Sveppa- og bjórbaka
Hin enska Judy Tobin bjó á Íslandi í tæpa þrjá áratugi og var hér áberandi í tónlistarlífinu. Eftir það bjó hún og starfaði í Mexíkóborg en er nú flutt aftur til Íslands. Kemur sem kröftugur hlýr sunnanvindur og kennir áhugasömum píanónemendum í Tónlistarskóla Ísafjarðar.
— BÖKUR — SVEPPIR — ENGLAND — MEXÍKÓ — ÍSAFJÖRÐUR —
.
Sveppa- og bjórbaka
700 g sveppir
3 msk ólífuolía
4 laukar
6 hvítlauksrif
3 greinar ferskt rósmarín + auka til skrauts
3 greinar ferskt timían
1 msk púðursykur
300 ml bjór (Guinnes eða annar brúnn ale)
2 1/2 msk hveiti + auka til að sigta yfir
1-2 msk Dijon sinnep
25 ml soja sósa
500 g smjördeig
2 msk smjör
salt og pipar.
Skerið sveppi í ferninga og bakið í ofni með olíu, salti og pipar í 15 mín. Setjið til hliðar og geymið safann.
Steikið laukinn og hvítlaukinn á pönnu í 10 mín þar til laukurinn er mjúkur.
Bætið rósmaríni, timían og sykri á pönnuna og steikið í aðrar 10 mínútur á lágum hita þar til laukurinn er orðinn gullinbrúnn.
Bætið bjórnum við í pönnuna og látið malla í 10 mín. Lækkið hitann og bætið við sveppunum ásamt safanum. Bætið svo við hveitinu, sinnepi og soja sósu og látið malla í 15-20 mín og hrærið reglulega. Leyfið blöndunni að kólna smá og hellið svo í ofnast form.
Stráið hveiti á borðplötu og fletjið út smjördeigið með kökukefli. Leggið smjördeigið yfir ofnfasta mótið svo deigið nái yfir kantana og skerið það sem er aflögu í burtu.
Bræðið smjörið í örbylgjuofni og burstið því yfir smjördeigið. Skerið lítinn kross í miðju deigsins og skreytið með rósmarínstilkum.
Bakið í ofni í 30-35 mín við 180°C eða þar til deigið er gullinbrúnt.
Berið fram heitt og njótið 🙂
Gott er að ofnbaka kartöflur sem meðlæti.
Uppskriftin er frá BOSH
— BÖKUR — SVEPPIR — ENGLAND — MEXÍKÓ — ÍSAFJÖRÐUR —
.