Steinakökur. Eitt af mörgu skemmtilegu sem á fjörur mínar rekur er að dæma í smákökusamkeppni Kornax. Í ár var fjölbreytni áberandi. Fjögurra manna dómnefnd bragðaði á tæplega 150 tegundum sem allar voru góðar. Við tókum svo frá um 30 tegundir sem við smökkuðum á aftur og gáfum einkun. Samdóma álit dómnefndar var að Steinakökur ættu fyrsta sætið skilið.
Meðal þess sem heyrðist frá dómnefndinni var þetta: “Mikið jafnvægi í bragði, flott útlit og góð samsetning” “Ekki of sæt, gott að hafa pekanhnetur með og frágangur til fyrirmyndar”
“Góð hráefni, samsetning góð og eftirbragðið tónaði vel”
“Algjör sæla fyrir bragðlaukana. Stökkur súkkulaðibotn með “krönsí” kókostoppi. Kaka sem ég myndi baka aftur og aftur”
Steinakökur
230 g súkkulaðidropar
3 msk mjúkt smjör
2 egg
1/3 + 3 msk sykur
1/2 tsk vanilludropar
100 g hveiti
1/2 tsk lyftiduft
Toppur:
1 b niðursoðin mjólk (evaporated milk)
1 b sykur
3 eggjarauður
1/2 b mjúkt smjör
1 tsk vanilludropar
1 1/3 b kókosmjöl, ristað í ofni eða á pönnu
1 1/4 b pekanhnetur, saxaðar
140 g bræddir hjúpdropar, ljósir.
Hitið ofninn í 180°C. Bræðið saman smjör og súkkulaði yfir vatnsbaði, hrærið í.
Hrærið saman egg, vanilludropa og sykur í skál, leggið til hliðar.
Hrærið saman hveiti og lyftiduft.
Setjið nú kælt súkkulaði og smjör saman við eggjablönduna og bætið því næst hveitiblöndunni við.
Setjið deig í ísskáp í ca. 10-15 mínútur.
Setjið smjörpappír á bökunarplötu
Setjið með teskeið á klædda bökunarplötu og bakið í ca. 10 mínútur.
Aðferð toppur:
Dósamjólk, sykur, eggjarauður og smjör sett í skaftpott og hitað við meðalhita, hrært þar til þykknar (ca.12 mínútur).
Takið af hitanum og bætið vanilludropum, ristuðu kókosmjöli og pekanhnetum við og hrærið saman.
Kælið í nokkrar mínútur eða þar til hægt er að smyrja ofan á kökurnar.
Skreytið með bræddum dökkum eða ljósum hjúp.
Geymið í kæli í góðu boxi.
Vinningshafarnir í smákökusamkeppni Kornax 2015. Andrea Ida Jónsdóttir er í miðjunni, hún sendi inn Steinakökur. Steini er bróðir hennar og hann var MJÖG duglegur að smakka smákökurnar (alveg óbeðinn).