Frönsk lauksúpa
Heiðurspilturinn Daníel Arnarsson er listakokkur og ekki bara það, hann er afar fjölhæfur og skemmtilegur.
— DANÍEL ARNARSSON — FRAKKLAND — LAUKSÚPUR —
.
Frönsk lauksúpa
2 msk olía
5 meðalstórir laukar
3 hvítlauksrif
100 gr smjör
20 ml hvítvínsedik
50 ml hvítvín
1 ltr lambasoð
3 msk timian, þurrkað
3 msk salt
1 msk pipar
Brauðsneið fyrir hverja skál
Ostur
Laukur skorinn í sneiðar, best að skera hann í tvennt og sneiða hann svo frekar þunnt. Olía sett í pott og laukurinn hitaður þar á eftir. Best er að hita laukinn við vægan hita, salta smá, og hræra mjög reglulega. Það sem við ætlum að gera er að karamellisera laukinn, það getur tekið 45-50 mínútur. Þegar laukurinn er orðinn mjög glær þá set ég á aðeins meiri hita og hræri mun meira, þegar laukurinn er orðinn brúnn og áferðin nánast eins og á þykkri sultu þá er best að lækka aftur hitann og bæta þá við smjörinu, leyfa að malla í fimm mínútur og þá edikinu og hvítvíninu, gott er að skafa vel af botninum því þar er allt góða bragðið. Soði bætt við ásamt timian, salti og pipar, leyft að malla í að minnsta kosti 20 mínútur við vægan hita, en þó í lagi að súpan malli í 2-3 tíma, við mjög vægan hita.
Ef þú vilt gera súpuna enn meira fansí en hún er þá er gott að skera niður brauð, langbest ef það er nokkurra daga gamalt, setja brauðið ofan í súpuna svo vel af osti (hvaða ostur sem bráðnar virkar hér) og smella súpuskálinni undir grill (í flestum ofnum er grillstilling) í örfáar mínútur. Ef þú átt ekki súpuskálar sem þola svo mikinn hita þá má setja brauð með osti undir grillið í smá stund og setja svo grillaða ostabrauðsneiðina ofan í súpuskálina, það er alveg jafnfínt.
— DANÍEL ARNARSSON — FRAKKLAND — LAUKSÚPUR —
.