Sunnudagsveisla hjá Rannveigu Fríðu
Það eru gamlar gleðilegar fréttir og nýjar að óperusöngvarar hafa mikinn áhuga á mat, bæði að elda, tala um og borða góðan mat. Óperusöngkonan Rannveig Fríða Bragadóttir hefur búið og starfað í Vínarborg í fjölmörg ár. Rannveig og eiginmaður hennar Arnold Postl bjóða gjarnan börnunum sínum í mat á sunnudögum. Klassískur sunnudagsmatur í Austurríki er m.a. tær súpa með einhvers konar bollum, núðlum eða ósætum pönnukökum, rúllað upp og skornar í þunna strimla. „Þetta sinn gerði ég sjálf lifrarbollur (Leberknödel) sem synir mínir elska. Síðan var boðið upp á kálfasnitzel með salati og steinseljukartöflum og á eftir rauðvínstertu með hvítum súkkulaðihjúp og þeyttum rjóma. Með schnitzelinu drekkum við venjulega kaldan bjór eða gott rauðvín. Í þetta sinn drukkum við rósa freyðivín í fordrykk og vatn með matnum þar sem það er eiginlega fasta fram að páskum og margir bragða ekki vín eða sætindi á þeim tíma.”
— RANNVEIG FRÍÐA — #2017Gestabloggari15/52 — AUSTURRÍKI — SNITSEL — SUNNUDAGS… — KJÖT —
.
Ekta Vínar kálfasnitzel
Á mann er reiknað með 150-180 gr. af kjöt, vöðvi úr afturlæri (schale)
Við kaupum heilt stykki og sneiðum það í þunnar sneiðar, max. 1 cm, það er síðan barið vel. Maður getur annað hvort saltað kjötið strax og nuddað smá eða saltað eggið. Hverju stykki er velt upp úr hveiti, síðan þeyttu eggi og síðast úr góðu raspi. Best er virkilega fínt brauðrasp. Schnitzelin eru steikt fljótandi í jurtaolíu eða jurtafeiti sem hentar til djúpsteikingar, í Austurríki notar maður stundum nýja svínatólg. Mikilvægt er að láta feitina drjúpa vel af eftir steikingu. Hér segir maður um velheppnað schnitzel (sem er reyndar líka hægt að gera úr svína- eða kjúklingakjöti) að ef það er rétt steikt þá geti maður sest á það í sunnudagabuxunum án þess að það komi blettur í buxurnar. Afgang af Schnitzel er upplagt að boða kalt með góðu brauði.
Við borðum schnitzelið með grænu eða blönduðu salati með ólífuolíu eða graskersolíu og góðu ediki. Ef edikið er mjög súrt er nokkrum sykurkornum bætt í og smá vatnslögg. Ég nota yfirleitt rautt eða hvítt balsamico edik. Kryddað með salti, pipar og gjarnan dálítlu af ferskum hvítlaukur. Maður getur líka borðað hrísgrjón með og bætt grænum baunum í (fyrir 4 u.þ.b. 100 gr. grænar baunir) úr frystinum, ekki dós. Ég bæti baununum í þegar grjónin eru soðin og læt þetta aðeins standa á volgri hellunni, það dugar til að baunirnar verði mátulegar.
Steinseljusteiktar kartöflur
Uppáhaldið mitt sem meðlæti eru kartöflur með steinselju. Kartöflurnar eru soðnar og skrældar (nema þær séu nýjar). Smjörklípa brædd á pönnu, fersk steinselja söxuð (magnið fer eftir smekk, fyrir 4 myndi ég nota 2-3 matskeiðar af steinselju), steinseljan sett á pönnuna, kartöflunum bætt við og steiktar við vægan hita í nokkrar mínutur. Saltkornum stráð yfir að smekk.
Rauðvínsterta með hvítum súkkulaðihjúp
250 gr. sykur
250 gr. smjör eða smjörlíki (ég nota alltaf smjör)
4 egg
250 gr. hveiti (stundum nota ég heilhveiti eða hveiti til helminga)
2 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
1 tsk kakó
1 tsk kanill
100-150 gr. súkkulaðispænir eða fínt rifið dökkt súkkulaði
1/8 – ¼ l. rauðvín
Gott er að hafa smjör og egg við stofuhita! Hærið sykur og smjör vel saman, bætið eggjunum við einu í senn ásamt vanilludropum. Því næst hveiti, kakói, kanil og lyftdufti og blandað varlega út í ásamt rauðvíninu. Deigið á ekki að renna, en það má heldur ekki vera of þykkt. Siðast er súkkulaðinu bætt við. Bakað við 180° í 50-60 mín.
50 mín. nægja yfirleitt ef ofninn er með blæstri. Ég nota u.þ.b. 26 cm form.
Kakan látin kólna aðeins, sett á kökudisk og þunnt lag af marmelaði ofan á, má vera hvað sem er en mér finnst súrara marmelaði eins og rifsber betra. Hvíti hjúpurinn hitaður varlega, aðeins látinn kólna og varlega hellt yfir. Mér finnst kakan betri ef hún er gerð kvöldinu áður en notuð. Ég hef ábyggilega bakað þessa uppskrift í 30 ár. Það er eins hægt að strá flórsýkri yfir kökuna eða súkkulaðihjúpa hana með dökku súkkulaði. Þeyttur rjómi er ómissandi með!
.
— RANNVEIG FRÍÐA — #2017Gestabloggari15/52 — AUSTURRÍKI — SNITSEL — SUNNUDAGS… — KJÖT —
— SUNNUDAGSVEISLA HJÁ RANNVEIGU FRÍÐU —
.