Peruterta, þessi gamla góða
Einhvern veginn finnst mér eins og perutertur hafi verið í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.
„Það er ekki lyftiduft í uppskriftinni minni en það má örugglega bæta við 1 tsk ef fólk vill.” segir bökunarkonan Borghildur Jóna á Stöðvarfirði.
🍐
— TERTUR — PERUR — ÍSLENSKT — PERUTERTUR — FASBÓK — STÖÐVARFJÖRÐUR — DÍSUDRAUMUR —
🍐
Peruterta
Botnarnir
4 stk. egg
140 g sykur
60 g hveiti
40 g kartöflumjöl
1/2 tsk salt
Súkkulaðikrem
5 eggjarauður
5 msk. flórsykur
100 g súkkulaði, brætt
4 dl. rjómi
1 stór dós niðursoðnar perur.
Botnar: Þeytið saman egg og sykur. Bætið við hveiti og kartöflumjöli og bakið í tveimur formum 22-24 cm í 10 mín við 200°C.
Krem: Þeytið vel saman eggjarauður og flórsykur, bætið súkkulaðinu varlega saman við, stífþeytið rjóman og setjið varlega saman við.
Setjið annan botninn á tertudisk, vætið vel í honum með safanum, setjið helminginn af súkkulaðirjómanum á og nokkrar perur skornar í helminga, hinn botninn yfir, vætið með safanum.
Dreifið úr restinni af súkkulaðirjómanum yfir og raðið perunum á.
Sprautið þeyttum rjóma á hliðarnar og ofan á að vild.