Nokkur misstór atriði sem gott er að hafa í huga
Við borðhald er að ýmsu að hyggja, ekki bara hvernig við höldum á hnífapörunum og rauðvínsglasinu. Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga.
- Mæta á réttum tíma – hvorki of snemma né of seint.
- Ætli maður sé ekki búinn að heyra það frá blautu barnsbeini að troða ekki of miklu upp í sig og alls ekki tala með fullan munninn.
- Stundum erum við svo ótrúlega sjálfstæð og viljum gera allt sjálf, meðal annars að teygja okkur yfir fólk sem er að borða, frekar en biðja um að rétta.
- Símar í matarboði eða á matarborði – NEI TAKK
- Góðir þjónar eru með augu á hverjum fingri og auðvelt er að ná sambandi við þá með því að rétta upp höndina til hálfs eða segja: Fyrirgefðu! Smellum ekki fingrum, það er hrokafullt og plebbalegt. Það þarf heldur ekki að banka í bakið á þjóninum og gjamma á hann þegar hann er að tala við aðra gesti.
- Eins frjálsleg og opin við erum öllu jafna þá er sumt sem við sleppum að tala um í matarboðum: Sjálfan sig tímunum saman, verstar eru sjúkdómasögur.
- Það er ágætt að hafa í huga að ýta stólnum að borðinu ef við þurfum að bregða okkur frá og í lok máltíðar.
- Sumum útlendingum (lesist:þjóðverjum) finnst Íslendingar sjúga upp í nefið í tíma og ótíma. Þeim sjálfum finnst bara sjálfsagt og eðlilegt að snýta sér hressilega í matarboði. Það sem á góðri íslensku er kölluð Hreppstjórasnýta.
- Við hvorki hrærum saman matnum okkar á disknum né stöppum.
- Látum vera að fikta í hárinu á meðan á borðhaldi stendur.
- Höfum hemil á drykkjunni. Þó hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta, eins og þar stendur, er ölvað fólk er aldrei skemmtilegt, aldrei.
- Spjöllum við gestina í kringum okkur, ekki bara einn. Leyfum öðrum gestum að taka þátt í umræðum og hvetjum til þess með spurningum.
- Það er mesti óþarfi að skála í tíma og ótíma, ágætt að skála tvisvar í matarboði.
- Almenna reglan er að gestgjafi byrjar á að skála.
- Það er bæði fallegra og líka betra fyrir þjónana ef við setjum glasið niður á sama stað eftir að hafa dreypt á.
- Við ýtum ekki diskinum frá okkur þegar við höfum lokið við að borða (markmiðið er að allt líti út eins og þegar við komum að borðinu, eða eins og hægt er, en ekki eins og hænsn hafi komist upp á borðið). Látum vera að stafla saman diskum í lok máltíðar.
.
— BORÐSIÐIR —
.