Ungversk gúllassúpa
Í lok níunda áratugarins héldu Anna Björk Bjarnadóttir og Tómas Holton til náms í Búdapest í Ungverjalandi. Í stigaganginum þar sem þau bjuggu sér bólstað, bjó eldri kona Erzsébét (Elísabet), sem tók Önnu Björk opnum örmum, kenndi henni eitt og annað í ungverskri matargerð og lagði henni lífsreglurnar í hjónabandinu, hún skyldi vera eiginmanninum góð í einu og öllu. Stundum bauðst hún til að aðstoða við tiltektina, svo að allt væri nú fullkomið þegar hann kæmi heim.
Með því fyrsta sem Anna Björk lærði að elda af Erzsébétu, var að sjálfsögðu ungversk gúllassúpa. Eins og títt er um þjóðarrétti, hefur hvert hérað sína útgáfu, jafnvel hvert heimili, svo að varla er hægt að segja að ein uppskrift sé upprunalegri en önnur, en þessi byggist að mestu leyti á matreiðslubókinni Szakácskönyv, sem er eins konar Helga Sig þeirra Ungverja.
🇭🇺
— BÚDAPEST — GÚLLASSÚPUR — UNGVERJALAND — GÚLLAS — KJÖTSÚPUR — PÁLL BERGÞÓRSSON — SÚPUR —
🇭🇺
Gulyás leves – Ungversk gúllassúpa
500 g innralæri af nauti
Salt og pipar eftir smekk
2 stk rauðlaukur, smátt skorinn
3 msk svínafeiti til steikingar (fæst í t.d. verslunum með matvöru frá Póllandi – heitir smalec á pólsku, zsír á ungversku) – annars hægt að nota olíu eða smjörlíki.
2 msk ungverskt paprikuduft (sætt, ekki sterkt)
2 tsk cumin krydd
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
2 tómatar skornir í teninga
1-2 lárviðarlauf
2 stk papríka, skorin í tenginga
Rótargrænmeti eftir smekk, t.d.:
100 g kartöflur skornar í teninga
1 stór gulrót skorin í sneiðar
1 stk. nípa skorin í sneiðar
100 g sellerírót skorin í teninga
100 g rófur skornar í teninga
Vatn
Aðferð:
Hreinsið kjötið, skerið í litla teninga og kryddið með salti og smá pipar.
Bræðið svínafeitina í stórum potti og steikið laukinn yfir vægum hita þar til hann er glær. Bætið kjötinu út í og steikið yfir vægum hita þar til það er ljóst allan hringinn. Takið pottinn af hellunni og hrærið saman við paprikudufti, cuminkryddi, söxuðum hvítlauknum. Hellið uþb 500 ml af vatni yfir eða þar til rétt flæðir yfir kjötið. Bætið við tómötum og papríku og lárviðarlaufi.
Sjóðið við vægan hita í u.þ.b. 1,5 klst. Bætið þá við rótargrænmetinu en skiljið kartöflurnar eftir. Sjóðið í um 10 mínútur í viðbót, bætið þá við kartöflunum og sjóðið í enn aðrar 10 mínútur.
Hefðbundið er að bera fram með franskbrauði.
.
Somlói galuska – Hungarian Trifle
Hefðbundinn svampbotn:
4 egg – skilin í hvítur og rauður
4 msk sykur
4 msk hveiti
1/2 tsk lyftiduft
2 msk vatn
Kakóbotn:
4 egg – skilin í hvítur og rauður
4 msk sykur
4 msk hveiti
1/2 tsk lyftiduft
2 msk vatn
2 msk kakó
Hnetubotn:
4 egg – skilin í hvítur og rauður
4 msk sykur
4 msk hveiti
1/2 tsk lyftiduft
2 msk vatn
4 msk smátt skornar valhnetur
Vanillukrem (hér má nota vanillubúðing):
1 l mjólk
4 eggjarauður
100 g hveiti
300 g sykur
1 dl rjómi
1 vanillustöng (eða vanillusykur)
Síróp:
3 dl vatn
200 g sykur
3 ml romm
Rifinn börkur af einni appelsínu og/eða sítrónu
Súkkulaðisósa:
200 g smjör
1 msk hveiti
5 dl mjólk
200 g suðusúkkulaði
1 msk sykur
2 ml romm
Með og á millli laga:
1 bolli rúsínur
Smátt skornar valhnetur
Þeyttur rjómi
Aðferð:
Svampbotnar:
Gera má deig fyrir alla botnana í einu og skipta í þrennt áður en kakói og valhnetum er bætt út í, en ég gerði hvern botn fyrir sig.
Þeytið eggjahvíturnar ásamt 1 msk af sykrinum þangað til þær verða stífar. Setjið eggjarauðurnar í sér skál og hrærið. Bætið við því sem eftir er af sykrinum, hveiti, lyftidufti og vatni og hrærið vel. Blandið eggjahvítunum varlega saman við með sleikju og setjið í smurt kökuform. Bakið við 200°C í 15 mínútur.
Farið eins að með hina botnana en bætið við eggjarauðuhlutann kakói annars vegar og hnetum hins vegar áður en eggjahvítunum er blandað saman við.
Vanillukrem:
Hrærið eggjarauðurnar saman við hveiti, sykur, rjóma, vanillu og smá af mjólkinni. Hitið afganginn af mjólkinni, bætið eggjablöndunni saman við, setjið yfir vatnsbað og þeytið stöðugt þar til blandan þykknar.
Síróp:
Setjið vatn og sykur í pott og hrærið meðan suðan kemur upp. Bætið við appelsínuberki og rommi og látið malla dágóða stund til að þykkja sírópið eftir smekk. Kælið.
Súkkúlaðisósa:
Bræðið smjör yfir vægum hita, bætið hveiti út í og hrærið vel. Bætið mjólk, suðusúkkulaði, kakói, sykri og rommi út í blönduna og hrærið þar til sósan þykknar. Hún á samt að vera frekar fljótandi en föst. Kælið.
Setjið rúsínurnar í smá vatn og hitið í örbylgju í 1-2 mínútur og látið renna af þeim. Má líka bleyta í þeim í rommi ef vill.
Setjið saman botnana með eftirfarandi hætti. Setjið hnetubotninn í djúpt form með sama lagi og botninn. Bleytið vel í botninum með sírópinu og smyrjið svo lag af vanillukreminu ofan á. Dreifið rúsínum ofan á kremið og síðan skornar valhnetur sem velt hefur verið upp úr smá vanillusykri. Næstur er kakóbotninn, vel bleyttur af sírópi, þá lag af vanillukremi, rúsínum og hnetum. Að lokum er hvíti botninn settur ofan á. Bleytið vel í með sírópi, smyrjið afganginn af vanillukreminu ofan á og sáldrið kakói yfir. Setjið filmu yfir og setjið í kæli í að minnsta kosti 8 klst., má alveg vera yfir nótt.
Notið stóra ísskeið og setjið kúlur í dessertskálar eða -glös. Stráið skornum hnetum yfir, hellið súkkulaðisósunni yfir og toppið loks með þeyttum rjóma.
🇭🇺
— BÚDAPEST — GÚLLASSÚPUR — UNGVERJALAND — GÚLLAS — KJÖTSÚPUR — PÁLL BERGÞÓRSSON — SÚPUR —
🇭🇺