Hitastig borðvína
Oft heyrum við talað um stofuhita á rauðvínum. Stofuhiti víðast hvar er 18 gráður en hér vel yfir 20. Að sögn vínsérfræðinga hættir okkur Íslendingum til að bera fram rauðvín of heit og hvítvín of kælt. Kjörhitastig rauðvíns er 16 – 17 gráður fyrir vín sem er frekar létt og í mesta lagi 20 gráður fyrir önnur rauðvín. Hvítvín sem eru borin fram beint út ísskáp eru of köld, 4 – 6 gráður. Kjörhiti hvítvíns er 10-12 gráður, því yngra því kaldara. Því þéttara því hærra hitastig.
Vín sem geyma á lengi þarf svalan, rakan og dimman stað – þess vegna eru kjallarar oft notaðir til þess. Helstu óvinir vínsins eru birta, of hátt hitastig, hitabreytingar og of þurrt loft.
Það er einhver misskilningur að öll vín batni við geymslu. Flest vín eru gerð með það fyrir augum að vera drukkin ung og halda sér í ein 2-3 ár eftir að þau koma á markað. Vín ætti ávallt að geymast á dimmum stað því talið er að ljós geti haft skaðleg áhrif á litarefni og gæði víns. Þess vegna eru vínflöskur litaðar til að draga úr áhrifum ljóss. Kampavín og freyðivín eru sérstaklega viðkvæm fyrir ljósi.
Áður en rauðvín er drukkið er gott að opna flöskuna nokkru áður en hella skal í glas eða þá að umhella í karöflu. Þetta er gert til þess að vínið fái súrefni og mildist áður en það er drukkið. Því eldra sem vínið er því þroskaðra er það sem þýðir meira botnfall er í flöskunni. Þá þarf að hella víninu rólega í karöfluna til að róta ekki upp botnfallinu, því enginn vill fá það grugg í glasið sitt. Ef vínið er ungt þá er ekkert sem bannar það að hella megi aftur í flöskuna ef fólk vill bera það fram þannig. Umhelling á hvítvíni er ekki eins mikilvæg því þau eru oftast drukkin frekar ung. Það er ágæt regla sem er gott að venja sig á er að lykta af tappanum þegar flaskan er opnuð til að athuga hvort það sé ekki allt í lagi með vínið.
— LÉTTVÍN — FREYÐIVÍN – SKÁLAÐ — BORÐSIÐIR – BJÓR —
.