Brimnes, ýmislegt um ábúendur og fleira
Brimnes er annar bær utan við Búðaþorp og stendur neðan þjóðvegar rétt utan við Gilsá sem er á landamerkjum við Kappeyri.
Brimnes mun vera gamalt býli löngum eign Kolfreyjustaðarkirkju, fyrrum voru þar einn eða tveir ábúendur, en frá 1845 til 1923 var þar tvíbýli og stundum húsmennskufólk að auki.
Á jarðatali frá 1695 er Brimnes sögð Kolfreyjustaðar benefik jörð tólf hundruð að dýrleika umráðamaður séra Páll Ásmundason á Kolfreyjustað.
— BRIMNES — FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR — SIGMAR MAGNÚSSON —
.
Á manntalinu 1703 er Brynjólfur Sturluson 52 ára bóndi á Brimnesi kona hans er Álfheiður Þorvarðsdóttir börn þeirra eru Finnbogi 22 ára sem var bóndi á Hafranesi 1734, Einar 18 ára seinna bóndi í Tungu, Þorsteinn 16, Arnoddur 20 ára er suður í Breiðdal á Geldingi sagður burðalítill, Pétur 13, Eyjólfur 11, Þorbjörg 21, Helga 19 ára veik, Guðríður 9 ára, ein vinnukona er hjá þeim Guðrún Þorvarðsdóttir 44 ára. Brynjólfur var sonur Sturlu Brynjólfssonar sem bjó á Höskuldsstöðum í Breiðdal, Álfheiður var frá Gilsá í Breiðdal. Þau flytja seinna í Breiðdal þar deyr 1731 og Álfheiður 1742.
Á bændatali frá 1734 eru þrír bændur á Brimnesi. Jón Jónsson, Gunnsteinn Ögmundsson og Þorsteinn Einarsson.
1752 er Magnús Jónsson á Brimnesi svo er einnig 1762.
1802 er Jón Magnússon bóndi á Brimnesi, hann var sonur Magnúsar sem bjó þar 1762. Kona hans var Ólöf Björnsdóttir þau búa þar til 1805 en það ár deyr Jón. Ólöf heldur áfram búskap næsta ár.
Finnbogi sonur Jóns er bóndi á Brimnesi 1802 en býr þar til 1807, flytur þá að Hafranesi.
1808 koma frá Eyri í Reyðarfirði Eiríkur Guðmundsson bóndi, 52 ára og kona hans Margrét Marteinsdóttir 37 ára, með þeim koma Sesselja Stefánsdóttir 65 ára ekkja, móðir Margrétar, og Sesselja Eiríksdóttir 15 ára dóttir hjónanna. Sigríður Tómasdóttir 43 ára vinnukona, Árni Þorsteinsson og Einar Eiríksson vinnumenn og Einar Guðmundsson 9 ára niðursetningur. Eiríkur og Margrét búa á Brimnesi til 1820 með sama fókinu að mestu leyti þá er Einar Guðmundsson orðinn vinnumaður og komnir tveir vinnumenn nýjir; Björn Jónsson 28 ára og Jón Jónsson 27 ára, Sigríður Tómasdóttir er þar vinnukona 53 ára og Gróa Oddsdóttir 12 ára niðursetningur sem kom þangað 1812. Það ár er Árni Þorsteinsson bóndi á öðru býli hjá honum er Þuríður Jónsdóttir 25 ára bústýra og Gróa Oddsdóttir 4 ára ómagi. Árni og Þuríður eru farin 1814.
1821 eru tekin við búi Sesselja Eiríksdóttir og Björn Jónsson frá Búðum. Sesselja var fædd á Högnastöðum 22. ágúst 1795, foreldrar hennar búandi hjón þar. Guðfeðgin voru Marteinn Þorsteinsson og Sesselja Stefánsdóttir foreldrar Margrétar. Björn var fæddur í Þingmúla í Skriðdal sonur hjónanna Jóns Björnssonar og Helgu Magnúsdóttur sem búa á Búðum 1814 til 1823.
Björn og Sesselja búa til ársins 1836 en þá deyr Björn 12. maí. Hjá þeim voru foreldrar Sesselju og voru hjá Sesselju eftir fráfall Björns. Einar Guðmundsson var þar alltaf vinnumaður og 1828 kom systir hans, Ólöf einnig og móðir þeirra Guðrún Jónsdóttir kom 1823 og er þá sögð 52 ára gömul. 1828 er hún talin örvasa og blind. Niðursetningur seinustu árin. Hún deyr á Brimnesi 21. september 1845.
