
Hótel Blönduós
Gamli bærinn á Blönduósi hefur tekið stakkaskiptum. Ef hugmyndin er að gera vel við sig og lyfta sér ærlega upp frá hversdagsleikanum, er varla hægt að hugsa sér ævintýralegri gistingu en í 130 ára kirkju á Blönduósi. Hótel Blönduós hefur gengið í endurnýjun lífdaga á frumlegan, smekklegan og glæsilegan hátt og hluti þess er svítan í gömlu kirkjunni. Það dettur eiginlega af manni andlitið.
Þegar nýja kirkjan var tekin í notkun fyrir rúmum 30 árum, var gamla kirkjan afhelguð, en við endurgerðina 2023 var upphaflegt útlit haft að leiðarljósi að miklu leyti, m.a.s. er orgelið á sínum stað, gamla ljósakrónan úr Dómkirkjunni og síðasta sálmaskráin hangir uppi, en málað í flottum litum, hægt að fá sér espresso í fallegum bollum og njóta í antik húsgögnum, eða renna sér í baðkar uppi með útsýni yfir hafið. Eins og krakkarnir segja, þetta er alveg rugl flott! Á kirkjuloftinu eru líka tvö einstaklingsrúm.
Þó að augljóslega hafi þetta upphaflega verið kirkja, er tilfinningin ekki sú að það þurfi að breytast í heilaga persónu, en ljóst er að allar góðar fyrirbænir í gegnum tíðina hafa skilið eftir einstakan frið og ró í andrúmsloftinu. Hér tengjumst við innri kjarnanum okkar og bjóðum hann velkominn.
Í veitingastaðnum í Sýslumannshúsinu, sem er elsti hluti hótelsins síðan 1943 (byggt árið 1900), er sama sagan, haldið er í anda hússins á afar smekklegan hátt, innanstokksmunir einstaklega vel valdir og þar heldur t.d. gamla dansgólfið sér. Inga Rut veitingastjóri dekraði við okkur, en magamálið leyfði víst ekki að fá alla réttina af matseðlinum hjá honum Árna kokki, þó að löngunin væri vissulega til staðar.
Hótelið hefur látið gera upp fleira en kirkjuna. Í gömlu Pétursborg hafa verið gerðar glæsilegar íbúðir með blöndu af gömlu og nýju, en í AA húsinu við Blöndu eru hótelherbergi. Í báðum þessum húsum eru verandir þar sem hægt er að falla í stafi yfir náttúrunni, niðnum, fuglasöngnum. Gamla bakaríið Krútt hefur verið gert að stórum sal, þar sem hægt er að taka á móti stórum hópum og tónleikar haldnir.
Örn Arnarson og Hildur Ýr Arnarsdóttir reka Hótel Blönduós – við tökum ofan fyrir þeim, allt til fyrirmyndar. Yfirmatreiðslumaður er Árni Þór Hjartarson og veitingastjóri Inga Rún Ómarsdóttir. Anna Birna aðstoðarhótelstjóri tók ljúflega á móti okkur í morgunmatnum. Og til gaman má geta þess að hótelið flytur inn sín eigin vín, m.a. Urgestein frá Oster.
— BLÖNDUÓS — VEITINGASTAÐIR — ÍSLAND —
.













— BLÖNDUÓS — VEITINGASTAÐIR — ÍSLAND —
.