Gleðileg jól kæru vinir!
Fyrir okkur eru jól og áramót dýrmætur tími – tími til að hægja á, líta yfir árið og njóta notalegheita og samveru, oft í kringum matarborðið; með áti, stundum jafnvel ofáti. Um leið hugsum við til þeirra sem hafa átt erfitt ár, þeirra sem hafa misst eða staðið frammi fyrir áskorunum. Það sem lagt er á sumt fólk, áföll á áföll ofan, er stundum svo hryggilegt að maður trúir varla að lífið geti orðið svo óréttlátt.
Á tímamótum sem þessum er gott að staldra við og velta því fyrir sér hvort við viljum breyta einhverju – hvort sem það snýr að því sem við setjum á diskinn, jólasiðum, jólaboðum eða einfaldlega hvernig við verjum tíma okkar. Stundum gerir það ótrúlega gott að stokka aðeins upp.
Eitt af stóru verkefnum ársins var útgáfa matreiðslubókar. Undanfarin sumur höfum við eldað á heilsuvikum austur í Breiðdal, þar sem uppskriftirnar hafa smám saman þróast og fengið að þroskast. Bókin kom út í ágúst og í stað hefðbundins útgáfupartýs ákváðum við að bjóða fólki heim nokkra sunnudaga í röð – í rabarbarapæ, spjall og áritanir. Úr þessu varð hlýleg og persónuleg leið til að fagna áfanganum og hitta fólk augliti til auglitis.
Í haust stigum við Bergþór svo nýtt skref og settumst á skólabekk. Hann hóf nám í ítölsku við Háskóla Íslands og ég leiðsögunám við Menntaskólann í Kópavogi. Það hefur verið hressandi og gefandi að takast á við ný verkefni, læra meira um landið okkar og sögu – og ekki síður að kynnast fjölbreyttu og skemmtilegu fólki.
Á árinu höfum við líka minnt okkur á að dagleg hreyfing skiptir máli, hvort sem hún felst í hjólatúr, göngutúr, sundi eða einfaldlega því að vera aðeins meira á ferðinni í dagsins önn. Eins er gott að vera meðvitaður um hvað við setjum í körfuna í matvörubúðinni og á diskinn – að velja hollan, góðan mat án öfga, með jafnvægi og án samviskubits. Lítil skref, endurtekin reglulega, gera oft mest gagn.
En auðvitað er „hamagangur á Hóli“, hvort sem er í starfi eða í ræktinni, lítils virði ef ekki fylgir rétt hugarfar með áherslu á þakklæti fyrir það sem við höfum í þessu landi vellystinganna, lágmarkspirring út af tittlingaskít sem skiptir engu máli, gleði í stað fýlu, tilhlökkun í stað eftirsjár.
Við erum innilega þakklátir fyrir allt það fólk sem hefur fylgt okkur á árinu, stutt, hvatt og deilt með okkur samtölum, hugmyndum og góðum stundum. Með þessar upplifanir í farteskinu göngum við til nýs árs með jákvæðnina að vopni, opinn huga og von um að árið fram undan verði gott. Megi árið fram undan verða ykkur ljúft, skapandi og gott.
— MATREIÐSLUBÓKIN —
.