Sesselja býr þar áfram eftir lát Björns og fyrstu árin er Einar Guðmundsson fyrirvinna hjá henni, en 1845 virðist Björn sonur hennar vera tekinn við því hlutverki. Hjá henni er alltaf nokkuð af vinnufólki auk foreldra hennar sem eru þar til æfiloka. Margrét deyr 2. júlí 1838 en Eiríkur 26 maí 1841. Sesselja býr á Brimnesi til 1848.
1838 eru Guðmundur Magnússon og Margrét Pétursdóttir komin að Brimnesi ásamt fjórum börnum, Eyjólfi 6 ára, Einari 5, Guðrúnu 8 og Önnu Margréti 1. árs.
Guðmundur og Margrét eru vinnuhjú á Kolfreyjustað 1835 og munu hafa komið þaðan að Brimnesi. Þau búa á Brimnesi til 1848, flytja þá að Hólagerði. Tvær yngstu dætur þeirra fæðast á Brimnesi, Anna Margrét 2. okt. 1839 og Ingibjörg 26. okt. 1844. 1840 kemur til þeirra frá Seldal Pétur Guðmundsson 62 ára faðir Margrétar.
Árið 1847 kemur Þorsteinn Erlendsson að Brimnesi frá Hafranesi, hafði búið þar áður og á Kirkjubóli, kona hans var Kristín Magnúsdóttir frá Dölum. Með koma börn þeirra Hjálmar 12 ára, Erlendur 10, Magnús 7, Vigfús 4, Stefán 3, Helga 11 og Guðný 5 ára. Anna Guðmundsdóttir 13 ára dóttir konunnar og Helga Þórsteinsdóttir 60 ára móðir Þorsteins. Hún fer frá Brimnesi 1850 til Hellisfjarðar. Í byrjun janúar 1848 fæðist drengur sem skírður er Þorsteinn 10. jan. það ár. Sennilega er þetta sami drengurinn og deyr 21. mars 1848 og þá nefndur Jón. 7. janúar 1850 fæðist drengur sem skírður er Þorsteinn. Einnig á því ári er talin Ingibjörg þriggja ára. 1852 eru komin til viðbótar Kristbjörg 2 ára og Ólafur á fyrsta ári. Þorsteinn er á Brimnesi til 1860 fer þá að Hafranesi sem vinnumaður með tvö af börnunum Þorstein og Kristbjörgu. Ólafur er þá tökubarn í Vík elst þar upp varð síðar bóndi á Gvendarnesi hin komin í vinnumennsku á ýmsum bæjum. Sonur Stefáns Þorsteinssonar var Sigfús afi Huldu Steinsdóttur sem nú er húsmóðir á Brimnesi.
Árið 1854 kemur Finnbogi Erlendsson bróðir Þorsteins að Brimnesi sem húsmaður, mun hann hafa komið úr Hellisfirði þar sem hann er bóndi 1850. Kona hans var Elína Þorsteinsdóttir fædd um 1825 í Húsavíkursókn. Með þeim koma börn þeirra Friðrik 16 ára, Erlendur 8, Óli Þorgrímur 6, Helga 4 og Elínbjörg 1. árs og Helga Þorsteinsdóttir 67 ára móðir bræðranna. Árið 1854 fæðist Sigurður Finnbogason. Finnbogi fer frá Brimnesi að Vöðlum 1860.
Árið 1849 kemur frá Eyri í Reyðarfirði, Eiríkur Guðmundsson 49 ára fæddur í Valþjófsstaðarsókn. Á næst ári giftist hann bústýru sinni Kristbjörgu Jónsdóttur 47 ára gamalli ekkju fæddri í Glæsibæjarsókn, það ár er í heimili Jón Jónsson 21 árs sonur Kristbjargar fæddur í Hrafnagilssókn og dóttir hennar María Rassmusdóttir 13 ára einnig fædd í Hrafnagilssókn. Eiríkur og Kristbjörg fara frá Brimnesi 1855 að Hafranesi í vinnumennsku. Þórður Eiríksson og Kristín Jónsdóttir koma í Húsmennsku til Eiríks 1853 og eru þar til 1855, fara þá í Vattarnes og bjuggu þar eftir það.
Eyjólfur Jónsson og Helga Guðmundsdóttir koma að Brimnesi 1855 komu þá úr húsmennsku á Hafranesi. Með koma börn þeirra Níels 4 ára og Guðrún 2 ára og ein vinnukona Margrét Bjarnadóttir 44 ára. Þau búa til 1866 að Eyjólfur fellur frá 28. desember það ár. Helga býr áfram næsta ár en fer síðan í vinnumennsku á Búðum og giftist þar seinni manni sínum Sigurði Þorsteinssyni. Með honum eignast hún dóttur Guðrúnu sem var lengi kunn hér í firði sem Gunna Sigurðar.
