Gaeng hung wao tao hu. Oft er gaman að panta rétt á veitingastað og prófa eitthvað svipað heima, þ.e. ef manni líkar rétturinn. Þennan rétt, Gaeng hung wao tao hu, grænmeti í grænni karrísósu með steiktu tófú, pantaði ég á taílenskum veitingastað í Berlín og var strax ákveðinn í að gúggla hann.
Þetta var svo prófað í eldhúsinu hans Braga, alltaf gott að fá lánaðar töfrahendur með þessa sérstöku tilfinningu við matseldina.
Athugið að habanero chili er eitursterkur, en það má prófa sig áfram með það chili sem fæst hverju sinni, eftir því hvað maður vill láta varirnar hitna mikið. Þessir pínulitlu rauðu í austurlenskum búðum eru mjög sterkir, en eftir því sem chili er minna, því sterkara er það. Þessir stóru t.d. í Bónus eru mjög léttir.
Það er ekkert að óttast; ef rétturinn verður mjög sterkur, er alltaf hægt að tempra það með því að bæta hrísgrjónum á diskinn.
Skemmst er frá því að segja að við kláruðum upp til agna. Algjört sælgæti.
Gaeng hung wao tao hu
Tofu:
200 gr silken tofu pakkað í eldhúspappír og sett farg á í 30 mín.
Húðið með maizena mjöli og steikt þar til gullið.
Skorið í bita og geymt þar til í lokin.
Mauk:
4 cm engifer
2 tsk grænt curry paste
1 habanero chili (rótsterkur)
6-7 hvítlauksrif
1 stór laukur
2 sítrónugrasstangir
smá olía
Blandið saman með töfrasprota
Sósa:
grænmeti (t.d. sveppir, eggaldin, paprika, gr. baunir) steikt upp úr maukinu.
1-2 dósir kókosmjólk.
Setjið maukið á pönnu, skerið grænmetið niður og steikið það í maukinu.
Setjið tófúbitana út í í blálokin.
.Æði með miklu af hrísgrjónum