Borðað í Brussel. Á vegum Ferðaskrifstofunnar Mundo verður farin matar- og sælkeraferð til Brussel í haust. Við fórum og könnuðum aðstæður og prófuðum áhugavera staði og leituðum að bestu vöfflunni í Brussel. í Morgunblaðinu birtist grein um ferðina. Þar er bæði okkar upplifun og neðst nefndu nokkrir sem vel þekkja til í Brussel sína uppáhaldsstaði.
Það var vor í lofti í Brussel á dögunum þegar Albert Eiríksson matgæðingur lenti þar í borg. Gróðurinn var farinn að lifna við, fuglarnir í óða önn að undirbúa hreiðrin með tilheyrandi kórsöng og brúnin létt á mannfólkinu mót hækkandi sól. Albert hleraði Íslendinga búsetta í Brussel um hvaða kaffi- og veitingahús væru ómissandi.
Belgía er aðeins um þriðjungur af flatarmáli Íslands og athygli vekur að höfuðborgin Brussel er fimmta stærsta borg landsins með rúmlega 160 þúsund íbúa. Hins vegar búa um milljón manns á stórhöfuðborgarsvæðinu og er hún þannig séð langstærsta borg landsins.
Brussel er fræg matarborg og þar kennir áhrifa víðs vegar að úr heiminum. Hafandi heimsótt Brussel þarf ekki að koma á óvart að 130 Michelin-staðir eru í Belgíu.
Flestir tengja krækling og franskar kartöflur, sem reyndar eru upphaflega belgískar, við Brussel ásamt vöfflunum víðfrægu sem hægt er að fá á hverju götuhorni og næstum því óbærilega gott súkkulaði. Einnig er Belgía víðfræg fyrir bjórmenningu, en um 180 bjórverksmiðjur eru í landinu.
Almenningssamgöngur í Brussel eru afar auðveldur og þægilegur ferðamáti. Engar tvær lestarstöðvar í borginni eru eins. Allar eru þær til fyrirmyndar snyrtilegar, skreyttar listaverkum og spiluð tónlist sem breytist eftir því sem líður á daginn.
Eitt af frægustu kennileitum Brussel er Manneken pis, Pissustrákurinn, lítil stytta á götuhorni í miðbænum. Fjöldinn allur af ferðamönnum safnast við styttuna á hverjum degi til að sjá hana og mynda hana, en flestum kemur á óvart hversu lítil hún er. Það sem fæstir ferðamenn vita er að í Brussel er líka Janneke pis, pissustelpa sem er gaman að skoða.
Ekki síðra og öllu stærra er listaverkið Atomium, sem gnæfir yfir og sést víða að. Það er í Heysel, var hannað af André Waterceyn og reist fyrir heimssýninguna árið 1958. Listaverkið myndar líkan af einni grunneiningu járnkristalls.
Kræklingur og franskar kartöflur
Belgar eru, eins og við Íslendingar, stoltir af sögunni. Má þar nefna að nokkrar af þekktustu teiknimyndasögunum eru frá Belgíu, t.d. Lukku-Láki, Tinni, Strumparnir, Svalur og Valur, Viggó viðutan og Axel.
Hversu ótrúlega sem það kann að hljóma eru franskar kartöflur upprunnar í Belgíu. Saga þeirra nær aldir aftur í tímann. Vitað er að Thomas Jefferson, forseti Bandaríkjanna, bauð upp á það sem um hálfri öld síðar var farið að kalla franskar kartöflur, í veislu í byrjun 19. aldar. Alvöru franskar kartöflur eru sannkallað lostæti og eru seldar í litlum götuveitingahúsum í bréfpokum sem fólk svo ýmist sest niður með eða borðar á göngunni. Það er ekki sama hvernig kartöflurnar eru matreiddar. Þær þarf að tvísteikja upp úr nautafitu og kæla á milli. Hitastigið á fyrri steikingunni má ekki vera of hátt, þær á að steikja við 160 gráður í þrjár mínútur en við meiri hita í seinna skiptið og skemmri tíma.
