Allan mánuðinn er vegan matseðill á Apótekinu í miðborg Reykjavíkur. Við Bergþór fórum í hádeginu, ásamt Sigurbjörgu Pétursdóttur og Svanhildi Jakobsdóttur, fengum okkur svokallaðan smakkseðil, og nutum í botn. Hver rétturinn var öðrum betri. Þarna eru snillar í eldhúsi og elskulegt fólk í þjónustu. Hægt að mæla með, sérstaklega fyrir þá sem þekkja lítið til vegan. Við erum ekki að tala um „salatblað, tómatsneið og hálfa gulrót“, heldur dásamlegt ferðalag fyrir bragðlauka og góða skapið.
— APÓTEKIÐ — SIBBA PÉTURS — SVANHILDUR JAKOBS —
-
Sellerírót er grilluð, þá skorin í „pasta“þríhyrninga og fyllt með graskeri. Með þessu er klikkuð dill- og spínatfroða og heslihnetur. Svei mér þá ef ég fann ekki angan af sumri í þessari fagurgrænu bragðgóðu sósu
-
Reyktir sveppir með grænkáli undir, kartöflufroðu (safi af kjúklingabaunum og ólífuolía er þeytt saman við kartöflur og þannig verður til þessi létta sósa), bökuð kartafla, stökkir jarðskokkar og smá steinseljuolía. Margslunginn réttur sem rann ljúflega niður.
-
Bakað blómkál með hrikalega góðum sósum (furuhnetukremi og blómkálspuré), pönnusteiktu grænkáli, graskersfræjum og prýtt með vatnakarsa. Fullkomlega bakað blómkál, hvorki of né van.
-
Pönnusteikt oumph á rauðrófuhummus, í kring eru stökkar, þurrkaðar kjúklingabaunir sem eru settar í matvinnsluvél og kurlaðar. Ofan á er brokkolini (fíngerðara en brokkolí), ég legg ekki meira á ykkur 🙂
-
Súkkulaði, ólífuolía, ástaraldinsorbet og yuzumarengs. Næstum því óbærilega góður eftirréttur. Súkkulaðimúsin er gerð með kjúklingabaunasafa og þessi samsetning og eftirbragðið er fullkomið. — APÓTEKIÐ — SIBBA PÉTURS — SVANHILDUR JAKOBS —