BESTA KAFFIMEÐLÆTIÐ Á KAFFIHÚSI Á ÍSLANDI ER Á VOPNAFIRÐI
Við Bustarfell á Vopnafirði er heimilislegt kaffihús, Hjáleigan. Hægt er að fá hina ýmsu kaffidrykki, heitt kakó og fjölbreytt bakkelsi, sem allt er bakað á staðnum. Þið bara verðið að gera ykkur ferð og sjáið ekki eftir því. Fanney, sem er af Viðfjarðarætt, tekur ljúflega á móti ykkur.
#Sumarferðalag5/15 — VOPNAFJÖRÐUR — KAFFIHÚS —
.
Minjasafnið á Bustarfelli er einn af best varðveittu torfbæjum á Íslandi, enda verið í eigu Íslenska ríkisins til varðveislu síðan 1943.
Aðstandendur safnsins hafa lagt metnað sinn í að sýning gripa safnsins sé sett upp á sem raunverulegastan hátt þannig að gestir nái að upplifa heimilið rétt eins og íbúar hússins hafi brugðið sér frá stundarkorn.
Fjölskyldan bjó í safninu og sýndi það sem slíkt frá 1943 til 1966. Allir sem heimsóttu safnið fengu kaffi og með því hjá fyrst Jakobínu og þá Elínu dóttur hennar. Þegar þjónustuhús var byggt við safnið árið 2004-5 þótti því eðlilegt að hafa þar aðstöðu til að gestir safnsins gætu fengið sér kaffi og kökur eftir safnaferðina eins og áður.
Fyrstu árin rak safnið sjálft lítið kaffihús í þjónustuhúsinu sem kallað var Hjáleigan sem frá gamalli tíð eru leigujarðir út frá höfuðbólunum. Síðan árið 2016 hefur rekstur kaffihússins Hjáleigunnar verið leigður út til einstaklinga.
Fanney Hauksdóttir rak Hjáleiguna ásamt því að vera safnstjóri Minjasafnsins á Bustarfelli frá 2009 til 2015. Hún var safnstjóri áfram til ársins 2017 en eins og áður er sagt þá var rekstur kaffihússins þau tvö sumur leigður út. „Sumarið 2017 kom ég að krossgötum í lífinu og hóf Mastersnám haustið 2018. Þá vantaði mig vinnu yfir sumarið. Það verður úr að ég sæki um að reka kaffihúsið Hjáleiguna á eigin kennitölu. Á sínum tíma fór ég í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað og var svo heppin að ná því að fá kennslu í matreiðslu síðasta árið hennar Guðbjargar Kolku sem matreiðslukennari þar. Þaðan á ég margar FRÁBÆRAR uppskriftir.
Sú sérstaða sem ég hef gert útá í sumar eru nokkrar. Í fyrsta lagi þá reyni ég eins og ég get að stilla verði í hóf þannig að fólk geti hugsað sér að taka sveitarúntinn í kaffihúsið Hjáleiguna oft yfir sumartímann, ekki hvað síst heimafólk. Í öðru lagi vil ég að kökusneiðarnar sé hnallþórulegar að gömlum og góðum sveitasið. Í þriðja lagi þá bíð ég einungis uppá heimabakað bakkelsi. Þá reyni ég að hafa bæði þjóðlegar uppskriftir og helst þá uppskriftir sem ég hef annaðhvort fengið hjá Bustarfells fjölskyldunni, hér á Vopnafirði eða frá einhverjum sem tengist mér eins og ömmum eða gömlum frænkum. Það geri ég af virðingu við safnið og þá arfleifð sem það kynnir.
Þá býð ég uppá köku helgarinnar sem eru oftar en ekki nýrri uppskriftir eða þá gamlar uppskriftir sem ég hef fundið og poppað upp. Þær uppskriftir sem ég sendi ykkur hér eru þess eðlis að ég hef þróað þær þar til mér finnst þær standast nútímavæntingar.”
Skonskubrauðterturnar. Þesskonar brauðtertur voru oft á borðum ömmu minnar, hennar Gunnhildar í Heiðarseli í Hróarstungu. Ég var með nokkrar uppskriftir en fannst engin þeirra standast alveg það sem ég mundi eftir hjá henni ömmu, mjúk skonsa með innihaldsríkum mayonnaise-salötum (stundum smjöri og hangikjöti reyndar líka), þ.e. eða mayonnaise bragðið yfirgnæfi ekki það sem í salatinu er heldur sé til þess ætlað að mýkja botnana enn frekar. Endirinn varð því sá að blanda saman uppskrift sem ég fékk hjá Helgu Jakobsdóttur sem hún fékk frá móður sinni frá Hvammstanga og uppskrift sem notuð var hér á Bustarfelli.
