
Endapunktar
Í mörg ár sendi Ásta Snædís okkur Endapunkta frá Stöðvarfirði, verulega góðar smákökur verð ég að segja. Osta- og smjörsalan stóð fyrir uppskriftasamkeppnum og gaf út bæklinga með allskonar uppskriftum, meðal annars með Endapunktum.
Maja vinkona Ástu var dugleg að safna bæklingunum og prófa það sem í þeim var. Endapunktarnir vöktu þvílíkar vinsældir sem endapunktur á hverri máltíð með góðu kaffi hún bakaði yfirleitt úr kílói og setti í frysti í litla stálstauka og dróg fram við hvert tækifæri sem gafst.
— SMÁKÖKUR — ÁSTA SNÆDÍS — STÖÐVARFJÖRÐUR – JÓLIN — GRÁÐAOSTUR —
.
Endapunktar 30-35 stk
250 g möndlumassi (best að blanda saman konfektmarsipani og bökunarmarsipani)
100 g fjórsykur
1 eggjahvíta
50 g rifinn gráðaostur
50 g hreinn rjómaostur
1 tsk súrmjólk (má sleppa)
brætt súkkulaði.
Best er að hafa hráefnin við stofuhita. Hnoðið saman möndlumassa og flórsykri, bætið við eggjahvítu og hnoðið áfram.
Hrærið saman rjómaosti, gráðaosti (og súrmjólk) og blandið út í deigið.
Hnoðið vel.
Sé deigið of þykkt má bæta við eggjahvítu en verði það of þunnt má bæta í það flórsykri.
Setjið deigið með teskeið á vel smurða plötu og bakið í miðjum ofni við u.þ.b. 200°C í 7-8 mín.
Látið kólna. Dýfið slétta fletinum á kökunum í brætt súkkulaði.
Ágæt tilbreyting er að setja 1 msk af sérríi, koníaki eða líkjör út í deigið.
Endapunktarnir eru hinn fullkomni endir á góðri máltíð eða með kaffinu.
Geymið í vel lokuðu íláti í frysti.
— SMÁKÖKUR — ÁSTA SNÆDÍS — STÖÐVARFJÖRÐUR – JÓLIN — GRÁÐAOSTUR —
.
