Nýtt ár – ný tækifæri
Áramótin má kalla „nýja byrjun.“ Hver einasta stund ársins býður okkur reyndar upp á möguleikann á slíku, en nýtt ár hefur eitthvað einstakt við sig. Þetta er tíminn þar sem við getum horft fram á við og gefið sjálfum okkur leyfi til að dreyma stórt, sett okkur markmið og stigið skref í þá átt sem gerir okkur stolt, glöð og hamingjusamari.
Um áramót set ég mér markmið fyrir komandi ár, að lágmarki tíu atrið, og hef gert í fjölmörg ár. Listann kalla ég framkvæmdalista. Það er áhugavert að skoða lista síðustu ára og sjá allt það sem hefur orðið að veruleika. Það er líka ágætt að viðukenna að ekki nást alltaf öll markmiðin en það er óþarfi að berja sjálfan sig niður fyrir slíkt.
— GLEÐILEGT ÁR — ÁRAMÓT — DRAUMAR — HUGLEIÐINGAR — MARKMIÐ —
.
Fortíðin er liðin – það sem skiptir máli er framundan
Oft er áramótunum fylgt eftir með hugsunum um það sem mistókst á árinu sem liðið. En hvernig væri að sleppa þessari byrði? Fortíðin er liðin og þetta má ekki snúast um hvað við gerðum áður heldur hvað við veljum að gera nú og á morgun. Hugsum um fortíðina sem kennslutíma sem við lærðum af en ekki stað sem við dveljum á. Við getum verið þakklát fyrir margt í fortíðinni, núna er mér efst í huga þakklæti fyrir fjögur síðustu ár á Ísafirði.
Forvitni opnar dyr
Forvitni er ein af æðstu gjöfum sem við eigum. Þegar við spyrjum: „Hverju get ég náð?“ „Hvað gerist ef ég prófa?“ þá opnast möguleikar, eitthvað nýtt.
Á komandi ári skulum við vera forvitin. Könnum eitthvað nýtt, lærum nýtt, heimsækjum nýja staði og kynnumst nýju fólki og leggjum okkur fram um að umgangast fólk sem hefur góð áhrif á okkur.
Ljáðu draumum vængi
Við eigum öll drauma. Sumir eru háleitari en aðrir. Allir eiga það sameiginlegt að þeir þurfa orku okkar til að verða að veruleika. Hvað hefur það verið sem þig hefur alltaf langað að gera, en ekki þorað? Taktu fyrsta skrefið – jafnvel þó það sé smálegt. Hvert skref skiptir máli.
Settu þér markmið
Markmið eru eins og viti sem leiðbeinir okkur í ölduróti daglegs lífs. Hvort sem það er stórt markmið, eins og nýr starfsvettvangur, eða lítilræði, eins og að lesa fleiri bækur, gefur það okkur stefnu og tilgang. Skrifaðu markmiðin niður og skiptu þeim í smærri skref – hvert skref er skref á leið til árangurs.
Sinntu áhugamálum – það gleður
Áhugamálin eru oft tengd kjarna persónu okkar. Ef þér finnst gaman að lesa, skrifa, teikna, elda, hreyfa þig – gerðu þá meira. Viðfangsefni sem vekja gleði gera dagana áhugaverðari og veita orku til að takast á við önnur verkefni.
Veldu jákvæðni
Jákvæð nálgun er líkt og að veita sólarljósi í skuggana. Aðstæður verða ekki alltaf ákjósanlegar, en þá skiptir máli hvernig við mætum þeim. Veldu þær hugsanir sem lyfta þér upp, umkringdu þig fólki sem hvetur þig og gefðu af jákvæðni til annarra.
Áramót – nýtt upphaf
Látum árið framundan verða þann tíma sem við horfum á framtíðina með þori og bjartsýni, opnum hjörtum fyrir nýjum upplifunum og leyfum draumum okkar að rætast.
Gleðilegt nýtt ár!
— GLEÐILEGT ÁR — ÁRAMÓT — DRAUMAR — HUGLEIÐINGAR —
.