Frönsk möndlukaka
Heba Eir kom færandi hendi með þrusu góða tertu sem hún bakaði eftir uppskrift franskrar ömmu sinnar – franskar ömmur kunna þetta. Ætli megi ekki segja að þetta sé ekta frönsk ömmu-möndlukaka – mjög klassísk “gateau de mamie” eins og sítrónu/jógúrtkaka og sandkökur. Þessi möndlukaka er oft borðuð á jólum en hæfir þó við öll tilefni. Kakan er virkilega einföld og gómsæt fyrir utan hvað þetta er glæsileg kaka! Við emjuðum svo góð var möndlukakan franska 🙂
— FRAKKLAND — MÖNDLUKÖKUR — ÖMMUR — KAFFIMEÐLÆTI — EFTIRRÉTTIR —
.
Frönsk möndlukaka
1 og 3/4 dl. Grískt jógúrt
200 g sykur
4 stór egg
3 & 3/4 dl hveiti
2 dl möndlumjöl
3 tsk lyftiduft
3/4 tsk salt
1 tsk möndludropar
2 tsk vanilludropar
1 & 3/4 dl olía (sólblómaolía, isio 4 olía / lyktarlaus matarolía)
Glaze eða Sýróp
1 tsk (fínt) rifinn appelsínubörkur
3 msk ferskur appelsínusafi
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk möndludropar
1 & 1/2 dl flórsykur (plús meira til að setja ofan á, ef vill)
1 & 1/4 dl sneiddar möndlur / möndluflögur
Stillið ofninn á 175°. Takið bökunarform (23cm hentar vel) og nuddið með ósöltuðu smjöri eða olíu. Leggið til hliðar.
Setjið bökunarpappír á ofnplötu og dreifið úr möndluflögunum, þetta fer inn í ofn í 15 mínútur eða þar til þær eru orðnar gylltar / ljósbrúnar. Hristið aðeins upp í möndlunum á 5 mínútna fresti. Leggið svo til hliðar og leyfið möndlunum að kólna.
Blandið saman appelsínusafa, appelsínuberki, flórsykri, vanillu- og möndludropum í litla skál fyrir sýrópið. Hrærir saman þar til áferðin verður silkimjúk og leggið til hliðar.
Í stóra skál, blandið saman jógúrti, sykri og eggjum. Hrærið þar til vel blandað.
Bætið við hveiti, möndlumjöli, lyftidufti, salti, vanillu- og möndludropum, hrærið lauslega og “rétt” leyfið því að blandast.
Bætið olíu við og hrærið vel. Ekki hafa áhyggjur ef þetta virðist skilja sig í fyrstu, haldið áfram að hræra þar til mjúkt. Tekur um 2-3 mínútur.
Hellið deiginu í formið. Bakið í u.þ.b. 35-45 mínútur eða þar til kakan verður stinn, gangið úr skugga um að hún sé bökuð í gegn og stingið í miðjuna. Ef kakan er orðin of brún á endunum en ekki tilbúin í miðjunni, leggið þá álpappír lauslega yfir og bakið seinustu mínúturnar. Passið vel að ofbaka ekki kökuna. Látið kólna í um 10 mínútur.
Á meðan kakan er ennþá heit, takið matreiðslupensil, teskeið eða þægilegan hníf og dreifið úr öllu sýrópinu yfir kökuna. Takið möndluflögurnar og stráið yfir alla kökuna á meðan sýrópið er ennþá blautt, ýtið mjúklega á möndlurnar svo þær límist við. Leyfið kökunni að kólna alveg, sáldrið flórsykri yfir ef vill og bjóðið upp á.
.
— FRAKKLAND — MÖNDLUKÖKUR — ÖMMUR — KAFFIMEÐLÆTI — EFTIRRÉTTIR —
.