skerið niður salat og grænmeti sem þið veljið sjálf, ½ avakadó skorið í bita  (miða við að setja á desertdisk) með góðri dressingu. Olífuolíudressing.

Kvöldmatur: Nú er komið að ykkar ábyrgð. Finna kvöldmáltíð sem þið teljið að sé í lagi. Megið setja inn á fb síðuna okkar. Fáum hugmyndir af hvort öðru og við svörum ykkur hvað okkur finnst. Með þessu þurfum við að treysta á okkur sjálf og taka ábyrgð á skömmtum og stærð. Munið eftir súrkálinu.

ATH, sami matur verður í hádeginu á morgun.

—-    —-    —-

Miðvikudagur

Morgunmatur: Kaffi, rjómi og kollagen eða te og kollagen með t.d. kókosfitu.

Hádegismatur:  afgangur frá kvöldmat (sýnið okkur mynd hvernig þið útbúið það). 

Millimál: Niðurskorið grænmeti og ávextir um 200 grömm. Hvetjum ykkur að vigta og megið setja myndir inn á fb síðuna. Skemmtileg æfing og við æfum þá augun að meta skammtastærðir á grænmeti og ávöxtum sem millimál. 

Miðvikudagskvöld: Steikt langa í rjómasósu með perlubyggi

Kvöldmatur: Langa í rjómasósu (uppskrift miðast við tvo eða til að eiga fyrir hádegið á morgun)
300 g langa eða karfi
1 msk. smjör
1 msk olía
1 dl rjómi
salt og pipar
3/4 bolli ósoðið perlubygg

Sjóðið perlubygg samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu.
Steikið lönguna í smjöri og olíu við miðlungshita. Kryddið og setjið rjóma á pönnuna og látið malla í 5-7 mín. (fer eftir þykkt fisksins). Berið fram með súrkáli.

—-    —-    —-

Fimmtudagur

Morgunmatur: Chiafrægrautur eða kaffi og kollagen með rjóma.

Hádegismatur: Salat með afgang um 100 grömm af löngu og salatdressing. Einnig má nota skammt af löngunni með tilheyrandi meðlæti. 

Kvöldmatur: Súpa: graskers- brokkólí- eða sveppasúpa. Uppskriftir sem við höfum prófað. Megið velja ykkar súpu. Sumir eiga í frysti súpu og gott að nota þær sem við eigum.

Te og fallegar hugsanir 

—-    —-    —-

Föstudagur

Morgunmatur: eplaedik 

Kaffi/te og kollagen

Hádegismatur: Chiagrautur með kollageni, epli, banana og bláberjum, kanil og kókosflögum

Millimál: Niðurskorið grænmeti. 

Kvöldmatur: Lambafile pastaréttur  

120 grömm eldað – Lambafile eða annað rautt kjöt (má vera nautakjöt) 

Albert – viltu finna uppskrifina af graskerspastanu frá grunnnámskeiðinu. Hvernig það er gert. Eða útskýrir betur hvernig maður gerir zuccini pasta.

Kjötið (kryddað með salt og pipar) hitað í ofni í 20 min. (gott að setja í álpappír. Álpappírinn tekinn af og látið kólna lítilega. Skorið í bita

Léttsteikt grænmeti að eigin vali (sveppir, gulrætur, vorlaukur (má lauk fyrir þau ykkar sem þola hann, afgang af því grænmeti sem þið eigið).

Zuccini rifið niður og léttsoðið í saltvatni. Hellt í sigti og  sett undir kalt vatn.

Olífuolía (1-2 msk) sett á heita pönnu. Grænmetið skorið í bita og léttsteikt við lágan hita.

Kjötið sett saman við og steikt ef á þarf að halda (ef það er of rautt fyrir ykkar smekk).

1 msk af Teryaki sósu eða Thamarisósu sett á pönnuna.

2  msk af graskersfræjum (búið að léttsteikja og salta)

Að lokum er zuccini pastanu blandað saman við og öllu hrært saman.

Toppað með parmesanosti – 1 msk á diskinn ykkar

Til hamingju með glæsilegan árangur.

  • Við hvetjum ykkur til að halda áfram að „taka til“ í lífinu.
  • Ganga frá ýmsum málum og afgreiða það sem hefur setið á hakanaum.
  • Stundum kemur kvíði eða reiði upp sem þarf að fara yfir og gera upp og fyrirgefning gerir kraftaverk.
  • Efla tengslanetið, hafið samband við fólk sem ykkur langar til að vera í sambandi við og hringið í góða vini.

Síðast en ekki síst:

  • Það er léttir á sálinni að henda fötunum sem eru orðin allt of stór á ykkur, þið viljið ekki eiga þessi föt og ætlið ekki að nota þau framar. Líka fötin sem þið „ætlið kannski að nota seinna“. Beint í næsta fatagám.
    Takið helgina í þetta.
  • Gangi ykkur vel.

—-    —-    —-

Laugardagur

Laugardagshádegi: Hveitikím smörrebrauð

Hádegismatur: Hveitikím smörrebrauð. Smyrjið hveitikímkökurnar með mæjónesi, setjið klettasalat og lax (ca 30 g)ofan á, ásamt grænmeti og sósu. Stráið saltflögum og pipar yfir.

Sósa: Sýrður rjómi með súrum gúrkum og kapers.
Saxið 1 litla súra gúrku og 1 tsk kapers og blandið saman við sýrða rjómann.

Millimál: Eplabitar (lífrænt grænt epli)

Laugardagskvöld: Kjúklingur í mangósósu

Kvöldmatur: Kjúklingur í mangósósu

4 kjúklingalæri
ólífuolía
2 dl rjómi
4 msk. Mangó chutney
safi úr 1/2 sítrónu
salt og pipar
3 msk. kínóa

Smyrjið eldfast mót með ólífuolíu. Raðið kjúklingnum í fatið og kreystið sítrónusafa yfir. Kryddið með salti og pipar.
Hrærið saman rjóma og mangó chutney og dreifið yfir kjúklinginn.
Eldið við 175°C í 30-35 mín. eða þangað til kjötið er gegnumsteikt (afgangur af kjúllanum verður í hádeginu á morgun).

Berið 120 g af kjúklingi fram með kínóa eða hrísgrjónum, ásamt grænmeti eða salati.

—-    —-    —-

Sunnudagur

Hádegismatur: Afgangur af kjúklingi með 2 msk af súrkáli.

Sunnudagskvöld: Blómkálssúpa


Kvöldmatur: Blómkálssúpa

1 meðal stórt blómkálshöfuð
1/2 b gulrætur eða annað grænmeti sem þið eigið
3/4 l vatn
2 dl rjómi
salt + pipar + chili

Skerið grænmetið í bita, setjið allt í pott og sjóðið í um 20 mín. Maukið með töfrasprota eða með kartöflupressunni (til að búa til kartöflumús). Gott að hafa aðeins bita í súpunni(ekki mauka alveg). Þynnið með vatni ef þarf. Saxið ferska steinselju og stráið yfir.

Undirbúið föstuna fyrir fjórðu vikuna. Fastað er frá kvöldmatartíma á sunnudegi fram að hádegi á þriðjudegi. 

Þriðja vikan búin, vel gert!

Hlökkum til framhaldsins! 

Endilega: #beta_reynis og #alberteldar

—-    —-    —-