Hörpudiskur í grænmeti
Þegar ég útbjó þennan rétt, skar ég allt grænmetið niður og setti í skálar. Þannig að þegar ég byrjaði sjálfa matreiðsluna var allt hráefnið tilbúið – minnti svolítið á sjónvarpskokkana sem ekki þurfa að leita að hráefninu um allt eldhús. Þeir sem ekki eiga hörpudisk eða finnst hann allt of dýr geta auðveldlega sleppt honum.
Hörpudiskur í grænmeti
Karríolía:
2 msk karrí
2 msk vatn
1 dl ólífuolía
Hrærið saman og látið standa yfir nótt. Fleytið olíunni ofan af og sigtið.
Fyrst sýður maður 1 dl linsubaunir í léttsöltu vatni
Steikt grænmeti:
1/2 rauð paprika
1 stilkur sellerí
1/4 laukur
1/4 blaðlaukur
2 hvítlauksgeirar
Blandið öllu saman á pönnu og látið krauma í nokkrar mínútur í karríolíunni.
Soð:
1 dl kjötsoð
2 dl rjómi
1/2 tsk cummin
1/2 tsk karrí
örlítið af cayenne pipar
salt og pipar
Blandið öllu saman, sjóðið í 5 mín. og þykið dálítið með maizena mjöli
Að síðustu er hörpudiskur úr einum poka penslaður, saltaður og pipraður. Grillað á rifflaðri pönnu í 2 mín. hvorum megin
Blandið saman við grænmetið. Bætið soði, karríolíu og linsubaunum út í. Skreytið með graslauk og gulri papriku.