Vorgleði Petrínu Rósar
„Það færi best á að kalla þetta vorgleði með skemmtilegu fólki. Þetta eru allt frekar fljótlegar uppskriftir en á móti kemur að ferskleiki hráefnisins skiptir höfuðmáli. Sérsniðinn matseðill fyrir kvennaboð” segir Petrína Rós Karlsdóttir leiðsögumaður, þýðandi og frönskukennari. Mjög flótlega eftir að ég opnaði safnið Fransmenn á Íslandi kom hún með hóp franskra ferðamanna og átti eftir að koma oft – við smullum saman við fyrstu kynni. Petrína reyndist mér afar vel öll árin sem ég stússaðist í kringum fransmennina. Var óþreytandi við að lesa yfir, þýða og benda á fjölmargt sem nýttist á safni sem fékk vaxtaverki fljótlega eftir opnun. Á Gestgjafaárum mínum hélt hún „franskt matarboð” og bauð þangað, eins og núna, nokkrum leiðsögumönnum. Blaðið frá 2002 var dregið fram og skemmtilegar sögur úr boðinu rifjaðar upp.
Í fordrykk bauð Petrína upp á freyðivín með rósrauðum greipsafa (náttúrulegum) og myntu.
#2017Gestabloggari16/52 — PETRÍNA RÓS — FRAKKLAND — FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR —
.
Ferskur aspas með Parma hráskinku
6 toppar af grænum aspas
6 sneiðar af Parmaskinku
Sósa: 1tsk ólífuolía, 1 tsk fljótandi hunang 1tsk. límónusafi, 1 tsk balsamikedik
Setjið aspasinn í sjóðandi vatn og látið sjóða 8-15 mín eftir stærð. (Skerið hvíta og bragðlausa hlutann af). Eftir suðu, setjið í kalt vatn til að stöðva suðuna og þurrrkið síðan vel. Vefjið skinkunni utan um aspasinn og setjið í skeið. Geymið í ískáp þar til borið fram. Dýfið í sósuna þegar borið er fram eftir smekk!
Rauðrófutartare
4-5 rauðrófur soðnar (hægt að nota rauðbeður í sneiðum úr krukku)
100 g mozzarellaostur
50g kasjúhnetur, muldar í mortél
Steinselja
Salatsósa: Balsamikedik, ólífuolía, rifinn börkur af 1 sítrónu
Rauðrófur soðnar 20 mín, látnar kólna. Skornar í þunnar sneiðar. Raðað á disk. Mozzarella osturinn skorinn í bita og sett ofan á . Hnetur muldar og bætt ofan á. Steinselja eftir smekk. Salatsósu hellt ofan á.
Grænt salat Klettasalat, Aspas (soðinn), kirsuberjatómatar, baunaspírur
Sósa: Ólífuolía og balsamikedik, fljótandi hunang.
Salade Gaie/ Hýrt salat
1 vatnsmelóna skorin í bita, fersk myntulauf
Terrine de Corsica
Kjötréttur innblásinn frá Korsíku, notað folaldakjöt beint frá býli í stað kálfakjöts.
Folaldakjöt, ólífur, pancetta (reykt þurrt hrátt beikon)* fæst í Pólsku búðinni
Undirbúningur 30 mín. Eldunartími: 2,5 – 3 klst fyrir 6-8
2 msk ólífuolía
1 kg folaldagúllas, skorið í 4 sm bita.
200g pancetta flesk )1 sm bitar
1 stórlaukur, fínt skorinn,
3 vorlaukar (klippt í litla bita)
3-4 hvítlauksgeirar (kreistir)
2 msk anís stjörnur (muldar í mortéli) eða fennelduft
2 msk af Paprikudufti (sæt/mild paprika)
1 dl pastís eða anís áfengi.
2,5 dl þurrt hvítvín
2 bufftómatar skornir í 4 sm bita
400 g maukaðir tómatar
4-5 dl kalt vatn
2 stórir fennel skornir í 3 sm sneiðar.
2 lárviðarlauf
100 g steinalausar olífur
salt, svartur pipar
Paprikusósa:
2-3 rauðar paprikur
2-3 gular paprikur
50 g af ferskri myntu
50 g af ferskum koríander
1-2 hvítlauksgeirar (kramdir)
2 msk balsamik edik
2 msk olífuolía
½ tsk agave síróp.
Steikið kjötið á stórri pönnu, piprið og saltið, brúnið í 5 mínútur. Takið af pönnunni og setjið í ílát. Lækkið hitann, setjið 1 msk af olífuolíunni, steikið í 8-10 mín pancetta beikonið, laukinn og hvítlaukinn þar til orðið smábrúnað og mjúkt. Bætið útí anísnum og paprikuduftinu, hækkið hitann, bætið síðan útí pastís/pernod*/ anísdrykknum og látið sjóða í 2-3 mín.
Bætið síðan út í stóran pott: kjöti, tómötum, fennel, lárviðarlaufi, salti, vel af svörtum pipar. Bætið út í köldu vatni 3-4 dl. Til að hylja kjötið, síðan maukuðum tómötum. Látið malla við miðlungshita í 1,5 -2 klst. Með lokið yfir. Þá er lokið tekið af og hitinn hækkaður og olífum bætt útí látið sjóða svona 20-30 mín til að þykkja sósuna.
Á meðan er sósan gerð:
Skerið rauðu og gulu paprikur í tvennt og grillið í ofni (200°C) setjið í heitan ofn. Látið kólna í plastpoka. Þegar það er búið, flettið hýð af og klippið í þunnar ræmur.
Setjið hráfefni í skál og hrærið öllu saman. Setjið sósuna með skeið ofan á heitan réttinn.
Berið fram með góðu brauði eða pasta. Súrdeigsbrauði hér.
Með fyrstu réttunum bauð Petrína upp á létt hvítvín La Baume les Maries sem er meðalfyllt og ósætt. Með aðalréttinum var La Baume la Jeunesse rúbínrautt rauðvín sem er berjaríkt og með ferskri sýru.
Crème de cocos – mangókókos
4 mangó lítil (2 stór)
4 dl af kókosmjólk
Fersk mynta
Flysjið hýðið af mangóinu, skerið í bita, setjið í matvinnsluvél og blanda saman kókosmjólk og mangó þar til er orðin þykk. Hellið í litlar skálar og kælið í a.m.k. 1 klst. Skreytið með myntulaufi og berið fram kalt.
—
#2017Gestabloggari16/52 — PETRÍNA RÓS — FRAKKLAND — FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR —
—