Sætkartöflusúpa Kristjáns og Rögnu
Sómafólkið Kristján og Ragna búa á Laugum í Reykjadal og starfa þar við Framhaldsskólann. Á ferðalagi okkar Bergþórs og tengdapabba um Norðurland buðu þau okkur til hádegisverðar, undurgóða sætkartöflusúpu og fjölbreyttar óhefðbundnar snittur. Allt þetta bragðaðist vel, alveg einstaklega vel.
#2017Gestabloggari 26/52 — FLEIRI SÚPUR
.
Sætkartöflusúpa Kristjáns og Rögnu. Fyrir 6 – 8 manns
2 stórar sætar kartölfur
1 rauð paprika
1 grænt chilli
1 stór blaðlaukur
2 tsk. paprikuduft
6 tómatar
4 – 5 msk. tómatmauk með cherry tómötum
1 – 1 ½ l. vatn
1 tsk. salt
2 stk grænmetisteningar
3 dl. salsasósa
2 dl kókosmjólk
Byrjið á að flysja kartöflurnar og skerið þær í litla bita. Skerið síðan papriku og blaðlauk í litla bita. Hreinsið chilli og skerið í litla bita. Léttsteikið paprikuna, blaðlaukinn og chilli ásamt paprikudufti i stórum potti. Setjið kartöflurnar fljótt út í og skerið tómatana í litla bita og bætið út í pottinn. Hellið 1 lítra af vatni saman við ásamt salti og grænmetisteningum. Sjóðið þetta í 20 – 25 mínútur. Að þessum tíma liðnum er soðið síað frá og hráefnið er þeytt með töfrasprota þar til það er orðið að þykku mauki og er síðan hellt út í soðið aftur. Hrærið vel í þessari blöndu og hellið salsasósunni og kókosmjólkinni út í. Súpan er borin fram með rifnum osti og Doritos flögum.
Grófkjarnabrauð með sveppum og wasabi
Brauðið skorið í litla teninga. Sveppir skornir og steiktir
Brauðið smurt með smjöri og salatblað sett ofan á. Steiktir sveppir settir ofan á salatblaðið. Wasabi er skorið smátt og stráð yfir
Blinisbrauð með reyktum silungi
Blinisbrauð er smurt með smjöri og salatblað lagt ofan á og skreytt með reyktum silungi og sinnepssósu.
Grænmetisbuff og bankabygg með sítrónusósu
Bankabygg með sítrónusósu sett ofan á salatblað (klettasalat)
Skorin vínber og rifnar gulrætur stráð yfir og grænmetisbuff sett ofan á
Fitnessbrauð með síld og kartöflum
Blandað salat stráð yfir fitnessbrauðið.
Soðnar karltöflur saxaðar smátt og steiktar á pönnu ásamt skornum lauk. Borðedik og sykri stráð yfir og þetta léttsteikt saman. Kartöflulaukblandan er sett ofan á brauðið og síld þar ofan á.
#2017Gestabloggari 26/52 — FLEIRI SÚPUR —
.