Hvannir – matjurtabók
Hvannir – matjurtabók kom út árið 1926 eftir Einar Helgason. Í inngangi er rakin garðrækt fyrr á öldum, bæði hjá Rómverjum, Grikkjum og Egyptum. Alveg stórmerk bók og fróðleg.
— ÍSLAND — KARTÖFLUR — RABARBARI — EGYPTALAND — GRÍMUR THOMSEN — GRIKKLAND —
.
Í inngangi er rifjuð upp saga garðræktar á Íslandi. „Þörfin er mikil fyrir oss Íslendinga að færast nú í aukana og fara að rækta sem allra mest af mjatjurtum; Það bætir búskap þjóðarinnar, bætir heilsufarið, eykur andlega og líkamlega vellíðan. Það er álit margra hinna mætustu manna, að mataræði hafi áhrif á skaplyndi mannsins og andans göfgi, að þeir, sem lifa á léttri fæðu, verði hóglátari og siðprúðari en hinir, sem mestmegnis lifa á kjötmeti. Eftir því væri það ekki ólíklegt, að viðurværi okkar Íslendinga á umliðnum öldum hafi haft áhrif á lundarfa og háttu þjóðarinnar, gert karlana, þótt ágætismenn væru inn við beinið, stirða og stríðslundaða, eins og Grímur Thomsen segir að Halldór Snorrason hafi verið. Ósvikinn var kjarninn þar, og bezt gæti ég trúað því að svo væri enn”
Vel hirtur garður er bæjarbót og búmannsþing hið mesta, en illa hirtur garður launar sjaldnast fyrirhöfnina.
.
ÁBURÐUR
Í kaflanum um áburð skrifar Einar um búfjáráburð, fugladrit, salernaáburð, ösku og sót, safnhauga, fiskiúrgang, þang og þara og ýmsar tegundir tilbúins áburðar:
SAFNHAUGAR
Það er margt, sem getur orðið að áburði, ef því er haldið til haga og hirt um það eins og vera ber. Þetta þyrftu allir garðeigendur að gera, því oftast er það áburðarskorturinn, sem veldur uppskerubresti þeirra yrkisplantna, sem annars geta vaxið hér.
Gæti garðræktin orðið áhugamál alþjóðar, þá er sigur vís. Hún er eitt af þeim viðfangsefnum, sem aldrei verður of snemma gaumur gefinn og – aldrei of seint.
—
Einar Helgason fæddist 1867 í Garðsárdal í Eyjafirði. Hann lærði garðyrkju, fyrst hjá Schierbeck landlækni í Reykjavík en síðan í Danmörku.
Einar var fyrst starfsmaður Búnaðarfélagsins en síðan garðyrkjustjóri hjá hinu íslenzka garðyrkjufélagi í Reykjavík og forstöðumaður gróðrarstöðvarinnar þar.
Hann ræktaði og prófaði fjöldann allan af plöntutegunum í gróðrarstöðinni og skrifaði fjölda greina og nokkrar bækur um reynslu sína í þeim efnum, þar á meðal Bjarkir, leiðarvísir í trjárækt og blómarækt. Rósir, leiðarvísir í ræktun inniblóma og Hvannir, matjurtabók.
Bækur Einars voru einu leiðbeiningaritin í þessum efnum um áratuga skeið, og náðu miklum vinsældum meðal almennings. Einar var jafnan óþreytandi við að hvetja fólk til ræktunar blóma og trjáa. Einar lést árið 1935*
*Tímarit.is