Bjórinn, unaðslegar vöfflur og súkkulaðið
Belgískur bjór er mörgum vel kunnur. Löng hefð er fyrir bjórbruggun og Belgar eru upp með sér af bjór sínum og drekka vel af honum. Belgar framleiða vel yfir þúsund bjórtegundir og að meðaltali drekkur hver Belgi 84 lítra árlega. Eitthvað hefur þó dregið úr drykkjunni því aldamótaárið 1900 var meðaldrykkjan 200 lítrar á mann.
Það er engu líkara en súkkulaðiiðnaðurinn í Belgíu sé ígildi stóriðju. Finna má litlar og stórar súkkulaðibúðir í hverri götu í miðbænum. Fjölmörg af þekktustu súkkulaðivörumerkjum sem við þekkjum hér á landi eru belgísk. Víðast má fá vandað súkkulaði, en eins og gengur má finna súkkulaði af ýmsum gæðaflokkum. Fjölbreytnin er mikil og súkkulaðilistaverkin gleðja augu ferðamanna- og heimamanna. Það er auðvelt að láta freistast af góðu súkkulaði í borginni fallegu.
Belgískar vöfflur eru víðfrægar, þær er hægt að fá svo að segja á hverju götuhorni, í vöfflubílum og á flestum kaffihúsum. Liège-vöfflurnar eru götuvöfflur, kringlóttar, með sykurperlum inni í og sykurhúð á. Oftast eru þær óreglulegar í laginu. Brusselvöfflur eru þunnar, léttar eins og bréf, ekki óreglulegar, með heitu, bræddu súkkulaði. Að flestra mati eru þær betri. Sitt hvor uppskriftin er notuð í þessar tvær vöffluuppskriftir.
Kaffihúsin. Kaffihúsaflóran er bæði fjölbreytt og eftirtektarverð. Þéttsetin kaffihús eru um alla borg. Á Place Royale er mikið hljóðfærasafn á mörgum hæðum og kaffihús efst með fallegu útsýni yfir borgina, en nokkur glymjandi er þar inni.
Nespresso Avenue Louise 1
Margir þekkja svissneska Nespresso-kaffið. Á góðum stað í Brussel er stór Nespresso-búð á tveimur hæðum – falleg og smekklega hönnuð. Þó að hér sé ekki um hefðbundið kaffihús að ræða er vel þess virði að gera sér ferð í búðina til að sjá hönnunina. Þar fást allar vörulínur Nespresso og hægt að bragða á þeim öllum. Alltaf gaman að hitta fólk sem er vel að sér í sínu fagi og er gott í að deila því með gestum.
Café Belga Place Eugène Flagey 18
Petrína Rós Karlsdóttir, leiðsögumaður, þýðandi og frönskukennari, settist á skólabekk í Brussel fyrir ekki svo löngu og naut belgískra kaffi- og veitingahúsa. Eitt af uppáhalds kaffihúsum Petrínu Rósar í Brussel er Café Belga, sem hún segir að sé mjög hipp og kúl kaffihús og veitingahús í hinu margrómaða Ixelles-hverfi borgarinnar. „Þar er mjög gott úrval af bjór og smáréttum, frábærar samlokur og mjög góðar súpur í hádeginu. Skemmtileg tónlist og starfsfólkið er yfirleitt ungt námsfólk. Netsambandið er mjög gott og gott úrval erlendra dagblaða og tímarita. Á kvöldin breytist staðurinn í skemmtistað með plötusnúðum sem er vinsæll hjá ungu fólki. Helgardögurðurinn er algjört lostæti og á sanngjörnu verði. Cafe Belga er í Art Deco-stíl og var gert upp fyrir nokkrum árum enda er það til húsa í gamla útvarpshúsinu þar sem ófáar upptökur á þekktum listamönnum hafa farið fram, m.a. upptökur á tónlistaratriðum í frönsku myndinni l’Artiste sem hlaut Óskarinn
Café de l’Opéra Rue des Princes 4
Place de La Monnaie er torgið fyrir framan óperuna. Þar er Café de l’Opéra með fjölbreyttum matseðli, góðum samlokum, kræklingum og frönskum, súpum og undurgóðum vöfflum. Fleira góðgæti má þar fá, eins og litla rétti sem eru sérsniðnir fyrir þá sem eru á leið í óperuna. Staðurinn, sem er á tveimur hæðum, er í Art Deco-stíl. Meðalaldur þjónanna er frekar hár og þeir vita upp á hár hvað þeir eru að gera. Fyrir framan er stórt útisvæði með borðum og stólum. Þaðan er ljúft að fylgjast með lífinu á torginu. Café de l’Opéra hefur lítið eða ekkert breyst síðan það var stofnað um 1900. Þá kom fólk og borðaði fyrir óperusýningar og að loknum sýningum kom tónlistarfólkið og þá var drukkið og borðað langt fram á morgun.
