Hótel Húsafell. Í senn þjóðlegur og alþjóðlegur veitingastaður í toppklassa, enda fær hann eina hæstu einkunn sem íslenskur staður fær á Trip Advisor.
— HÓTEL HÚSAFELL —
Það er liðin tíð að ferðamannastraumur á landsbyggðinni nái rétt yfir hásumarið. Núna hafa fjölmargir atvinnu allt árið af auknum straumi ferðamanna til landsins. Sem betur fer standa langflestir ferðaþjónustuaðilar sig einstaklega vel, svo vel að eftir því er tekið langt út fyrir landssteinana. Ábúendur á Húsafelli voru frumkvöðlar í ferðamennsku á Íslandi og stórhuga voru þau Sigrún og Kristleifur er þau snéru sér að ferðaiðnaðinum. Afkomendur þeirra eru ekki síður stórhuga, nýlegt hótel á Húsafelli ber þeim fagurt vitni. Þar er vandvirkni, metnaður og alúð í öllu stóru sem smáu. Stórfín, björt og vel útbúin herbergi og engu líkara en hótelið hafi staðið þarna langa lengi, svo vel fellur það inn í umhverfið.
Veitingasalurinn er bjartur, þar eru stórir gluggar, hátt til lofts og útsýnið er stórbrotið. Fjallasýnin engu lík með jöklana á aðra hönd og Hálsasveitina á hina. Það er ekki ofsögum sagt að útsýnið sé á við fagurt meistaramálverk.
Í notalegum veitingasalnum fengum við sex rétta sælkeraveislumáltíð sem hefði getað sómt sér á hvaða glæsiveitingastað heimsins. Fallegir og ólíkir matardiskar glöddu augað. Aðal atriðið og það sem toppar allt er maturinn. Sambland af alþjóðlegum veitingum en samt er svo stutt í íslenska tengingu.
Á Húsafelli er lipur þjónusta og þægileg. Glaðlegir þjónarnir snerust i kringum okkur og aðra gesti og létu öllum líða vel undir lágt stilltri íslenskri tónlist sem engin truflun var frá.
Lungamjúkt grafið ær-fillet með karamelíseruðum lauk og súrsúðum sinnepsfræjum var eins konar smakk í upphafi og lagði línurnar fyrir það sem á eftir kom.
Ceviche með kræklingi, lúðu, laxi og hörpuskel. Ceviche er orðið velþekkt á Íslandi, en það er sjávarfang sem hefur legið í sítruslegi, t.d. lime eða sítrónu, ættað frá S-Ameríku. Áferðin verður unaðslega mjúk, en ekki slepjuleg. Með þessu var borið fram saffran mæjónes og yuzu ískrap, sem gerði réttinn sprúðlandi ferskan.
Fiskisúpa með hörpuskel, bláskel og humri
Þá kom hreint út sagt himnesk fiskisúpa með hörpuskel, bláskel og humri. Með betri súpum og stökkt fennelið gaf henni ævintýralegan keim.
Nautacarpaccio með limegeli, vatnakarsa og avókadó-tartar var einstaklega mjúkt og bragðgott. (Við gleymdum að taka mynd af því)
Lambafillet og lambabógur með rauðrófum, rauðkáli, gulrófum og grænertumauki. Allt passlega eldað og grænmetið ekki ofsoðið, örlítið stökkt. Eins og þjónninn sagði: Það sem amma gerði, klikkar ekki, gamla góða sunnudagslærið með rauðrófum, rauðkáli og grænum baunum. Aðeins útfært á glaðlegan hátt.
Hótel Húsafell. Í senn þjóðlegur og alþjóðlegur veitingastaður í toppklassa, enda fær hann eina hæstu einkunn sem íslenskur staður fær á Trip Advisor.
Texti: Albert Eiríksson albert.eiriksson (hjá) gmail.com