Downton Abbey sítrónukjúklingur. Það kemur kannski ekki svo á óvart að til eru nokkrar matreiðslubækur með réttum úr hinum stórgóðu þáttum Downton Abbey. Hér á bæ er búið að liggja yfir uppskriftum úr þáttunum og prófa fjölmargar. Því miður voru ekki til kjúklingabringur í búðinni og því úrbeinaði ég heilan kjúkling. Plúsinn fyrir aftan hvítlaukinn og kryddin í uppskriftinni táknar að það má alveg vera meira en segir – rétturinn batnar bara við það. Það er stórfínt að hafa gratíneraðar kartöflur með
Downton Abbey sítrónukjúklingur
8 kjúklingabringur
2-3 msk ólífuolía
salt og pipar
4+ hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1+ tsk rósmarín
1+ tsk salvía
1+ tsk timían
50 g smjör
1 1/2 sítróna
1/2 dl koníak
steinselja
5 gulrætur
1 stór rauð paprika
5-7 kartöflur
1/2 blaðlaukur eða 1 rauðlaukur.
Blandið saman í stórri skál rósmarín, salvíu, timían, olíu, helmningnum af hvítlauknum, salti og pipar. Setjið smjörið í teninga, bætið saman við ásamt kjúklingnum. Kreystið safann úr sítrónunum yfir og hellið loks koníakinu – blandið vel. Látið standa í klst. eða í ísskáp yfir nótt.
Skerið grænmetið niður, ekki of litla bita, og setjið í eldfast form ásamt hvítlauk. Leggið kjúklingabitana yfir, setjið smjörklípu á kjúklingabitana. Eldið í 150° heitum ofni í 1 1/2 klst. Stráið steinselju yfir áður en rétturinn er borinn fram
Aðrir réttir sem tengjast Downton Abbey: