Auglýsing

 

Soffía Vagnsdóttir, Rolald, Bolungarvík, Bolungavík Soffía Vagnsdóttir - vinnusöm, skipulögð en er verst í að gera ekki rassgat
Soffía og Roland

Soffía Vagnsdóttir er kona sem lætur verkin tala eins og sjá má á pistlinum hér að neðan.

SOFFÍA VAGNSDÓTTIRBOLUNGARVÍKHOLLAND

.

10 – 7 – 7 aðferðin: Að bera ábyrgð á sjálfri mér

Það er eiginlega merkilegt hvað maður getur stýrt því sjálfur hvernig daglega lífið virkar. Hvort maður upplifir streitu, álag, kvíða, áhyggjur og leiða eða gleði, forvitni, áskoranir, hlátur og næringu. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að mér var það gefið að finna mér jafnan eitthvað skemmtilegt að gera sem gleður mig og nærir. Ég held ég hafi fengið þetta í arf frá mömmu minni sem er á 86 aldursári og segir enn: „Ég læt mig hlakka til einhvers á hverjum degi“. Þessa merkilegu speki hennar reyni ég að tileinka mér.
Oft vinn ég langan vinnudag en ég finn, eftir því sem árin líða hvað það er nauðsynlegt að finna leið til að næra sjálfan sig. Mig langar að segja ykkur frá nokkrum hlutum sem ég hef fundið út að næra mig alveg sérstaklega og auka mér gleðina. Ég kalla þessa aðferð: 10 (vinnan) – 7 (svefninn) – 7 (bara skemmtun og næring) = 10 – 7 – 7!

Sundið – maður minn, sundið

Ég fer á hverjum morgni í sund áður en ég mæti í vinnuna klukkan átta. Ég kom mér upp þessari rútínu fyrir nokkrum árum þegar ég bjó á Akureyri. Það jafnast ekkert á við sundið, dásamleg vellíðan sem fylgir því að fara í laugina, synda nokkur hundruð metra, skella sér i heita pottinn, síðan þann kalda og svo í gufuna í smá stund. Mikið sem ég er lánsöm að búa stutt frá sundlauginni og geta komið þar við í tæpa klukkustund áður en ég mæti í vinnu. Dagurinn verður allur annar.

Að spila á harmoníku

Tónlistin gleður og auðgar. Ég dreif mig í kór sem hentar mér mjög vel, því hann æfir einu sinni í viku í 1,5 klst. eða svo og svo tónleikar tvisvar á ári. Frábær stjórnandi sem undirbýr vel, gerir kröfur og er ótrúlega faglegur, skemmtilegur og fyndinn. Ég var alin upp við harmóníkuspil og mig hefur alltaf dreymt um að spila á harmóníku. Ég grét af gleði þegar maðurinn minn, börn og fjölskyldur þeirra gáfu mér harmoníku í sextugs afmælisgjöf í nóvember síðastliðnum. Nú reyni ég að láta ekki dag líða án þess að grípa harmoníkuna og æfa mig að spila valsa og ræla og allskonar sönglög. Barnabörnin eru mínir helstu aðdáendur!

Að skrifa – bara allt og ekkert

Ég fór um daginn á alveg frábært námskeið í skapandi skrifum. Mér finnst gaman að skrifa allskonar texta en mig langar að æfa mig meira og læra hvernig maður getur gert það vel. Á námskeiðinu kenndi kona sem heitir Björg Jónsdóttir. Hún er alveg frábær kennari og maður minn hvað það voru margar skemmtilega æfingar og kveikjur sem hún lét okkur gera og það var hreint undur hvað það kom margt óvænt og skemmtilegt út úr þessu námskeiði hjá ölllum sem tóku þátt. Nú reyni ég líka að skrifa texta í einhverju formi daglega. Og þá er ég að tala um handskrifa! Ég er með sérstaka bók sem ég handskrifa bara allskonar texta í. Það kom mér á óvart hvað ég var orðin illa skrifandi því tölvan hefur alveg tekið yfir. Það er þó að lagast.

Soffía, Pálína og Hróflur
Soffía, Pálína og Hróflur Vagnsbörn

Að skrifa sendibréf

Ég setti mér markmið í haust. Mig langaði að skrifa fólki sendibréf. Ég ákvað að það þyrfti að vera af sérstöku tilefni. Ég keypti mér fallegt bréfsefni sem ég valdi af kostgæfni og valdi mér góðan penna til að styrkja rithöndina svo bréfin litu betur út. Síðan lagði ég hjarta mitt og einlægni í að skrifa einstaklingum bréf sem ég hafði hugsað mikið til, fólk sem hafði reynst mér vel, fólki sem ég vildi þakka eða gleðja eða fólki sem mér fannst ég þurfa að eiga einhverskonar uppgjör við. Ég ætla að halda þessu áfram af og til. Það færir mér ró, sátt og hlýju.

