Apótek restaurant. Notalegur kliður í Apótekinu minnir á bistro í París, létt angan berst af og til úr eldofninum, mikil lofthæð, virðulegir gluggar og flottar innréttingar þar sem hægt er að velja um prívat bása eða ekki, nálægðin við Austurvöll er yndisleg – umvefjandi umhverfi í hjarta borgarinnar. Úr veitingasalnum er hægt að fylgjast með matreiðslumönnunum að störfum því opið er inn í eldhúsið. Allt svo notalegt.
Gengilbeinan okkar var af góðu litháísku bergi brotin, góð á manninn, gerði glögga grein fyrir öllu sem í boði var og stjanaði við okkur á fumlausan og faglegan hátt.
Alúð hennar var í takt við töfrabrögðin sem áttu eftir að berast úr eldhúsinu. Það er svo frábært þegar jafnvægi er fullkomið í eldamennsku, bragð af ýmsu tagi harmonerar saman, eins og í yndislegum hægum kafla úr Mozart konsert og gælir við sál og líkama. Já, þeir kunna sitt fag. Það var ekkert svona: – vá hvað þetta er gott, en þetta er nú ekkert spes, – nei, það var hægt að mæla með öllu.
Það er dálítið í tísku að deila allmörgum smáréttum með félögum sínum. Þannig smakkar maður margt og þarf ekki að sjá eftir því að hafa pantað það sem maður er með, ef hinir eru með eitthvað girnilegra. Hér er m.a. stílað inn á þetta. Við þrír fengum 6 smárétta tilboð og aðalrétt. Það segir mikið um kokkana að við höfðum því miður ekki látið vita af því að einn af okkur væri grænmetisæta, en þeir göldruðu fram grænmetisrétti í bland, sem voru svo frábærir að hver fruma líkamans klappaði af fögnuði. Réttirnir voru bornir fram á tré- eða steinplöttum og voru eins og listaverk að sjá.
Hægt er að fá þrjár tegundir af hvítvíni og þrjár af rauðvíni hússins. Gengilbeinan okkar elskulega mælti með frönsku Sancerre hvítvíni frá Le Château de Sancerre og Frontera rauðvíni frá Chile (Cabernet Sauvignon). Látlaust vín sem passaði bara alveg ágætlega með matnum.
Bakað blómkál
Geitaostur og rauðrófur
Nautatataki með tarragon sósu og pikkluðu fenneli.
Grænmetisréttur – brokkólí, sellerírót og sveppa purrée.
Fiskur dagsins, Hlýri með sítrónusósu.
Hægeldaður karfi, rauðrófukrem, kryddað smjör, serrano og rauðrófur
Ofnbakað grasker með reyktum sveppum og sósu úr reyktum ísbúa.
Önd og vaffla. Hægeldað andalæri, karamelliserað epli, belgísk vaffla og maltsósa. Virkar kannski framandi að setja andalæri á vöfflu, en nú heyrðust fyrstu stunurnar og þarf ekki að segja meir.
Kolagrilluð nautalund með bökuðu epli, pönnusteiktum ætiþislum, bjór-Hollandaise-, estragonsósu. Nautalundin var mjúk og fín og sósan, þessi með langa nafninu, toppaði svo allt.
Eftirréttir. Í glerborði við innganginn er raðað upp sýnishornum af eftirréttum. Þeir eru engu líkir og skapaðir undir áhrifum evrópskra forvera sinna en með nútímasveiflu eins og segir á eftirréttamatseðlinum sem Axel Þorsteinsson eftirréttameistari á heiðurinn af. Satt best að segja á ég það til að detta út þegar ég fæ góða eftirréttir. Það gerðist yfir gómsætum desertunum á Apótekinu.
Apríkósumascarpone með apríkósuhlaupi, karamellukremi, pralín á Sacherbotni.
Sumarsæla. Kókosmús með mangókremi, súkkulaðimús á kókosmarengsbotni og með hvítsúkkulaði ganache.
Café & Noix. Pistasíu- og heslihnetubotn, með karamellukremi og mjólkursúkkulaðikaffimús
albert.eiriksson@gmail.com
Myndir: Bragi Bergþórsson