
Ítölsk veisla hjá Kristínu Björgu
Kristín Björg Þorsteinsdóttir bauð í ítalska matarveislu, hún naut aðstoðar Bryndísar dóttur sinnar við undirbúninginn. Við byrjuðum á Caprese salati, síðan var spaghetti Vongole og loks Cantucci með kaffinu. Þær nostruðu við hvert smáatriði, bæði í matseldinni og framsetningu. Það er nú meira hvað ítalskur matur er góður, já og ekki skemmir fyrir að borða matinn með skemmtilegu fólki.
— ÍTALÍA — PASTA — SJÁVARRÉTTIR — BISCOTTI — FETTUCCINE — TOSKANA — SALÖT —
.



Caprese salat
1 askja kirsuberjatómatar eða piccolo tómatar
1 dós mozzarella kúlur
Ferskt basil
Sjávarsalt
Ólífuolía
Skerið tómatana í tvennt og rífið mozzarella kúlurnar og blandið saman í skál.
Stráið örlitlu sjávarsalti yfir.
Hægt er að bera það strax fram með fersku basil eða láta hvíla um einhverja stund í ísskáp og bæta basilinu við rétt á undan.
Berið fram með ólífuolíu þannig að hver og einn geti bætt því við eftir smekk.

Spaghetti alle Vongole
1 kg skelfiskur með skeljum (Clams) – við fengum okkar úr Fisku Nýbýlavegi
250 g ferskt fettuccine eða spaghetti
2 hvítlauksgeirar
1 og hálfur gulur laukur
1 scallot laukur
Fersk steinselja
Smjör
Ólífuolía
Chili flögur
1 askja cherry tómatar
180 – 250 ml hvítvín, áfengt eða óáfengt
Leggið skelfiskinn í bleyti með góðu magni af sjávarsalti í 30-60 mín til hreinsa hann.
Skerið laukinn smátt og saxið hvítlaukinn einnig smátt.
Hitið gott magn af smjöri og ólífuolíu á pönnu og veltið gula lauknum, scallot lauknum og hvítlauknum á pönnuna, salt og pipar, og svo loks chiliflögur eftir smekk.
Skerið kirsuberjatómana í tvennt og bætið við á pönnuna (gott að kremja þá smávegis á pönnunni til losa betur um safann)
Skolið skelfiskinn með vatni og fjarlægið þær sem hafa ekki opnað sig, setjið í sigti og gufusjóðið í örstutta stund (1-2 mínútur).
Bætið skelfiskinn við á pönnuna, hellið hvítvíninu yfir, leggið lok á pönnuna og látið sjóða í 5 mínútur, eða þangað til að áfengið hefur að mestu gufað upp. Smakkið soðið sem myndast og kryddið eftir smekk.
Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum eða þangað til það verður al dente – oftast er óþarfi að salta vatnið vegna saltmagnsins í skelfisknum (1 og hálf mínúta fyrir ferskt pasta).
Veiðið svo pastað úr pottinum og bætið við á pönnuna eða blandið öllu saman í skál. Stráið yfir ferskri steinselju.
.

Cantucci
Tvöföld uppskrift sem gerir ca. 35-40 kökur.
300 g sykur
4 stór egg, 1 eggjarauða
1 tsk vanilludropar
Börkur af 1 sítrónu
650 g hveiti
2 tsk lyftiduft
1 tsk salt
180-200 g heilar möndlur með hýði
1/2 tsk kanill
1/4 tsk kardimommur
Léttþeytið egg og sykur saman í skál, rífið sítrónubörk og bætið því við með vanilludropunum.
Bætið við salt og lyftiduft og bætið svo við hveiti smátt og smátt þangað til það blandast vel saman.
Bætið svo við möndlunum og öðru kryddi eftir smekk, ég nota kanil og kardimommur.
Hnoðið öllu saman með höndunum og bætið við hveiti eftir þörfum en haldið samt deiginu ágætlega blautu.
Vigtið og skiptið í tvo jafna hluta, hnoðið hvorn hlutan í þéttan hleif, ca. hálf cm. þykkan.
Bakið í blástursofni á 180°C í ca. 12-15 mínútur eða þangað til hleifarnir eru ennþá nokkuð ljósir. Látið hvíla og kólna í amk. 30 mínútur á bakstursgrind.
Skerið hleifana í sneiðar og leggið aftur á plötu þannig að skurðurinn snúi upp. Bakið á 180°C í ca 16-20 mínútur eða þangað til kökurnar verða gullin brúnar.
.

— ÍTALÍA — PASTA — SJÁVARRÉTTIR — BISCOTTI — FETTUCCINE — TOSKANA — SALÖT —
.