Hvíta kókostertan
Það er ekki síst Marentzu Poulsen að þakka að líf færðist yfir Grasagarðinn í Reykjavík, þar opnaði hún Kaffi Flóru um aldamótin. Síðan lifnaði yfir Kjarvalsstöðum þegar Marentza tók við kaffihúsinu þar. Hin færeyska ferska Marentza kenndi okkur að borða af jólahlaðborðum, hún leiðbeindi gestum á Hótel Loftleiðum og sagði þeim að fá sér lítið í einu og fara oft.
Margt hef ég lært af Marentzu í gegnum árin, en leiðir okkar lágu saman fyrst við opnun á Café Nielsen á Egilsstöðum fyrir tuttugu og fimm árum. Eitthvað gekk mér illa að muna nafnið hennar, en þá sagði hún glaðlega: Hugsaðu bara um marengstertu, þá geturðu ekki gleymt nafninu!
— MARENTZA — FÆREYJAR — KÓKOSMJÖL — TERTUR — KAFFIHÚS — HLAÐBORÐ — MARENGS — EGILSSTAÐIR —
Hvíta kókostertan
botnar:
3 b hveiti
1 msk lyftiduft
3/4 tsk salt
3/4 b smjör, mjúkt
1 3/4 b sykur
4 stór egg, aðskilin
1 tsk vanilludropar eða vanillu extrakt
1 tsk kókosdropar eða kókos extrakt
tæplega 1 ds ósæt kókosmjólk (400 ml) – restin fer í kremið
1/4 tsk vínsteinsduft (cream of tartar)
Krem
170 g rjómaostur, mjúkur
1/4 b smjör, mjúkt
4 b flórsykur
nokkrar msk ósæt kókosmjólk
200 g sætt gróft kókosmjöl (sjá mynd neðst)
ferskar fjólur eða önnur falleg blóm til skrauts
Botnarnir:
Sigtið hveiti, lyftiduft og salt í stóra skál. Hrærið smjörið í skál með sykrinum þar til það er létt og ljóst. Bætið við einni eggjarauðu í einu og hrærið í á milli. Bætið bragðefnunum saman við. Bætið þurrefnunum og mjólkinni saman við.
Þeytið eggjahvíturnar vel í sér skál og bætið við vínsteinsdufti (má sleppa) þar til eggjahvítan er vel stíf.
Bætið við 1/3 af eggjahvítunum út í og hrærið, bætið síðan restinni saman við deigið
Setjið deigið í tvö 23 cm kökuform klædd með bökunarpappír. Bakið við 180°C 30-40 mín. Látið kólna í formunum.
Kremið:
Hrærið vel saman smjöri og rjómaosti.
Sigtið flórsykur saman við og blandið vel.
Bætið kókosmjólkinni, matseið í einu, þar til kremið er passlega mjúkt.
Setjið annan botninn á kökudisk. Setjið 3/4 b af kreminu á. Dreifið 1/2 b af kókosmjöli yfir. Setjið hinn botninn ofan á.
Smyrjið restinni af kreminu ofan á og á hliðarnar. Setjið restina af kókosmjölinu ofan á og utan á kökuna.
Það er ágætt að setja tertuna saman deginum áður og geyma í ísskáp.
Látið standa í um tvær klst. áður en hún er borin á borð.
Skreytið með fjólum eða öðrum fallegum blómum.
— MARENTZA — FÆREYJAR — KÓKOSMJÖL — TERTUR — KAFFIHÚS — HLAÐBORÐ — MARENGS — EGILSSTAÐIR —
—