Corica Rue du Marché aux Poulets 49
Lítið og smekklegt kaffihús þar sem hægt er að fá mjög margar kaffitegundir. Bæði er hægt að taka með sér kaffibaunir eða láta mala fyrir sig á staðnum og bragða á ólíku kaffi og uppgötva að ekki er sama kaffi og kaffi. Allt kaffiáhugafólk mun gleyma sér í úrvalinu, þarna má finna kaffibaunir frá öllum helstu kaffisvæðum heimsins.
Luwak-kaffi á Corica er frá Indonesíu, kopi er indónesíska orðið fyrir kaffi. Luwak kaffið er einstaklega gott en það er þó vinnsluaðferðin á baununum sem vekur mikla athygli þótt sumum þyki hún ekki lystaukandi. Luwa-þefkettirnir finna og éta þroskaðar kaffibaunir, þær fara heilar í gegnum meltingarveginn á þeim, að því búnu eru þær hreinsaðar og brenndar. Þetta er eitt dýrasta kaffi í heimi.
Le Corrège, Rue de Corrège 90
„Af þeim veitingastöðum sem ég hef virkilega gaman af að fara á vil ég nefna stað sem er hér í hverfinu sem við búum í. Hann heitir Le Corrège. Staðinn eiga og reka hjónin Nancy og Philip. Hann eldar og hún sér um allt annað. Það er alltaf tekið vel a móti gestum, staðurinn hógvær og heimilislegur, Nancy létt í lund og freyðivínið flæðir.
Ólíkir listamenn fá að hengja myndirnar sínar a veggi staðarins þannig að alltaf er eitthvað nýtt að sjá. Staðurinn er í einu af mörgum húsum götunnar, íbúðir á efri hæðum, lætur lítið yfir sér og á heitum dögum eru nokkur borð sett út á gangstétt,“ segir Ástrós Gunnarsdóttir, dansari og pilateskennari, sem hefur búið í Brussel í nokkur ár ásamt manni sínum Þorfinni Ómarssyni.
Ástrós mælir með Gaspacho et se garniture, Pastilla de Chèvre og Tartare de saumon au coriandre frais. Fyrir þá sem borða fuglakjöt er Cuisse de canard confite, lentilles à huile de truffe (andalæri með linsubaunum í truffluoliu) einstaklega gott hjá þeim.
Ef þau eiga ostrur eru þær alltaf afbragð með cava-glasi en staðurinn býður alltaf gesti velkomna með cava í boði hússins!
Verði er stillt í hóf, súpa á 5, salat á 15, fiskur og kjöt á 17-19. Eftirréttir eru einnig i lægri kantinum, 5-6.
Það er alltaf gaman og gott að koma á Le Corrège og það er nauðsynlegt að panta borð því staðurinn er lítill, tekur u.þ.b. 30 manns í sæti.
Patrick Roger Chocolatier Place du Grand Sablon
„Konfekthús Patricks Roger er ævintýralegt að heimsækja. Patrick er, auk þess að vera konfektgerðarmeistari, listamaður og vinnur skúlptúra úr bronsi. Staðirnir hans eru hrein upplifun, listaverk úr bronsi eða súkkulaði skreyta veggi, borð og glugga innan um konfektmolana hans. Úrvalið af molum er dásamlega fjölbreytt og skemmtilegt og hreinlega nauðsynlegt að kaupa góða öskju til að taka með heim. Mæli svo sannarlega með konfekthúsunum hans,“ segir Fríða Gylfadóttir, sem settist á súkkulaðiskólabekk í Belgíu síðasta sumar og opnaði í kjölfarið súkkulaðikaffihús á Siglufirði.