Skonskubrauðterturnar
250 g hveiti
70 g matarolía
4 ½ tsk lyftiduft
½ tsk salt
2 msk sykur
4 – 5 egg
Mjólk eftir þörfum. Deigið á að vera svipað á þykkt og vöffludeig, kannski heldur þynnra svo deigið renni vel eftir pönnunni þannig að kökurnar verði ekki of þykkar.
Steiktar eru 5 skonsur á pönnukökupönnu. Passa að hafa ekki of mikinn hita þá bakast skonsurnar of hratt. Á spanhelluborðinu sem ég nota og hæsta stilling er 9, er ég að nota 6-7. Skonsurnar eiga að vera ljósar á litinn, eins og pönnukökur.
Hangikjötssalatið sem ég vel að nota í skonsubrauðtertuna er einfalt og hefðbundið frá fyrri tíð:
500 gr. Mayonnaise
ca. 1 dl. súrmjólk
Mayonnaise sett í skál og þeytt aðeins með handþeytara. Þá er súrmjólkinni bætt út í og hrært vel.
Í aðra skál er sett:
ca 200 gröm af gæða hangiáleggi. Best er ef hægt er að nálgast heimareykt læri af t.d. veturgömlu, sjóða og nota það í salatið. Það er eðall!. Þar sem ég var búinn með það sem ég átti hef ég verið að nota Birkireykt hangiálegg frá SS eða hangiálegg frá Kjarnafæði.
1 hálfdós blandað grænmeti
2 harðsoðin egg.
Hangikjötið skorið smátt, vökva helt af blandaða grænmetinu, eggin skorin í tenginga með eggjaskera. Blandað vel saman. Hellið Mayonnaise-blöndunni yfir í nokkrum slöttum til að forðast að mayonnaise-ið verði of mikið, þe. að salatið verði ekki þunnt og löðrandi í mayonnaise.
Svo eru skonsurnar teknar. Smurðar aðeins með mayonnaise-blöndu og salatið sett yfir, svo næsta skonsa ofaná og koll af kolli þar til skonsur eru búnar. Tertan skreytt. Voilá!
Sveitapiltsins draumur
Ég kalla rúgbrauðstertuna mína sveitapiltsins draum, í takt við bóndadóttur með blæju, sem er dásamlegur eftirréttur þar sem rúgbrauð kemur við sögu. Upphaflega fann ég uppskriftina á leiðbeiningamiðstöð heimilanna.
Sr. Davíð Þór Jónson var einn af þeim fyrstu til að smakka þessa tertu hjá mér og spyr mig síðan þegar ég hitti hann hvort ég baki ekki ennþá svona rúgbrauðstertur. Ég var aldrei alveg ánægð með þessa köku. Mér fannst ekki gott að stappa banana og rífa eplin…var frekar drullumallslegt og ég vil hafa eitthvað til að bíta í. Svo fannst mér botnarnir of þunnir fyrir minn smekk. Því varð sveitapiltsins draumur til.
Sveitapiltsins draumur
Uppskrift:
Svamptertubotn
4 egg
200 g sykur
125 g rifið seytt rúgbrauð
60 g hveiti
1 msk kartöflumjöl
1 ½ tsk lyftiduft
Egg og sykur þeytt þangað til er ljóst og létt. Þurrefnum blandað varlega saman við. Sett í lausbotna form, ekki minna en 26 cm, með háum hliðum og bakað við 200° í 20-25 mínútur.
Marenges
3 eggjahvítur
½ dl. hvítur sykur
1 ½ dl púðursykur
1 ½ bolli Rice Crispies.
Eggjahvítur stífþeyttar. Hvítum sykri og púðursykri blandað saman og sett rólega út í eggjahvíturnar á meðan þeytt er. Bakað í jafnstóru formi og svampbotninn í 1 klst. 10 mín. við 150 gráður C.
Samsetning: Þeytið einn lítra af rjóma. Takið ca. ¼ af þeytta rjómanum frá til að sprauta meðfram kökunni. Brytjið 3 epli (jonagold eru millisúr og góð í þetta að mínu mati) í mjög smáa bita (ekki rífa) sem og 1 banana og 150 gr. rjómasúkkulaði (ekki rífa heldur, betra að fá bragðið þegar bitið er í þannig blandast súra bragðið frá eplunum og sætan frá banana og súkkulaði). Blandið ávöxtunum saman við þeytta rjómann.
