
Waldorfssalat
Waldorfsalat var fyrst búið til á Waldorf Astoria-hótelinu í New York rétt eftir 1890 og er jafnan eignað Oscar Tschirky, yfirþjóni hótelsins. Upphaflega samanstóð salatið einungis af eplum, selleríi og majónesi – ekki með hnetum og vínberjum. Síðar, upp úr 1920, var farið að bæta við valhnetum og vínberjum, sem í dag teljast ómissandi í klassísku útgáfunni. Í sumum tilvikum bættust einnig salatblöð við, þótt það sé ekki alltaf gert nú á dögum.
Notkun þeytts rjóma í Waldorfssalat er líklega evrópsk eða norræn aðlögun, og vel gæti hún verið íslensk hefð, jafnvel þótt erfitt sé að fullyrða það með vissu. Sumum finnst hrátt sellerí of sterkt á bragðið; þá er gott ráð að skera það smátt, láta liggja í heitu vatni í um eina mínútu og sigta síðan. Húsráð sem ég fékk frá Dóru Emils er að bæta smávegis af eplamús út í salatið, sem mýkir bragðið og dregur enn frekar fram eplin.
— JÓLIN — SALÖT — DÓRA EMILS — VÍNBER — EPLAMÚS — SELLERÍ —
.
Waldorfsalat
1/4 l rjómi
1/2 b mæjónes
1 dl eplamús
2-3 epli, afhýdd og skorin í grófa bita
1 stilkur sellerí, skorið smátt
1 b gróft saxaðar valhnetur
2 b græn vínber, skorin í helminga
Stífþeytið rjóma, blandið mæjónesi og eplamús saman við, þá eplum, selleríi, valhnetum og vínberjum. Blandið vel saman, kælið og berið fram kalt.
.

–
— JÓLIN — SALÖT — DÓRA EMILS — VÍNBER — EPLAMÚS — SELLERÍ —
—


Ég hef alldrei notað eplamús en ætla að prufa það. Hinsvegr set ég smá slettu af hvítvínsediki og hunangi í mitt salat.
Takk fyrir allar góðu uppskriftirnar og geðilegt ár.
Comments are closed.