Árið 1860 koma að Brimnesi Bjarni Guðmundsson og Sólveig Jónsdóttir koma úr húsmennsku frá Berunesi, Sólveig var þaðan. Með þeim koma dóttir þeirra Guðbjörg 8 ára og vinnumaður og vinnukona. 1874 fara þau að Hólagerði með þeim þangað fara dóttir þeirra Steinunn Jakobína 12 ára, Jakob Guðmundsson bróðir Bjarna og Höskuldur Magnússon léttapiltur 16 ára. Guðbjörg dóttir þeirra var komin þangað áður og gift Erlendi Guðmundssyni.
Árið 1875 kemur að Brimnesi séra Hákon Espólín uppgjafaprestur frá Kolfreyjustað, með honum koma Ingibjörg Jónsdóttir 42 ára prestkona, Guðrún Sigríður 9 ára dóttir þeirra, Jón Guðmundsson 39 ára vinnumaður, Kristín Magnúsdóttir 35 ára kona hans, Jón Guðmundsson 29 ára vinnumaður, Sigurbjörg Jónsdóttir 21 árs kona hans, Jón Erlendsson 21 árs vinnumaður, Þórunn Jónsdóttir 52 ára vinnukona, Vilborg Björnsdóttir 19 ára vinnukona, Guðrún Jónsdóttir 3 ára og Anna Margrét Jónsdóttir 4 ára ekki sagt hvers börn þær eru og að endingu Ingibjörg Helgadóttir 8 ára niðursetningur.
Séra Hákon er á Brimnesi til æfiloka, hann dó þar 4. apríl 1885, 84 ára gamall. Hann var þá orðinn ekkjumaður í annað sinn. Ingibjörg kona hans dó 30. nóvember 1884.
Árið 1879 kom að Brimnesi frá Stöð, Árni Torfason 18 ára vinnumaður, hann er vinnumaður fystur árin en verður fljótlega ráðsmaður hjá presti og giftist Sigríði dóttur prests 20. september 1883 og eru þau sögð húshjón 1885 þegar Ingibjörg þeirra fyrsta barn fæðist 18. nóvember 1885. Ekki er ljóst hvort Árni fer frá Brimnesi á næsta ári, en 1887 er hann kominn að Selá, afbýli frá Eyri, þar fæðist þeirra annað barn Guðmundína Ragnheiður 7. nóvember 1887 (d. 1. sept. 1892 á Brimnesi). Hann er kominn aftur að Brimnesi 1889 og er þá sagður bóndi. Í manntali 1890 er hann sagður bóndi á Grund þá er þetta heimilisfólk: Árni bóndi 30 ára, Sigríður kona hans 24 ára, dætur þeirra Ingibjörg og Guðmundína Ragnheiður, Ísak Sigurðsson vinnumaður og Ásmundur Finnbogason vinnumaður, Ingibjörg Helgadóttir og Anna Jónasdóttir vinnukonur. Árni býr þar til 1903 að hann fer til Ameríku með konu, þrjú börn og vinnukonu.
Árni Torfason var fæddur á Streiti 10. maí 1860 sonur Torfa Árnasonar sem lengi var bóndi á Brekkuborg fæddur 1796 en var þá hjá syni sínum Sigurði á Streitisstekk og móðir haans var Guðrún Árnadóttir fædd um 1822 í Lóni. Sonur hennar var einnig Bjarni Bjarnason sem lengi bjó á Steinsstöðum á Búðum. Sigríður Helgadóttir er vinnukona hjá Árna 1896, á næsta ári er hún komin að Sævarenda þar eignast hún son 11. júní 1897 sem hún kennir Árna og skírður var Helgi Sigurður. Um næstu áramót er Sigríður komin að Merki með drenginn til Erlendar Jónssonar og Málfríðar Sveinsdóttur og hjá þeim elst Helgi upp. Kona Helga var Antonía Kristjánsdóttir og eru niðjar þeirra einu afkomendur Árna Torfasonar hér á landi.
Árið 1868 verður Vigfús Hallgrímsson 39 ára frá Búðum bóndi á þeim hluta Brimness sem Helga og Eyjólfur bjuggu á, kona hans var Ólöf Margrét Þorsteinsdóttir 24 ára fædd í Kirkjubæjarsókn. Þá eiga þau tvö börn, Björn 2 ára og Jóhönnu Helgu á fyrst ári. Áður var Vigfús vinnumaður hjá Helgu en Ólöf útaf?? með börnin. Þau búa til ársins 1889 en eru eftir það í húsmennsku til 1896 að þau fara að Búðum og byggja Bjarg. Þegar Árni Torfason fer til Ameríku kemur Ásgrímur sonur Vigfúsar að Brimnesi og kemur Vigfús þá með honum, hann deyr á Brimnesi 8. apríl 1911.