Ristorante Bocconi Rue de I‘Amigo
Ármann Andri Einarsson og Sigríður Sigurjónsdóttir hafa oft komið til Brussel, þau eru dugleg að prófa nýja veitingastaði og eiga sér uppáhaldsveitingahús í matarborginni ljúfu, Ristorante Boconi. „Í næstu götu við hið fræga Grand Place-torg er falin matarperla. Með sitt ítalska og suðurevrópska ívaf stendur veitingastaðurinn Bocconi. Þar er þægilegt andrúmsloft, framúrskarandi þjónusta og matargæði sem gera Bocconi að einum af uppáhaldsstöðum borgarinnar,“ segir Ármann og bætir við að sé þess kostur sé upplagt að hafa meðferðis færan listamann sem spilað geti fagra tóna á flygilinn við hótelbarinn sem er í sama húsi yfir einum fordrykk eða svo. Ef slíkt er illmögulegt er tilvalið að byrja kvöldið til borðs á kampavíni og ostrum. Ostrurnar eru í algjörum sérflokki. Matseðillinn er einfaldur en ríkulegur – nútímalegur og klassískur í bland. Þau mæla með því að tala við þjónana og óska eftir óvissuferð úr eldhúsinu, sem að öllum líkindum mun skila sér í afbragðs upplifunarferðalagi um Ítalíu og Suður-Evrópu.
Amadeo Rue Sainte-Catherine 28
„Þessi veitingastaður er einn af uppáhalds veitingastöðum í Brussel hjá okkur fjölskyldunni,“ segir Svanhvít Valgeirsdóttir, myndlistarkona og förðunarmeistari, sem hefur búið í Brussel í fimm ár ásamt eiginmanni sínum Peter Rittweger. Daníel sonur þeirra uppgötvaði staðinn þegar hann var í háskólanámi í Belgíu. Þangað fara margir háskólanemar og borða af því að hann er ódýr og hægt að borða nægju sína af bestu rifjum í Evrópu. Til gamans má geta þess að Daníel er að læra til kokks á Michelin-veitingastað í Hamborg.
Veitingastaðurinn Amadeo er í St. Katelijne, sem er mjög miðsvæðis i Brussel. Staðurinn sjálfur er skemmtilega innréttaður eins og bókasafn að hluta til og að hluta til eru gamlar upprunalegar innréttingar sem minna á byrjun síðustu aldar látnar njóta sín. Mínusinn við þennan stað er salernin, en maturinn er það góður að það er ekki hægt að láta það trufla sig. Svínarif með tilheyrandi kost 17,95 evrur og fylgir með bökuð kartafla með dásamlegu kryddsmjöri. Tveggja lítra rauðvínsflaska stendur á hverju borði og er verðið miðað við einingarnar sem eru drukknar úr flöskunni. Svo lengi sem lystin leyfir er bætt rifjum og kartöflum á diskinn. Staðurinn er opnaður klukkan 18 og er best að vera komin þangað 10 mínútum áður til að fá borð. Þó er hægt að panta fyrir hópa.
Annar staður sem Svanhvít nefnir er Tram experience, sem hún ætlar að prófa á næstunni. En þar erum við komin í dýrari veitingarstað. Fimm stjörnu kokkar og sælkerafæði. Ekið er í um tvo tíma um Brussel með sporvagni sem er innréttaður fyrir veitingastað. Þetta þarf að panta með fyrirvara, eins og á flestum veitingastöðum í Brussel. Í borginni fer fólk mikið út að borða. Belgar hittast frekar með vinum og vandamönnum á veitingastöðum heldur en að bjóða heim. Fólk sem ætlar að ferðast til Brussel til að fara út að borða ætti að kynna sér veitingastaði og panta áður. Til gamans má geta þess, segir Svanhvít, að í Brussel er mikill hávaði á veitingastöðum, þar sem fólk er að tala saman enn liggur ekki í símunum.
Það er ógleymanlegt að dvelja í matarborginni Brussel og upplifa dásemdirnar sem borgin hefur upp á að bjóða. Fjölmargt fleira gott er í boði en það sem kemur fram hér að framan. Víst er að lokkandi matarilminn leggur langt út fyrir miðborgina – hvert sem haldið er.