
Veitingastaðurinn North við Hafnarstræti á Akureyri
Veitingastaðurinn North við Hafnarstræti á Akureyri er yndislegur staður sem var opnaður 2022. Hugmyndafræðin er, eins og hann Rafn yfirkokkur sagði: Ykkur á að líða eins og þið séuð komin í mat heim til mín. Og það voru orð að sönnu, aðeins er hægt að taka 19 manns í sæti í ákaflega notalegu og kósí rými, matseðillinn er fastur smakkseðill, enda aðeins tveir í eldhúsinu.
Þessi seðill er bara æði, soðið brauð, bleikja, reykt ýsa, sveppabyggottó, grísakinnar og nautahryggur og tilgreint er hvaðan allt kemur. Hér eru sex aðalréttir auk lystauka í upphafi og tveggja eftirrétta. Hægt er að para alla rétti með drykkjum ef þess er óskað. Ásamt Rafni er Jón í eldhúsinu og þjónaði þeir okkur á þægilegan og vinsamlegan hátt. Fyrst kom hann með fjóra lystauka, rauðrófur með krækiberjum og mysingi og jólasíld með söl, fennel og dilli, lambalundir með skessujurt og greinilega veeel niðursoðið lambaseyði. Við byrjuðum að stynja.
Þetta var einstaklega ljúf upplifun og eins og lagt er upp með, heimilislegt andrúmsloft og vel vandað til allrar matreiðslu, svona sparistaður eins og einn gesturinn sagði.
— MATUR OG DRYKKUR — VEITINGAHÚS – AKUREYRI — RAGNHEIÐUR LILJA —
.











— MATUR OG DRYKKUR — VEITINGAHÚS – AKUREYRI —
.