Soffía að mála

Að mála

Fyrir tveimur árum dreif ég mig á myndlistarnámskeið á Akureyri. Ég hafði svo lengi átt mér þann draum að læra eitthvað í málun og teikningu, enda hafði ég akkúrat engan grunn í slíku. Á námskeiðinu komst ég yfir óttann við pensilinn. Kennararnir mínir voru tveir, Guðmundur Ármann og Bryndís Arnardóttir. Þau voru dásamleg og hvetjandi og með fræðin svo gjörsamlega undir skinninu og í genunum. Nú hitti ég æskuvinkonu mína sem er listamaður af Guðsnáð á laugardagsmorgnum þar sem viðhorfum á kennslumyndbönd, prófum okkur áfram, málum, gerum mistök og borðum hollan mat. Við erum að vinna upp tíma samverustunda því hún bjó svo lengi í útlöndum og ég í Bolungarvík. Þetta eru þvílíkar gæðastundir.

Roland, Soffía og börn: Paul Lukas, Gestur Kolbeinn, Vagn Margeir og Hermann Andri og fremst er Birna Hjaltalín
Roland, Soffía og börn: Paul Lukas, Gestur Kolbeinn, Vagn Margeir og Hermann Andri og fremst er Birna Hjaltalín

Mannlegu tengslin vítt og breytt

Ég reyni að sinna vinum og fjölskyldu eins og ég get. Það nærir og það gefur. Ég legg mig fram um að eiga skemmtileg og uppbyggjandi samskipti við fólk almennt. Mér leiðast nöldurseggir og mér leiðist neikvætt fólk. Mér finnst stórfjölskyldan mín svo skemmtileg og við kunnum að njóta þess að vera saman og hlæja. Það er þó ekki eins og hitt og þetta hafi ekki komið upp á. Það er bara hvernig við tökumst á við hluti saman þegar á reynir, það er eitthvað svo fallegt.
Ég hef ekki mikinn tíma til að passa barnabörnin. En ég legg mig fram um að hitta þau eins og ég get. Stundum gerum við eitt og annað skemmtilegt saman. Ég kenni prjónaskap, ég mála og teikna með þeim, ég segi þeim sögur, aðstoða þau við lærdóminn ef ég hef tíma, fer með þeim á kaffihús eða geri eitthvað sem ég held að geti styrkt samband okkar. Ég elska þessar stundir. Börn eru fjársjóður og vita sínu viti. Ég er líka í bænahópi sem hittist svona tvisvar í mánuði. Þá gerast galdrar og tengingar við handanheima verða til. Ég þakka fyrir allt sem kemur þaðan í stuðningi við daglega lífið hérna megin og ég þakka fyrir bænahópinn minn. Svo á ég lítinn leynistuðningshóp sem hittist reglulega. Við hlustum, hvetjum, hrósum og gagnrýnum hvert annað í mikilvægum verkefnum og setjum okkur markmið sem við rukkum hvert annað svo um. Ótrúlega dýrmætt.

Að gera ekki rassgat

Ef það er eitthvað sem maðurinn minn hefur reynt að kenna mér í gegnum tíðina þá er það að æfa mig að gera ekki neitt, ekki rassgat. Mér gengur eiginlega verst í því, enda er ég núna bara búin að átta mig á því að ég hvílist mest þegar ég er að gera eitthvað af því sem ég nefndi hér að ofan. Og nú veit maðurinn minn það og styður mig auðvitað í öllu þessu alveg 100%.
Þetta gæti litið út fyrir að vera eitthvað rosalegt, en þetta er bara ósköp venjulegt allt. Ég til dæmis geng ekki á fjöll, fer ekki á gönguskíði, skrepp ekki til Tene og fer sjaldan út að borða. Ég er bara ósköp venjuleg sextug kona sem er að reyna að halda heilsunni og lífsgleðinni í öllu því sem ber á mína daga í lífinu.

Birna Hjaltalín Pálsdóttir og Vagn Margeir Smelt
Sonur Soffíu og mamma hennar: Birna Hjaltalín Pálsdóttir og Vagn Margeir Smelt

SOFFÍA VAGNSDÓTTIRBOLUNGARVÍKHOLLAND

— SOFFÍA VAGNSDÓTTIR ER VERST Í AÐ GERA EKKI RASSGAT —

.

Auglýsing