
Döðluterta með karamellu
Á kaffifundi á Akureyri hjá hjónunum Jóni Hlöðveri Áskelssyni frænda mínum og Sæbjörgu Jónsdóttur, eða Löllu, eins og hún er kölluð, fékk Bergþór döðlutertu sem hann hefur minnst á á hverjum degi síðan með græðgisglampa í augum. Lalla segir að hún sé ein af þessum skotheldu í uppskriftasafni heimilisins, enda klárast hún alltaf um leið. Við erum ekkert að tala um eina sneið í þessu tilfelli. Rétt svo að Bergþór náði mynd af henni áður en ráðist var á hana af fullum krafti.
Það er langt frá því að allar döðlutertur séu eins. Þessi er með kókospálmasykri, möndlumjöli, súkkulaði og svo auðvitað döðlum. Það á við döðlutertur eins og ýmsar aðrar tertur; Betri daginn eftir ef hægt er að fela hana.
— DÖÐLUTERTUR — KARAMELLUKREM — AKUREYRI — KÓKOSPÁLMASYKUR —
.

Döðluterta með karamellu
3 egg
1 dl kókospálmasykur
2 dl möndlumjöl
2 tsk lyftiduft
50 g brytjað 70% súkkulaði
1,5 dl smátt brytjaðar döðlur
1/3 tsk salt.
Karamella
1 dl púðursykur
1 dl smjör
1 dl rjómi – eða rúmlega
1/3 tsk vanilla
1/3 tsk salt.
Botn
Þeytið vel saman egg og sykur, blandið restinni saman við.
Bakið við 180°C í 15-20 mín. Látið kólna.
Karamella
Setjið allt í pott og látið sjóða á lágum hita þangað til þetta hefur þykknað lítið eitt og dökknað. Látið kólna, samt ekki alveg.
Setjið tertuna á tertudisk.
Setjið þeyttan rjóma yfir og loks karamelluna yfir. Auðvitað má skreyta að vild, t.d. með bláberjum.
— DÖÐLUTERTUR — KARAMELLUKREM — AKUREYRI — KÓKOSPÁLMASYKUR —
.