Kaffisopinn indæll er
Það er kunnara en frá þurfi að segja að mikill vandi er að hella upp á gott kaffi. Þunnt kaffi þykir ekki vera það besta og í gamla daga voru höfð ýmis orð um þunnt kaffi og ekki öll sem fallegust, til dæmis: englapiss, nærbuxnavatn, vinnukonuvatn, kaffiblávatn, meyjarhland, ærpiss, steinbítshland, skjávatn, návatn, náhland eða seinna vatn af sokkum. Sterkt kaffi var kallað: rótsterkt, útsterkt, bleksterkt eða skjólgóður sopi. Bjartur í Sumarhúsum taldi kaffi ekki drekkandi nema hægt væri að tjarga upp úr því hrúta.
Kaffibætir var fluttur inn frá því um 1870 og þótti sjálfsagt að nota hann til að drýgja kaffið. Kaffibætir var gerður úr rótum kaffifífils eða sikoría (Cichorium intybus) sem er fjölær matjurt sem er ræktuð bæði vegna blaðanna, sem eru notuð í salöt, og rótarinnar, sem er ristuð og notuð sem kaffibætir. Kaffi án kaffibætis var gjarnan nefnt baunakaffi. Ekki líkaði öllum kaffibætirinn þó vinsæll væri fram undir miðja síðustu öld. Í bréfi sem Fjallkonan birti árið 1884 frá „Merkum bónda í sveit” segir: …og er lítil bót að hinni óhóflegu kaffidrykkju, einkum þar sem kaffið er víðast að meira eða minna leyti búið til úr kaffibæti, eða réttara sagt, kaffispilli”
„Ég get ekki nema af sérstakri kurteisi drukkið kaffi með því bragðvonda og heilsuspillandi skítbrasi samanvið, sem í auglýsíngum er nefnt „kaffibætir”, en alþýða nefnir ýmist rót, export eða sikkorí” segir Halldór Laxness í Dagleið á fjöllum.
O.Johnson & Kaaber flutti inn Ludvig David kaffibætir sem einhverra hluta vegna var ávallt kallaður Export. Kaffibætirinn var einnig nefndur rót og þannig er tilkomið að rætt var um rótsterkt kaffi. Í innflutningshöftunum í kreppunni miklu upp úr 1930 var farið að vinna Export kaffibæti hér á landi. Kaffibætirninn var í plötum og yfirleitt var notast við fjórðung úr plötu eða hálfa í hvern uppáhelling.
Rauður kinnalitur. Íslensk fljóð fundu það fljótlega út að rauðu pappírsumbúðirnar utan um staukana gáfu lit og með því að nudda þeim létt við kinn, mátti fá þennan fína kinnalit. Á tímum hafta og skömmtunar var þetta kærkomin búbót fyrir heimasætur sem vildu fá hraustlegra útlit!
— KAFFIBÆTIR — ÍSLENSKT — KAFFI — VÖFFLUR — SÓLARPÖNNUKÖKUR —
.
Rannveig Kristjánsdóttir skrifaði grein í Þjóðviljann árið 1944 og er ekki ánægð með kaffibætinn.
Hvers vegna þurfa Íslendingar export? Nú er hafið harmakvein um bæ og byggð. Skortur er á vöru þeirri sem kaffibætir nefnist á íslenzku máli, en víðast annars staðar myndi sennilega hljóta nafnið kaffispillir. Kaffibætisleysi landsmanna er sárara en óánægjan yfir smjör- og ávaxtaleysinu og er þó tvennu ólíku saman að jafna. Annars vegar bleksvartur, súrrammur, næringarsnauður óþverri, og hinsvegar heilsuverndandi fæðutegundir fullar fjörefna. ….. Í öllum bænum setjið ekki soju eða annan óþverra í kaffið, heldur búið þið til heilnæmst baunakaffi. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, segja menn um kaffibætinn. Enginn veit hvað er að eiga hlut fyrr en hreppt hefur, munið þið segja þegar þið byrjið að smakka baunakaffið.
☕️
— KAFFIBÆTIR — ÍSLENSKT — KAFFI — VÖFFLUR — SÓLARPÖNNUKÖKUR —
☕️