Á að láta klingja í glösum þegar skálað er?
Það þykir ekki æskilegt að láta klingja þegar skálað er, glös eru jú brothætt. Við lyftum glösum en ekki of hátt, alls ekki upp fyrir augu, best er að efri brún á glasinu fari ekki upp fyrir höku, við þurfum að sjá andlitið, því að þetta er félagsleg athöfn. Við höldum um stilkinn á glasinu, ekki um belginn. Ef haldið er um belginn hitnar vínið og glasið verður fitugt/kámugt.
Það er auðvitað ekkert bannað að láta klingja. En gott er að hafa í huga, enn og aftur, að glös eru brothætt. Ef þið viljið láta klingja látið þá belgina mætast – en varlega.
Þegar búið er að segja skál, skálum við, við teygjum ekki lopann með áframhaldandi spjalli, því að þá veit enginn hvenær á að dreypa á drykknum.
Svo þarf einnig að passa að skála ekki út í eitt – það getur verið þreytandi að skála fyrir öllu mögulegu heilt matarboð.
🥂
— KURTEISI/BORÐSIÐIR — SKÁLAÐ — LÉTTVÍN — MATARBOÐ —
— Á AÐ LÁTA KLINGJA Í GLÖSUM? —
🥂 🥂