Tiramisu, ævintýralega góður eftirréttur
Ekki er ýkja langt síðan Tiramisu (=lyftu mér upp á ítölsku) kom fram á sjónarsviðið. Bergþór minn kynntist því í Þýskalandi á níunda áratugnum. Í kringum 1990 var hann beðinn að gefa uppskrift í blaði hér á landi og valdi Tiramisu, sem þá hafði tæplega sést á borðum landans, því að þá var ekki til Mascarpone ostur hér. Hann dó ekki ráðalaus og þeytti saman rjómaost og rjóma í staðinn. Ennþá kemur fólk til hans sem segist eiga þessa uppskrift. Eftir að farið var að framleiða Mascarpone hér, varð sprengja. Við erum þekkt fyrir að taka vel við okkur þegar eitthvað fer í gang, hvort sem það heitir Bauhaus eða Kákasusgerill. Ýmsir kostir fylgja fólksfæðinni, eða ókostir, eftir því hvernig á það er litið.
Síðan þá hefur hann gert ýmsar tilraunir. Hann segir að uppskriftir á umbúðum hljóti að vera búnar til af ostaframleiðendum, sem vilji halda sinni vöru fram. Eitt er víst að Tiramisu sem hann býr til, vekur mikla lukku, vegna þess hve létt það er. Galdurinn segir hann vera fleiri egg og ekki of þétt lag af lady finger kökum.
UPPFÆRT: Þessi uppskrift hér að neðan er alveg ágæt, svolítið blaut – EN ÞESSI ER MUN BETRI
🇮🇹
— TIRAMISU — ÍTALÍA — AMARETTO — LADY FINGERS — MASCARPONE —
🇮🇹
Tiramisu
2 dl espresso kaffi
1/2 dl Amaretto líkjör
Lady fingers
4 egg
50 g sykur (ca 2 msk)
1 dós mascarpone, við stofuhita
ca 1 msk kakó.
Blandið saman 2 dl espresso kaffi (rótsterkt kaffi getur komið í staðinn) og vænni slettu af Amaretto. Vætið kökurnar úr þessari blöndu og leggið í fat (t.d. 25×15 sm), ekki of þétt upp að hverri annarri.
Þeytið eggjarauðurnar ljósar og léttar með sykri. Bætið mascarpone út í og þeytið áfram.
Þeytið eggjahvítur pinnstífar og blandið varlega saman við mascarpone-blönduna. Breiðið yfir kökurnar og sigtið kakó yfir. Best er að láta þetta standa í klst í ísskáp. Tilbúið. Og stendur fyrir sínu í öllum sínum einfaldleika.
Svo má auðvitað láta hugmyndaflugið ráða, ef maður vill fara í þróunarvinnu, bera fram með berjum, ís og jafnvel hella ofan á hann bræddum sykri af pönnu sem hefur verið bragðbættur með líkjör, appelsínuberki og nokkrum mandarínubátum. Og og og …
🇮🇹
— TIRAMISU — ÍTALÍA — AMARETTO — LADY FINGERS — MASCARPONE —
🇮🇹