Smjördeigsbakstur ömmu Ragnheiðar
Ragnheiður Elín Clausen bauð nokkrum dömum úr fjölskyldunni í léttan vorhitting á pallinum. Meðal margra góðra veitinga var fjölskyldu-kaffimeðlætið sem er frá móðurömmu Ragnheiðar og nöfnu: Ragnheiði Hafstein Thorarensen – réttur sem er og hefur verið í öllum afmælum. Sáraeinfaldur og ótrúlega góður smjördeigsbakstur með osti, aspas, tómatsósu, raspi og paprikudufti.
.
.
Smjördeigsbakstur ömmu Ragnheiðar
Einni smjördeigsrúllu rúllað út og bökuð við 200°C í um 6-8 mín. Takið úr ofninum. Þekið botninn með grænum aspas úr dós (2 dósir), síðan með rifnum Ísbúaosti, dreifið tómatsósu yfir, ekki of þunnt og ekki of þykkt lag.
Dreifið Paxo raspi yfir og loks svolítið paprikuduft
Bakið í 15-20 mín eða þar til osturinn er farinn að bráðna aðeins undir.
Voila, einfaldara gæti þetta ekki verið.
Bresk heslihnetuterta
Ragnheiður Erla Bjarnadóttir kom með undurgóða súkkulaðitertu í afmæli nöfnu sinnar og frænku. Uppskriftin er úr Foods of the World: England – The Cooking of the British Isles frá Time Life, aðlagað íslenskum kringumstæðum.
Ragnheiður Erla keypti bókina í Eymundsson fyrir meira en fjörtíu árum og hefur oft bakað tertuna.
Bresk heslihnetukaka
Botn:
250 gr heslihnetur með hýði
200 gr suðusúkkulaði
100 gr hveiti
125 gr eða 1/2 lítið smjörstykki, lint, við stofuhita
200 gr sykur
1/2 tsk vanilludropar
7 egg: skilja að rauður og hvítur
Setjið heslihnetur í bökunarofn við 150°C með blæstri í 30 mínútur hið minnsta eða þar til orðnar ristaðar. Láta hneturnar kólna.
Pakkið inn í stórt viskastykki og nuddið húðina vel af.
Setja milli 150-200 gr af heslihnetunum í matarvinnsluvél og malið þær fínt.
Því næst er súkkulaðinu bætt út í og verður þetta að mauki í vélinni.
Smyrjið eitt „springform“ með bræddu smjöri eða bökunarspreyi.
Klippið til smjörpappír og leggið í botninn.
Smyrjið pappírinn og setjið hveiti að innan í allt formið.
Hrærið saman smjöri og sykri, notið hrærispaðann og einni tsk af hveiti bætt út í.
Bætið vanilludropum út í og svo eggjarauðunum, einni í einu.
Þegar búið er að hræra eggjarauðunni saman við er hveitinu bætt við, tæp 100 gr. Bætið súkkulaði-heslihnetumaukinu við og öllu blandað saman.
Deigið er fært úr skálinni og sett í aðra skál og hrærivélaskálin þvegin.
Stífþeytið eggjahvíturnar, takið 1/4 af hvítunum og setjið í deigið og þeytt vel saman.
Hellið súkkulaði-heslihnetudeiginu í hrærivélaskálina og blandið varlega saman við hvíturnar.
Farið varlega og blandið eins lítið og hægt er að komast upp með, nettar hreyfingar fram og tilbaka. Mikilvægt er að passa þetta svo að kakan falli ekki saman því það er ekki lyftiduft í uppskriftinni.
Hellið deiginu í formið og bakið við 150-160°C (185°C ef ekki er blástur) og bakið í 1 klukkustund og 15 mínútur.
Látið kólna áður en kremið er sett á.
Krem:
100 g flórsykur
4 msk kalt vatn
200 g suðusúkkulaði
2 1/2 tsk af sterku nýlöguðu kaffi
Setjið öll efnin saman í pott. Hitið þar til súkkulaðið er bráðið og blandið öllu vel saman. Látið standa í 10-15 mín.
Hellið kremi yfir kökuna og láta storkna.
Skreytið með afgangi af heslihnetunum.
.
— SMJÖRDEIGSBAKSTUR ÖMMU RAGNHEIÐAR —
.