Grænn aspas vafinn í hráskinku með Hollandaise sósu
„Vinur okkar hann Angantýr ákvað að útbúa glæsilegan og bragðgóðan forrétt” segir Svanhvít Valgeirsdóttir myndlistarkona og förðunarmeistari sem býr og starfar í Brussel. Þau hjónin héldu matarboð fyrir nokkra vini sína. Fyrir utan aspasinn var boðið upp á Svanskjúkling í aðalrétt og í desert var einfaldur fljótlegur eftirréttur.
— ASPAS — HOLLANDAISE — SVANHVÍT VALGEIRS — #2017Gestabloggari8/52 —
.
Hér má sjá allar uppskriftirnar úr matarboðinu og ásamt myndum
.
Grænn aspas vafinn í hráskinku með Hollandaise sósu (fyrir fjóra)
12 stk stór grænn ferskur aspas
8 sneiðar parmaskinka (hráskinka)
rifinn parmesan ostur
svartur malaður pipar
ólífuolía
Hollandaise-sósa
5 egg
250 g smjör
2 msk vatn
sítrónusafi
salt, hvítur pipar, cayenne pipar
Brjótið eggin og setjið í ílát sem þolir hita. Pískið vatninu saman við. Setjið nú ílátið með eggjunum í vatnsbað og hitið varlega. Pískið allan tímann og fylgist vel með hitanum. Vatnið undir á að hitna upp að suðu en alls ekki að bullsjóða. Gott er að hafa ekki mjög mikið vatn í pottinum undir. Það er hægt að fylgjast með hitanum með því að stinga puttanum ofan í eggjablönduna – hún á ekki að vera það heit að það sé ekki hægt. Smám saman fara eggin að þykkna. Pískið áfram og bætið smjörinu smám saman út í. Það er ágætt að hafa það ekki of kalt og vera búinn að skera í teninga. Pískið á meðan smjörið bráðnar. Þegar allt smjör er komið saman við þarf að halda áfram að píska þar til að sósan þykknar. Það er vatn í smjörinu og eftir því sem að það gufar upp og eggin hitna þykknar sósan.
Þegar sósan er að verða þokkalega þykk er sítrónusafanum bætt út í. Það þarf safa úr allt að hálfri sítrónu en ekki setja allan í einu. Setjið hann smám saman og bragðið á milli. Saltið sósuna og kryddið með smá hvitum pipar eða cayennepip¬ar.
Sjóðið aspasinn í 8-10 mínútur, að því loknu takið aspasinn úr vatninu og leggið þrjá saman ofan á tvær hráskinku sneiðar, hellið smá ólífuolíu yfir og piprið. Vefjið hráskinkunni utan um aspasinn. Grillið í 4-5 mín.
Setjið eina kippu á hvern forréttadisk, stráið parmesan osti yfir og hollandaise sósu yfir.
— ASPAS — HOLLANDAISE — SVANHVÍT VALGEIRS — #2017Gestabloggari8/52 —
.