Má skila gjöfum? Má gefa þær áfram? Er hin fullkomna gjöf til?
Hver kannast ekki við að hafa fengið gjöf sem manni líkar ekki. Það getur verið vandræðalegt EN þegar fólk hefur gefið öðrum þá er þiggjandinn nýr eigandi og er í raun í sjálfsvald sett hvað hann gerir við glaðninginn. Dæmi um þetta er þegar fólk fær tvö eintök af sömu bókinni, skilar öðru eintakinu (eða báðum). Sumu er ekki hægt að skila en það er stundum hægt að gefa áfram, þó slíkt sé aldrei fyrsti kostur. Auðvitað tökum við tillit til gefandans og reynum eins og hægt er að móðga engan, a.m.k. ekki viljandi.
.
— JÓLIN — BORÐSIÐIR — GJAFABRÉF — HEFÐIR —
.
Vandi að velja. Það er gefandi að samgleðjast og falleg hefð að gefa gjafir: jólagjafir, fermingargjafir, afmælisgjafir, tækifærisgjafir og brúðkaupsgjafir. Listaverk, styttur, myndir í ramma eða annað slíkt sem haft er fyrir augum fólks ætti að forðast eins og hægt er NEMA gjöfin sé valin með aðstoð þess sem hana á að fá, maka eða nánustu ættingja.
Hvað á maður þá að drífa upp? Það má velta því fyrir sér hvort hin fullkomna gjöf sé til, þó svo að oft takist sem betur fer vel til. Öll lendum við einhvern tímann í vandræðum þegar kemur að því að finna „réttu” gjafirnar. Ef maður er í vandræðum eru gjafir sem eyðast fyrirtaks kostur. Þær henta vel fólki „sem á allt” og í raun öllum. Gjafabréf, matartengdar gjafir, fót- og handsnyrting, kerti, leikhús- eða tónleikamiðar henta mjög vel við öll tækifæri.
Gjafalistar. Það er vel þekkt að brúðhjón birti gjafalista, eða láti vita af gjafalista í ákveðnum verslunum, óski eftir peningum eða öðru. Slíkt fyrirkomulag hjálpar mörgum en sumum finnst eins og fólk sé að fara fram á að fá gjafir. Við gleðjumst með fólki sem stendur okkur nærri á merkum tímamótum með gjöfum, blómum eða öðru, jafnvel þó við komumst ekki í veisluna.
Jólagjafir fyrirtækja. Stundum er engu líkara en skotleyfi séu gefin á jólagjafir fyrirtækja til starfsfólks. Slíkt er ekki til fyrirmyndar. Það getur verið snúið að finna gjafir sem öllum líkar og næstum því ógjörningur ef um fjölmennan vinnustað er að ræða. Árlegar kvartanir yfir fyrtækjajólagjöfum geta endað með því að fyrirtækið hætti að senda gjafir til starfsfólks.
Öll erum við dálítið forvitin. Það getur verið frekar óheppilegt í stórum afmælum, fermingar- eða giftingarveislum að gjafirnar séu teknar upp á meðan veislan stendur yfir, gjöfum lyft upp og tilkynnt hátt og snjallt frá hverjum þær eru. Samanburðurinn getur verið óþægilegur fyrir suma og stundum til lítillar gleði. Það er góður siður að taka gjafir upp, að lokinni veislu eða viðburði, þegar gestir eru farnir til síns heima. Hér áður fyrr var til siðs að senda þakkarbréf og þakka fyrir hverja gjöf fyrir sig. Sá siður fyrirfinnst ennþá, þó sjaldgæfur sé orðinn. Nú til dags notast flestir við samfélagsmiðla til að þakka fyrir sig.
Margir taka með sér blóm eða einhverja litla gjöf þegar þeim er boðið í kvöldverð hjá vinum. Ef blóm eru gefin, væri betra að senda þau á undan sér, sérstaklega ef um mjög formlegan kvöldverð er að ræða, þannig að gestgjafinn hafi tækifæri til að koma þeim fyrir í vasa áður en gestirnir koma.
SJÁ EINNIG: BORÐSIÐIR — GJAFABRÉF —
–
— JÓLIN — BORÐSIÐIR — GJAFABRÉF — HEFÐIR —
— MÁ SKILA GJÖFUM? MÁ GEFA ÞÆR ÁFRAM ? —
–