Appelsínukaka Ágústu – jafnt af öllu-kakan
Merkilegt hvað hið einfalda og þægilega er oft eftirlæti margra. Þetta er hin fræga „jafnt af öllu“ kaka, sem allir geta munað uppskriftina að (250 af öllu og 4 egg). Svo sem engin heilsukaka, en klikkar aldrei.
Allir geta líka gert sína útgáfu, með því að bæta í hana uppáhaldskryddi eða bragðefni. Þessi útgáfa hefur fylgt Bergþóri allt síðan hann kynntist Ágústu Gunnarsdóttur, listakonu og lífslistakonu í Ameríku, þegar hann var þar við nám. Ágústa átti helling af góðum ráðum við matseldina, enda hafði hún m.a. unnið á ríkismannsheimili í Rochester, fyrir utan að vera með neistann, augun, nefið og síðast en ekki síst tilfinningu sem líkja má við sjötta skilningarvitið. Ein af þessum konum sem gera föt smart með því einu að fara í þau og breyta hreysi í höll með nokkrum handtökum. Ein af hugdettum hennar var sem sagt að hella appelsínusírópi og appelsínuberki yfir „jafnt af öllu“ kökuna.
Og allir lofa gestgjafann og ákalla og biðja allra náðarsamlegast um uppskriftina.
— APPELSÍNUKÖKUR — KAFFIMEÐLÆTI — TERTUR – ÁGÚSTA GUNNARSDÓTTIR–
.
Appelsínukaka Ágústu
250 g smjör
250 g sykur
4 egg
250 g hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
safi úr 1-2 appelsínum (fer eftir stærð)
safi úr 1 sítrónu
smá salt
Smjör (við stofuhita) og sykur þeytt saman. Eggjum bætt út í, einu í einu og þeytt á milli. Síðast er hveiti og lyftiduft sigtað út í, ásamt appelsínu- og sítrónusafa, og salti og þeytt í stutta stund.
Bakað við 175°C (350°F) í 45-60 mínútur, eða þar til prjónn kemur hreinn út.
Síróp: Safi úr einni appelsínu og 2 msk sykur soðið saman. Hellt yfir heita kökuna ásamt rifnum berki af appelsínunni.
Ef þú vilt að gestirnir byrji að stynja, skellirðu ís eða þeyttum rjóma með kökunni á borðið.
.
— APPELSÍNUKÖKUR — KAFFIMEÐLÆTI — TERTUR – ÁGÚSTA GUNNARSDÓTTIR–
.