Matwerk á Laugavegi – nýíslensk matreiðsla með léttum fusion snúningi

Matwerk á Laugavegi – nýíslensk matreiðsla með léttum fusion snúningi. Veitingastaðurinn Matwerk er á Laugavegi 96, rétt fyrir neðan gatnamót Laugavegar og Snorrabrautar. Þar er ný-íslensk matreiðsla með laufléttum fusion snúningi í smáréttastíl. Á staðnum er gott úrval af kokteilum, léttvínum og bjór. Þarna er notaleg stemming og falleg list á veggjum, hlýir jarðlitir og viður. Á Matwerki er íslenskt hráefni og þar er unnið með íslenskar hugmyndir og hráefni, eins og steiktur fiskur dagsins (spari,spariútgáfa af heimilisfiski) og skyr með brulée. Yfirmatreiðslumaður á Matwerki er Stefán Hlynur Karlsson, yfirþjónn er Guðmundur Halldór Atlason og hjá þeim er látlaus og þægileg þjónusta.

Við settumst við gluggann, alltaf gaman að fylgjast með iðandi mannlífinu og í hina áttina í eldhúsið, en það er pallur fyrir ofan og þar innar er gætir dagsbirtunnar minna, hentugt fyrir þá sem eru í rómantísku stuði. Þetta er frekar hip staður, tónlistin er ekki beinlínis hefðbundin dinnermúsík, það er alveg taktur og frekar hávært. En ekkert að því og er í tísku.

Haraldur á Stúdíói Halla Friðgeirs & co ásamt eigendunum, Guðjóni Kristjánssyni og Þórði Bachmann, sem sáu um hönnun staðarins.

Hinn glaðlegi Viktor tók á móti okkur og leiddi okkur í sannleika um matseðilinn, svaraði spurningum okkar ljúflega og fumlaust. Hér er íslensk fusion í gangi. Eins og gerist á góðum veitingastöðum breytist matseðilinn reglulega. Það eru tveir samsettir matseðlar, „norrænn“ á 8.600 kr. (fiskisúpa, nautakinn, lambalæri og ástarpungar) og „matwerk“ á 7.900 kr. (grísasíða, nautatartar, bleikja og skyr-brulée). Einnig er hægt að fá 4 rétta smáréttaseðil (5.900). Svo er auðvitað hægt að fá sér einn af eftirréttum fjórum (skyr, gulrótarkaka, skyr brulée og ástarpungar)
Við fengum okkur Masi Campofiorin (8.990) er létt fyrir bleikju og passar lambi einkar vel, mjúkt og gott vín með viðarkeimi (í stíl við innréttingarnar!).

Í upphafi fengum við niðurskorið focaccia brauði borið fram í litlum koparpotti með því var vanilluskyr-smjör. Bragðið af því minnti svolítið á skyrsúpuna hjá mömmu í gamla daga. Hrært smjör og vanilla var létt og og mjúkt með vel af vanillu.

Fiskisúpa með kóngakrabba, mysingskremi, dillolíu, bleikjuhrognum og vatnakarsa ofan á. Súpan er bragðmild, mjúk og áferðafögur. Hún hefði mátt vera heitari.

Svínasíða, kremað bygg, rúsínur og vatnakarsi, sýrður perlulaukur, sinnepsgljái og sinnepsfræ. Reglulega gerðarlegur réttur og fjölbreyttur undir tönn. Það kom á óvart hvað rúsínurnar gera gott, en þarf svo sem ekkert að koma á óvart, það er alvanalegt að hafa ávexti í kjötréttum og er frægt fyrir

Afbrigði af þessum rétti var grænmetisréttur, kremað bygg, granítepli, rúsínur, súrur ofan á, vatnakarsi ofan á. Þetta var mjög gott, byggið hárrétt al dente, skemmtilegt jafnvægi milli sætu og seltu.

Nautatartar. Trufflumajónes, svartrót djúpsteikt, parmesan, pikklaður perlulaukur, vatnakarsi.

 

 

 

 

 

Heitreyktur lax og gella. Dillolía, tartarsósa (epli, blaðlaukur og kapers), vatnakarsi og bleikjuhrogn ofan á, mjög góður réttur með fínu jafnvægi. Það vakti sérstaka kátínu þegar kokkurinn kom hlaupandi með gelluna og bætti henni á diskinn. Sagðist hafa gleymt gellunni 🙂 (Hver gleymir gellu?)

 

Nautakinnin var himnesk, mjúk sem lunga. Með henni var borið                        gulrótakrem, steiktur laukur, ísbúafroða og vatnakarsi.

 

Steikt bleikja með sveppakremi, ostrusveppum, mangó, kartöflum, þurrkuðu grænkáli og jógóurtdillsósu. Brilliant samsetning.

 

 

 

 

 

 

 

Fiskur dagins: Steinbítur með kartöflumús, súrur ofan á, sinnepsgljái, rófur, sinnepsfræ, brennt smjör (noisette). Virkilega góður réttur með heimilislegum tóni.

 

 

 

 

 

 

Lambainnralæri, með því var borið fram jarðskokkakrem, rófur, kartöflur, vatnakarsi. Ofan á var aldeilis geðveik bláberjabalsamik dressing og lá við heimþrá í austfirsk bláber – enda allt svo gott fyrir austan eins og Bergþór minn segir gjarnan.

Með skyr-brûlée var jógúrt-limeís og bláber með. Stórfín hugmynd sem gengur fullkomlega upp. Brûlée eftirréttur sem margirþekkja sem Crème brûlée er hér færður til íslensks nútíma með góðum árangri.

Í ástarpungum voru kardimommur og rúsínur, þeir voru með stökkri áferð og dúnmjúkir að innan, hálfgerð himnasæla og með var hvítsúkkulaðikaramella. Alls ekki slæmt – eiginlega alveg frábært að fá hina klassísku ástarpunga á matseðli veitingastaðar – nýsteiktir pungar gleðja alla, alltaf.

 

 

 

 

 

 

Bragðarefur, fersk ber, jarðar blá, Þristur sem gefur ríkulegt lakkrísbragð, Oréo, sem er líka í ísnum. Einnig er hann svolítið karameliseraður (með brenndum sykri). Eftirréttur sem svo sannarlega má mæla með, hann er ólíkur öðrum. Gaman og óvænt að fá bragðaref á veitingahúsi.

 

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.