Auglýsing
Bökunarráð, Bergþór pálsson, Albert, gerdeig, lyftiduft, leyniráð
Á kaffihúsi

Nokkur góð bökunarráð frá Bergþóri mínum. Mikið er ég nú vel giftur!

Bökunarráð Bergþórs

–  Notið smjör við herbergishita. Ef það kemur beint úr ísskáp, er best að skera það í bita og geyma á diski á meðan önnur innihaldsefni eru tekin til.

–  Notið egg við herbergishita. Ef þau koma beint úr ísskáp, má setja þau í skál með vel volgu vatni úr krananum í 10-15 mín.

–  Þeytið smjör og sykur vel, „ljóst og létt“ þýðir ekki skemur en 10 mínútur. Þannig verða kökurnar léttari.

–  Þeytið egg og sykur hægt (eða rauður eða hvítur, t.d. í eggjahvítutoppa), lengi vel framan af. Það liggur ekkert á að setja á mesta hraða. Þetta er til að sykurinn bráðni.

–  Gætið þess að hveitið sé rétt mælt í bolla. Fyllið bollann með skeið og leyfið hveitinu að vera létt. Ef við troðum bollanum ofan í hveitipokann og ýtum jafnvel á eftir, verður hveitið of mikið. Þá verða smákökurnar grjótharðar og kurteisissvipurinn á gestunum vandræðalegur meðan þeir narta utan af kökunni (samt ágætt að hafa mikið hveiti í piparkökuhús, enda eru þau sjaldnast borðuð).

–   Kælið deigið í ísskáp a.m.k. í 4 klst., en gjarnan í tvo sólarhringa. Smjörbragðið kemur þannig betur fram. Á jólaföstu (aðventu) getur verið ágætt að eiga deig í plastfilmu (í lengjum, það verður hart og svolítið dónalegt útlits, en hentugt til að skera niður) og baka á hverjum degi splunkunýjar smákökur. Smákökur eru bestar nýjar. Þetta á auðvitað ekki við um eggjahvítukökur, sem eru bakaðar strax.

–  Leyniráð fyrir súkkulaðibitakökur: Setjið örlítið sjávarsalt ofan á þær áður en þær fara í ofninn. Óhætt er að prófa nokkrar flögur af lakkrís salti frá Saltverk. Súkkulaðið og reyndar öll kakan verður bragðmeiri.

-Chili-leyniráðið. Súkkulaði og chili fara einstaklega vel saman í kökum. Örlítið chili galdrar fram enn meira sælubragð.

-Gott er að setja salt í deigið ef um sætar kökur er að ræða. Þannig verður bragðið meira.

-Súkkulaði er missætt. Best er að nota dökkt alvöru súkkulaði (65-75%). Mjólkursúkkulaði er sætara, ef það er notað er óhætt að draga úr sykrinum.

– Bökunarofninn þarf að hafa náð því hitastigi sem gefið er upp áður en það sem á að baka er sett inn í hann. Ofnar eru misjafnir og því er getur verið erfitt að gefa upp nákvæman tíma á bakstrinum. Tíminn sem er gefinn upp er oftast til viðmiðunar, ekki er óalgengt að það muni nokkrum mínútum til eða frá.

–  Þegar form eru notuð við t.d. Bessastaðakökur eða piparkökur, er gott að dýfa formunum í hveiti áður en skorið er. Einnig er gott að hafa svolítið hveiti á höndum.

–  Hafið hitann ekki of háan, einkum á þykkari kökum. „Betra er að baka lengur við lægri hita en brenna“, er splunkunýr málsháttur í íslenskri tungu, sem hrökk út úr svekktum gaur á Lindargötu. Gott er að prófa að baka eina köku fyrst áður en heil plata er eyðilögð. Lítið einnig í ofninn tveimur til þremur mínútum áður en sagt er í uppskriftinni. Oft eru smákökur fullkomnar þótt þær virðist varla bakaðar að ofan, en ef þær eru bakaðar í 1-2 mínútur í viðbót, brenna þær að neðan. Athugið að ofnar eru ótrúlega misjafnir og yfirleitt lítið að marka uppskriftir fyrir þinn ofn.

– Þurrar smákökur taka í sig raka ef eplabiti er lagður í boxið í góða stund.

-Svo er bara að spila ljúfa tónlist, setja á sig svuntuna og byrja baksturinn 🙂

.

BRAUÐBAKSTURTERTURKAFFIMEÐLÆTI – BERGÞÓR —

— BÖKUNARRÁÐ BERGÞÓRS —

Góð ráð bakstur
Hjólandi í afmælisveislu

.

— BÖKUNARRÁÐ BERGÞÓRS —

.

Auglýsing

2 athugasemdir

Comments are closed.