Saltfisksnittur með hvítlauk
Þetta er hlægilega einfalt, en slær alltaf í gegn. Þetta er frekar stór uppskrift, en ef afgangur verður, er gott að eiga þetta lostæti í ísskápnum. Þetta er líka slumpuppskrift, það má alveg breyta hlutföllum eftir smekk.
.
— SALTFISKUR — SNITTUR —
.
Saltfisksnittur með hvítlauk
800 g soðinn saltfiskur
2 dl mjólk
2 dósir sýrður rjómi
100 g mæjónes
3-8 rifin hvítlauksrif eftir smekk
A.m.k.1 tsk hvítlauksduft, 1/2 tsk pipar, cayenne á hnífsoddi.
2 snittubrauð, mjó (flûte), gott er að hægt sé að stinga heilum bita upp í sig, þessi mjóu í Bónus eru ágæt.
Sjóðið saltfiskinn í mjólk og kælið. Stappið með gaffli, ekki mjög smátt, ekki er verra að finna fyrir saltfiskbitum undir tönn.
Blandið sýrðum rjóma, majonesi, hvítlauk og kryddi saman í skál og hrærið saltfiskinn út í. Bætið í kryddi þar til bragðsinfónía fer að hljóma, en gott er að láta standa yfir nótt.
Steikið 1 hvítlauksrif í sneiðum í 1/2 dl af olíu og fjarlægið hvítlaukinn (annars brennur hann síðar). Steikið snittubrauðssneiðar öðrum megin við allháan hita í olíunni og setjið á disk. Bætið olíu á pönnuna, ef hana tekur að þverra.