Hörpudisksveisla
Á Ísafirði býr Aron Ottó Jóhannsson. Að afloknu söngnámi hérlendis hélt hann til Ungverjalands til frekara söngnáms. Vegna Covid hefur Aron verið mest heima síðustu mánuði en stundað námið í gegnum netið.
Köfun er eitt af áhugamálum Arons, hann stingur sér reglulega í sjóinn og tínir hörpudisk.
— HÖRPUDISKUR — ÍSAFJÖRÐUR — FISKUR — BOLUNGARVÍK — UNGVERJALAND —
Aron verkar hörpuskelina. Veiðar á hörpudiski hérlendis hófust árið 1969 frá Bolungarvík, ári síðar fundust gjöful mið í Breiðafirði og hafa langmestar veiðar verið þar. Hörpudiskur er nokkuð algengur í sjónum allt umhverfis Ísland að suðurströndinni undanskilinni. Heimkynni hans eru fyrst og fremst í hörðum malarbotni eða grófum skeljasandsbotni þar sem hann grefur sig niður.
Hörpudiskur í rjómakarrýsósu
200 g hörpudiskur
1/2 dl ólífuolía
2 msk. karrý
1/2 gul paprika
1/2 rauð paprika
1 stilkur sellerí
3 stilkar vorlaukur
1 hvítlauksgeiri
2 dl rjómi
salt og pipar
Þerrið hörpudiskinn og steikið í vel heitir olíu í stutta stund á hvorri hlið. Takið til hliðar. Setjið á pönnuna karrý, papriku, sellerí, vorlauk og hvítlauk og léttsteikið. Bætið við rjóma, salti og pipar.
Þykkið dálítið með maizena-mjöli.
Bætið hörpudiskinum saman við.
Grillaður hörpudiskur með hvítlaukssítrónusósu
Hörpudiskur
1 msk sítrónusafi
1 msk maukaður/saxaður hvítlaukur
100 g brætt smjör
1 tsk salt
1 msk söxuð steinselja
Blandið öllu saman, hellið yfir hörpudiskinn eða penslið. Grillið á vel heitu grilli í nokkrar mínútur
Hörpudiskur í sósu fyrir 4.
Hörpudiskur (8-10 stk á mann)
3-4 msk ólífuolía
salt og pipar
1 msk smjör
2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
1 tsk sítrónusafi
(1msk hvítvín)
1 b soðið pasta
Opnið hörpuskelina og skerið vöðvann úr. Steikið vöðvann í ólífuolíu til að fá góða skorpu, saltið, piprið og takið af pönnunni.
Setjið smjör og hvítlauk á pönnuna og steikið. Bætið við sítrónusafa (og hvítvíni).
Bætið við pasta og loks hörpudiskinum.
.
— HÖRPUDISKUR — ÍSAFJÖRÐUR — FISKUR — BOLUNGARVÍK — UNGVERJALAND —
.