Setjið svampbotn á tertudisk og bleytið ofurlítið upp með kaffi. Setjið rjómann ofaná svampbotninn og Marenge botninn ofan á rjómann. Ofan á marenge-inn er sett hnetusmjörskaramellubráð.
Karamellubráð:
50 gr. smjör
55 gr. púðursykur
smá vanilludropar
¼ bolli rjómi
Allt sett saman í pott og hitað að suðu.
Þá sett útí 3 matskeiðar af hnetusmjöri og látið bráðna í karamellunni. Sett yfir marenge-botninn.
Rabarbarahraun Fanneyjar
Upphaflega er uppskriftin úr uppskriftabók sem Samband austfirskra kvenna gaf út og heitir Gagn og Gaman 2. Þar er uppskriftin með eplum og kölluð Eplahraun.
Að sjálfsögðu þurfti ég að gera þessa uppskrift að minni, eins og margar aðrar. Við gerð þessarar uppskriftar var Björg Einarsdóttir á Bustarfelli sérstakur ráðgjafi og smakkari.
Smyrjið eldfastmót. Setjið í formið niðurbrytjaðan rabarbara, ekki mjög þykkt lag en þokkalegt. Best ef rabarbarinn hefur verið frystur, þá verður hann ekki jafn harður. Stráið niðurbrytjuðum döðlum yfir rabarbarann í mótinu og svolítið af salthnetum og blandið.
Hellið yfir Baylies yfir blönduna, dágóðum slatta.
Rabarbarahraun Fanneyjar
200 g smjör
200 g hafragrjón
100 g hveiti
100 g púðursykur.
Hnoðið saman þar til þétt kúla og myljið yfir rabbabarablönduna. Bakið í ofni við 180 gráður C. í ca 20 – 25 mín.
Elínarkökur
Elín Methúsalemsdóttir var síðasta húsfreyjan í gamla bænum á Bustarfelli og fyrsta húsfreyja nýja hússins. Fanney fékk þessa uppskrift hjá afkomendum Elínar sem minnast hennar þegar þær eru gerðar og borðaðar, enda hafa allir ættleggir frá henni fengið uppskriftina til eignar. Elín lést í júní 2019 og í jarðarförinni hennar var m.a. boðið uppá þessar kökur, sem hún gerði í sinni húsfreyjutíð alltaf fyrir hátíðir. Uppskriftina fékk hún hjá móður sinni Jakobínu Soffíu Grímsdóttur, eiginkonu Methúsalems Methúsalemssonar.
Elínarkökur
100 g smörlíki
1 b sykur
1 b púðursykur
2 egg
1 tsk vanilludropar
2 b hveiti
1 tsk salt
1 tsk natron
100 g suðusúkkulaði saxað.
Hnoðað, búnar til litlar kúlur og aðeins flattar út með fingri. Bakað við 175 gráður C. í 15. mín.
Ekta ömmukakó
Eitt af því fyrsta sem ég ákvað að gera var að taka kakóvélina sem hér var í húsinu úr umferð. Svo fór ég að leita að uppskrift að kakói eins og amma mín heitin, Bergþóra Stefánsdóttir á Haugum, gerði handa okkur. Ég endaði með þessa uppskrift sem mér finnst mjög góð og er úr bókinni Matur og drykkur eftir Helgu Sigurðardóttur sem gefin er út 1946.
Ekta ömmukakó
½ bolli gott kakó eða 30 g ósætt súkkulaði
½ bolli sykur
1/8 tsk salt
1 bolli vatn
1 – 2 tsk vanilludropar
Blandið kakói, sykri og salti saman í potti og hrærið út með vatni og sjóðið í 5 mín. og hrærið í á meðan. Kælið. Látið í glerkrukku með loki og geymið í ísskáp. Notað í kakómjólk bæði heita og kalda.
Hjáleigukaffið. „Ég vildi einnig hafa kaffi sem hefði einhverja sérstöðu, eitthvað öðruvísi en allir aðrir gera. Það varð því úr að ég ákvað að prufa að brenna baunir sjálf. Ég kaupi því fjórar tegundir af grænum kaffibaunum hjá Kaffitári, blanda saman eftir eigin formúlu og brenni. Kaffibaunirnar eru látnar standa í u.þ.b. 3-4 daga fyrir notkun og aldrei geymdar lengur en í einn mánuð. Eftir það fara þær að missa bragð. Allt kaffi er malað á staðnum um leið og helt er uppá til að ná fram bestu kaffigæðunum.” segir Fanney