Mig langar til að deila með ykkur smá fróðleik um olíur og hvaða olíur ég ráðlegg við matargerð.
.
— ÓLÍFUOLÍA — MATUR LÆKNAR — FEITUR FISKUR —
💧
Þegar talað er um olíur og hollustu þeirra er verið að tala um omega olíur. Omega olíur eru oftast þekktar sem omega 3, 6 og 9 fitusýrur. Omgea 3 og 6 eru okkur lífsnauðsynlegar því þurfum við að fá þær úr fæðunni. Hafa verður í huga að jafnvægi þarf að vera á milli omega 3 og 6 til að líkaminn geti nýtt sér þær á heilsusamlegan hátt. Það er til dæmis til að minnka bólgur og uppbyggingu heilbrigðra frumna og viðhalds hjarta og heila. Það sem er mikilvægt að vita er að omega 6 fitusýrur framleiða efnasambönd sem geta verið bólgumyndandi en omega 3 fitusýrur framleiða efnasambönd sem geta unnið á bólgum. Það er ástæða þess að það þarf jafnvægi í hlutföllum á omega 3 og 6 fitursýrum.
Það er talið að hlutfallið í Evrópu hafi hækkað frá því að vera 1:1 í að vera 15:1 og fara jafnvel uppí 25:1. Það segir okkur það að ójafnvægið hækkar og þar með auknar líkur á bólgumyndun. Með iðnvæðingunni og auknum matvælaiðnaði breyttist hlutfallið. Smjörlíkisframleiðsla og framleiðsla jurtaolíu eigi sinn þátt í þessu ójafnvægi.
Omega 3
er að finna feitum fiski, hörfræolíu og lýsi. Omega 6 er úr jurtaolíum (maísolía, sojaolía, sólblómaolía sem og úr hnetum og fræjum). Þessar olíur eru ódýrar sem er ein af ástæðunum fyrir því að þær eru notaðar í matvælagerð (sérstaklega hjá mötuneytum og í matvælaframleiðslu).*
Omega 9
er ekki lífsnauðsynleg en það þýðir að líkaminn framleiðir hana. Samt sem áður er talið að fæða með omega 9 hafi heilsusamlegan ávinning.**
Af hverju þurfum við að hafa varan á okkur með olíur ?
Olíur eru fjölhæfar og geta verið mjög hollar en það er nauðsynlegt að kaupa vandaðar olíur. Mælt er með að geyma þær rétt. Þar sem olíur þola illa sólarljós er mælt með því að kaupa þær í dökkum glerflöskum. Mikilvægt er líka að hafa flöskuna ekki opna að óþörfu, til að takmarka snertingu við súrefni og auka geymsluþol.
Omega 9 eru í eftirfarandi olíum: Ólífuolía, avakadóolía, repjuolía og möndluolía.
Í matargerð og til steikingar:
Ólífuolía
Ég mæli með að steikja úr ólífuolíu, hún er einn mikilvægasti partur af Miðjarðarhafsmataræðinu*** og hefur notið mikilla vinsældar víða um heim. Það er ágæt þumalputtaregla að nota gulu ólífuolíuna til steikingar en þá grænu eða jómfrúarolíuna út á salat eða grænmeti. Hafið í huga að jómfrúarolían hentar alls ekki til steikingar.
Repjuolía
hefur verið kölluð ólífuolía norðursins og hún er framleidd hérlendis á nokkrum stöðum. Repjuolía er kaldpressuð og inniheldur bæði omega 3-6 og 9 fitursýrur, auk þess að vera rík af E og K vítamíni ásamt fólatsýru. Hún hentar til steikingar og góð í heimagert mæjónes og aðrar sósur.
Kókosolía
þolir hátt hitastig án þess að skemmast og því er hún góð til steikingar.
Íslenska smjörið
er gott til steikingar en þá þarf að passa uppá hitastig á pönnunni. Gott er að temja sér að steikja á miðlungshita og passa uppá að smjörið verði ekki dökkbrúnt eða svart. Eiturefni geta myndast við steikingu.
Olíur eru misjafnar og mikilvægt að velja góðar hollar olíur.
Beta Reynis næringarfræðingur las færsluna yfir og veitti góð ráð. Hún vinnur að ítarlegri grein um olíur.
*Látum fæðuna vera lyf okkar. Dr. Paul Clayton. Pharmaco – næring er hin nýja leið til heilsu, lækninga og hamingju.
**https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48386
*** (mataræði sem hefur jákvæð áhrif á lífstílssjúkdóma, þar með hjarta-og æðasjúkdóma og dregur úr áhættu á skykursýki 2)
💧
— ÓLÍFUOLÍA — MATUR LÆKNAR — FEITUR FISKUR —
💧