Bolludagsbollur – Vatnsdeigsbollur
Nýja matreiðslubókin kom út árið 1954 og var til á fjölmörgum heimilum hér á landi. Í bókinni, sem er eftir Halldóru Eggertsdóttur og Sólveigu Benediktsdóttur, eru þrjár bolludagsuppskriftir. Í lesendabréfi sem birtist í Morgunblaðinu sama ár og bókin kom út stendur m.a.: Eg vil svo benda á, að þessi matreiðslubók er einhver sú hagnýtasta og fjölbreyttasta, sem samin hefur verið á íslenzku, þar sem finna má leiðbeiningar um matargerð, sem eiga við, hvar sem við búum á landinu. Á Nýja matreiðslubókin því erindi til allra þeirra Íslendinga, sem við matargerð fást. Enginn húsbóndi mun sjá eftir að stuðla að því, að þessi bók verði til á heimili hans.
– BOLLUDAGUR — BOLLUR – SPRENGIDAGUR — NÝJA MATREIÐSLUBÓKIN —
.
Sígildar bolludagsbollur
200 g hveiti
125 g smjörlíki
5 tsk. þurrger eða 50 g pressuger
1 msk. sykur
1 egg
1 dl vatn
Smjörlíkið er mulið í hveitið og sykurinn og síðan er gerinu blandað saman við ef um þurrger er að ræða. Þeytið egg og vatn saman og vætið deigið með því. Má líka hræra í hrærivél. Þá er vatn og egg sett í hrærivél og þurrefnum blandað saman við.
Setjið með skeið á plötu og látið lyfta sér við stofuhita í hálftíma. Bakið við 200°C í 10-15 mínútur allt eftir því hvernig ofn er um að ræða. Þessi uppskrift dugar í 15-20 bollur. Ingibjörg segir að sumir bæti við rúsínum og súkkulaði ef ekki á að bera bollurnar fram með rjóma. Sjálf segist hún alltaf bera þær fram með sultu og rjóma.
Vatnsdeigsbollur
125 g smjörlíki
2 dl vatn
125 g hveiti
4 egg
Smjörlíki og vatn er soðið saman og hveiti er síðan hrært út í þangað til deigið er samfellt og þykkt. Takið pott af plötu og kælið deigið svolítið. Deigið er sett í hrærivélarskál og eitt og eitt egg síðan hrært saman við. Ingibjörg segist meta það hverju sinni hvort eggin þurfa að vera fjögur eða þrjú. Deigið á ekki að vera of þunnt og er síðan sett á plötu með skeið og hafa þarf gott bil á milli. Deigið dugar í 20-24 kökur. Bollurnar eru bakaðar í miðjum ofni við 180°C í um það bil 20 mínútur. Munið að opna ekki ofninn meðan á bakstri stendur. Ingibjörg segir að eggin og vatnið lyfti bollunum sem verða holar að innan. Þær þurfa að vera vel bakaðar áður en þær eru teknar út úr ofninum því annars er hætta á að þær falli saman. Bollurnar mega heldur ekki vera of bakaðar því þá verða þær of þurrar.
Ingibjörg segist alltaf bera bollurnar fram með sultu og rjóma og hún bræðir síðan súkkulaði með svolítilli olíu og smyr ofan á bollurnar.
Sumir hafa búið til matarlímsbúðing á milli og einhverjir hafa t.d. karamellubúðing, sultu og rjóma á milli.
Berlínarbollur
40 g smjörlíki
30 g sykur
1 egg
1 dl mjólk
2 tsk. þurrger
250 g hveiti
Palmínfeiti
Ingibjörg hrærir smjörlíki og sykur saman í hrærivél og setur síðan eggið saman við. Að þessu búnu fer helmingur af hveitinu og gerið út í deigið og mjólkin. Deigið er tekið úr hrærivélinni og afgangurinn af hveitinu hnoðaður saman við.
Deiginu er skipt í tvær kökur og önnur er flött út og með glasi eru mótaðar kringlóttar kökur. Hálf teskeið af sultu er sett á hverja köku. Hinn helmingur deigsins er flattur út og lagður ofan á. Kökur mótaðar undan glasi ofan á hinar og þá á sultan að vera á milli. Límið brúnir vel saman með gaffli. Látið bollurnar lyfta sér í 10-15 mínútur. Steikið eins og kleinur í heitri fitu og oftast er kökunum velt upp úr sykri á eftir. Sumir strá á þær flórsykri eða setja á þær glassúr.
– BOLLUDAGUR — BOLLUR – SPRENGIDAGUR — NÝJA MATREIÐSLUBÓKIN —
.