
Hvernig bragðast maturinn? Er ekki allt í lagi hjá ykkur?
Það er alltaf gaman að fylgjast með faglærðum þjónum á veitingastöðum sem eru með „augu á hverjum fingri”. Þjóna sem lesa umhverfið vel og láta öllum líða vel.
Veitingastaðir eru það margir að útilokað er að manna þá með fagmenntuðum þjónum. Þeir sem ráðnir eru, gera sitt besta, en þeir þurfa þá að fá góðar leiðbeiningar og þjálfun, læra að hreyfa sig hljóðlega þannig að gestirnir verði lítið varir við þá, að snerta ekki gestina, matur og drykkur komi frá hægri, fylla vínglös aldrei meira en hálf. Mikilvægt er að þjónninn kunni mat- og vínseðil og geti kynnt fyrir gestunum hverjir möguleikarnir eru. Það er ótvírætt merki um að þjónn sé ófaglærður ef hann tekur disk af borðinu um leið og einhver klárar, þó að allir séu ekki búnir.
Sumum virðist hafa verið kennt að koma sí og æ að borðinu til að spyrja: „Hvernig bragðast maturinn?“ eða „Er ekki allt í lagi hjá ykkur?” Það virkar stundum eins og lærð kurteisi, en það er aldrei þægilegt. Gestirnir láta vita ef eitthvað er að og gefa merki ef vantar aðstoð, en þá er auðvitað mikilvægt að sjá til hliðar og líka með hnakkanum þegar gestur gefur bendingu.
Eitt er víst að þjónar sem hafa tilfinningu fyrir því að láta fólki líða vel eru gulls ígildi og þeir sem eru með þennan „neista“ ættu að njóta þess í launum og vera jafn eftirsóknarverðir og framúrskarandi matreiðslumenn, því að góður matur og drykkur bragðast enn betur ef andrúmsloftið sem þjónninn skapar er vingjarnlegt, umhyggjusamt og þægilegt.
Til að forðast allan misskilning þá tengist myndirnar færslunni ekkert.
.
— BORÐSIÐIR — GÖMUL RÁÐ — VEITINGAHÚS —
— HVERNIG BRAGÐAST MATURINN? —
.