Sænskar semlor
Svíar byrja öllu fyrr að baka bolludagsbollur en við. Fljótlega upp úr áramótum fara að sjást semlor í bakaríum. Kannski er alveg ástæðulaust að tengja bollur við ákveðinn dag, einu sinni á ári. Sænskar semlur eru afar ljúffengar og runnu vel niður í maga okkar í síðustu ferð til Svíþjóðar.
— SVÍÞJÓÐ – BOLLUDAGUR — BOLLUR –
.
Sænskar semlor
75 g smjör
2½ dl mjólk
½ pk þurrger
örlítið salt
½ dl sykur
7½ dl hveiti
1 tsk. kardimommur
1 dl egg til að pensla með
Fylling:
220 g marsípan, við stofuhita
1 dl mjólk
möndludropar
3 dl rjómi
mjólk
þeyttur rjómi
flórsykur til að strá ofan á
Bollurnar: Smjörið er brætt og mjólkinni bætt saman við, blandan á að vera um 37°C. Gerið er sett út í og leyst upp, síðan er salti, sykri, kardimommum og hveiti bætt saman við. Hnoðið vel saman og látið deigið lyfta sér á hlýjum stað undir þurrkustykki þar til það hefur tvöfaldast að stærð – í 30-60 mínútur. Leggið bökunarpappír á ofnplötu, mótið bollur og raðið þar á; deigið dugar í ca 18 bollur. Látið bollurnar lyfta sér í um hálftíma á hlýjum stað með röku stykki yfir.
Penslið bollurnar með pískuðu eggi og bakið í 10–15 mínútur við 220°C eða þar til bollurnar eru bakaðar í gegn.
Skerið gat á topp bollanna, eftir að þær hafa kólnað, og holið aðeins að innan. Hrærið saman marsípan og mjólk og setjið inn í bollurnar. Þeytið rjóma og setjið ofan á marsípanið, setjið lokið á og stráið flórsykri yfir.
.
— SVÍÞJÓÐ – BOLLUDAGUR — BOLLUR –
.