Jakob Pétursson og Ólöf Stefánsdóttir koma að Brimnesi 1886 frá Kolfreyjustað, þar sem þau höfðu verið í húsmennsku í nokkur ár. Í manntali 1890 er þetta fólk á Brimnesi: Jakob Pétursson bóndi 38 ára fæddur í Presthólasókn, Ólöf Stefánsdóttir kona hans 38 ára fædd í Hjaltastaðasókn og börn þeirra Guðríður 13 ára, Stefán 10, Margrét 6 og Hólmfríður 3 ára öll fædd hér í sókn, Jóhanna Friðrika Samúelsdóttir 55 ára ekkja fædd í Hálssókn og Indriði Finnbogason 23 ára vinnumaður. 1901 eru Guðríður og Margrét horfnar að heiman en Stefán, Hólmfríður og Jakobína í heimilinu og vinnumaður Jón Bjarnason. Jakob og Ólöf og þeirra börn fara að Búðum 1908.
Lúðvík Kristjánsson og Guðríður Jakobsdóttir koma að Brimnesi úr Stöðvarfirði árið 1900 sem húsmennskufólk í þurrabúð. Fara að Kömbum 1902 og eru næstu ár í Stöðvarfirði.
Guðmundur Þorgrímsson og Sólveig Eiríksdóttir koma að Brimnesi 1923 og er einn ábúandi til 1963 að jörðinni er skipt í Brimnes 1 og Brimnes 2.
Heimilisgarður er á bænum síðan 1928. Einnig friðaður smá blettur í félagi við við Brimnes 2 og í hann plantað trjáplöntum í tvö ár.
Þorgeir flytur póst í hluta sveitarinnar.
HÁS: Ábúðarhús timbur 1956. Hlaða 280 m3 steypt 1964. Hlaða 330 m3 votheysgryfja 90 m3 og fjárhús öll steypt 1954. Fjós f. 16 gripi og hauhús steypt 1958. Hlaða 630 m3 (flatgryfja) steypt 1975. Kálfahús og fjárhús stypt 1981. Verkfærageymsla timbur og járn 1988. Geymslur, bílskúr og hjallur timbur og járn 1950.
Eftir að gengið var frá þessum texta og Þorgeir Guðmundsson hafði yfirfarið hann, hefur sú breyting orðið, að Þorgeir féll frá 18. janúar 1994.
BRIMNES 2
Eigendur og ábúendur: Eiríkur Guðmundsson og Hulda Steinsdóttir. Keyptar búvélar: 1974 heyhleðsluvagn, sláttuþyrla og heyblásari. 1975 dráttavél, 1976 haugsuga. 1977 dráttavél. 1978 súgþurrkun, múgavél og heybindivél. 1983 múgavél og sláttuþyrla. 1984 heybindivél. 1986 baggatína. 1989 dráttarvélargrafa. 1990 rúllubindivél og pökkunarvél og baggagreip þessar þrjár vélar í félagi við Brimnes 1. 1991 dráttarvél og virðisaukajeppi. Fólksbíll er á bænum. Plastbinding fyrst 1990 og eingöngu nú.
Bústofn er sauðfé að meirihluta og kýr til mjólkurfraleiðslu og kálfar til kjötframleiðslu. Gripaföldi og var 1973. Stærst bú um 1989 en minnkað síðan vegna skerts réttar. Riðu ekki orðið vart. Frá 1968 hefur Eiríkur leigt jarðarafnot á Kolfreyjustað önnur en varpið. Frá 1984 hefur túnið í Brimnesgerði verið nytjað frá Brimnesi 2. Aukabúgreinar engar.
1986 byggði dóttir bónda Halldóra og maður hennar Hermann Kristjánsson íbúðarhús í landi jarðarinnar. Þau hjón hafa einungis lóð en ekki jarðarafnot og stunda vinnu á Búðum. Hermann er grenjaskytta í hreppnum.
Engin vinna utan heimilis í seinni tíð.
Girt hefur verið 3 ha svæði í félagi við Brimnes 1 og plantað skógarplöntum.
3.október 1981 snjóaði mikið og var ekki búið að smala allsstaðar, í þessu áfelli fórust um 20 kindur ær og lömb.
HÁS: Ábúðarhús 117 m2 steypt 1963. Fjós f. 9 gripi steypt 1958. Fjárhús steypt 1964. Hlaða 264 m3 steypt 1958. Hlaða 860 m3 timbur. Véla og verkfærageymsla steypt 1956. Fjárhús skúrbygging timbur 1988. Véla og verkfærahús timbur 1988.
Samantekt þessa vann Sigmar Magnússon í Dölum sennilega árið 1993 og birtist hún hér óbreytt.
–
— BRIMNES — FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR — SIGMAR MAGNÚSSON —
— BRIMNES, ÝMISLEGT UM ÁBÚENDUR OG FLEIRA —
–