Jamie’s Italian á Hótel Borg – stemning, saga, heimilislegt, notalegt, en töff

Jamie’s Italian á Hótel Borg – stemning, saga, heimilislegt, notalegt, en töff.

Það var alveg fullt á Jamie Oliver og skemmtilegur mannlífskliður. Þetta er nefnilega þvílíkt „in“ staður, eins og sagt er á góðri íslensku (á jamiesitalian.is er hægt að panta borð). Fljótlega kom í ljós hvers vegna, það er ekki bara af því að Jamie Oliver er frægur úr hinum léttleikandi þáttum sínum, heldur var léttleiki í framreiðslu og matargerð allsráðandi.

Jamie’s Italian á Hótel Borg

Staðurinn hefur vissulega verið endurnýjaður að talsverðu leyti, en gamla Borgin svífur þó enn yfir vötnunum, yndisleg eins og alltaf. Barinn var minnkaður, en hann náði áður á milli súlnanna í gluggasalnum. Í Gyllta salnum er kominn stór, gylltur pítsu-ofn og þar eru nýjar ljósakrónur allan hringinn í kringum loftlistaverkið. Gömlu ljósin færð á barinn. Leifur Welding sá um hönnunina í samráði við hönnuði frá Jamie Oliver.

Jamie’s Italian á Hótel Borg

Réttirnir eru prófaðir á stöðunum í Bretlandi og ef þeir reynast vel, er boðið upp á þá annars staðar. Þó er tekið með í reikninginn hvar staðurinn er í heiminum. Til dæmis er notað lamb hér í staðinn fyrir uxahala. Alltaf er hægt að fá rétt dagsins, en það eru oftast fisk- eða pastaréttir.

Jamie’s Italian á Hótel Borg

Þau sem hafa þrautreynt réttina í bókunum hans Jamie, þekkja höfundareinkennin strax, sítrónubörkur og stökk brauðmylsna er til dæmis einkennandi, en innblásturinn er frá Sikiley, þar sem Jamie dvaldi þar þegar hann var að undirbúa Jamie’s Italy bókina. En það er auðvitað öðruvísi að láta þjóna sér á svona yndislegum stað og í góðum höndum þjónustufólksins. Þau Andrew (frá Kaliforníu hefur verið hér í 15 mánuði og er ótrúlega duglegur að tala íslensku) og Sigrún voru eins og hugur okkar.

Jamie’s Italian á Hótel Borg

Í fordrykk fengum við okkur í fyrsta lagi heimagert límonaði með sítrónusafa, sykri, mintu og sódavatni og í öðru lagi trönuberjasafa með jarðarberjum, ástaraldini, sítrónusafa og sykursírópi, báðir mjög ljúffengir.

 

Við byrjuðum á djúpsteiktum smokkfiski með chili, hvítlauk og steinselju. Fiskbragðið fannst, sem eru góðar fréttir, því að stundum er eins og það sé bara eitt bragð að öllu djúpsteiktu. Einnig fengum við okkur pastakodda sem eru mjög vinsælir með drykkjum, stökkir að utan en osturinn dúnmjúkur að innan, rauð sósan var mjög bragðmikil, með hvítlauk og chili.

Jamie Oliver

Þá fengum við okkur antipasti (forréttabakka), en bakkinn var settur á tómatdósir: Prosciutto og ýmsar pylsur; fennel salami, pistasíu-mortadella, San Danielle hráskinka, schicciata piccante, með sýrðu grænmeti og ólífum, einnig stökkt rauðrófu- og rauðkálssalat, buffalo mozzarella kúlur og að lokum pecorino ost með chili sultu á stökku brauði frá Sardiníu. Einnig var hægt að fá vegan útgáfu af antipasti.

 

Allt pasta er búið til á staðnum, nema ravioli. Við prófuðum pastarétti, sem hafa slegið í gegn, linguini með rækjum, sveppa-ravioli og tagliatelle bolognese, en það var úr miklu að velja.

Bolognese sósan er úr hægelduðu grísa- og nautakjöti og brauðmylsnan, pangrattanto gefur stökku, skemmtilegu áferðina. Parmesan fær maður svo rifið ofan á eins og hver vill.

Linguini rækjurétturinn, ristað í hvítlauk, með tómötum, fennel, saffran, chili og klettasalati. Bragðmikill og góður.

Ravioli (hálfmánar) voru fyllt með kóngasveppum og osti, í villisveppasósu, með salvíu, gremolata (sítrónubörkur, steinselja og kryddjurtir) og Grana vegetariano osti. Þetta er réttur fyrir grænmetisætur, en hægt að fá hann alveg vegan. Raunar er fullt af grænmetisréttum á matseðlinum.

Jamie’s Italian á Hótel Borg

Við urðum að smakka pítsu og fengum okkur Julietta, sem er litfögur af tómötum, mozzarella og basil laufum, eins og ítalski fáninn. Gul ólífuolían var eins og Miðjarðarhafssólin (svolítið sérstök þessi íslenska olíuhefð á pizzur), en pítsan var létt eins og andblær í Sorrento og súrdeigsbotninn stökkur og góður.

Jamie’s Italian á Hótel Borg

Ekki gátum við hætt án þess að smakka Pork Milanese, sem er barin grísalærissneið, ekki ólíkt Cordon bleu, fyllt með drjúpandi Jarlsosti og hráskinku, hjúpuð í stökkri brauðmylsnu með eggi, steikt í helling af trufflusmjöri. Spælt egg er svo til hliðar. Þetta er algjör draumur. Mjög mjúkt og gott, stökkt og æðislegur vetrarmatur sem mæla má með(ásamt öllu hinu).

Jamie’s Italian á Hótel Borg

Eftirréttirnir voru vanilluís, jógúrt-sítrónu-sorbet á jarðarberjabeði, súkkulaðiís á brownie með salt-karamelluís og bökuð ostakaka. Ísinn er frá Skúbb (á horni Laugarásvegar og Sundlaugavegar), en það var eini ísinn sem fékkst samþykktur af Jamie. Það mega aðeins vera tilekin, örfá E efni skv. stöðlum Jamie Oliver veitingastaðanna, en í þessum eru engin E efni! Bara alvöru vanillu-ís og maður sér vanillukornin.

Það er dásamlegt að njóta sólarlagsins tæplega nítíu ára gömlu húsinu og teyga síðustu geisla sumarsins, með hjarta höfuðstaðarins fyrir útsýni, sjálfan Austurvöll, saddur og sæll. Engin furða þótt staðurinn sé fjölsóttur.

Albert Eiríksson albert.eiriksson (hjá) gmail.com

Myndir: Bragi Bergþórsson

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.