Ítalskt ævintýri á Apótekinu með innblæstri af íslensku landslagi, ljúffengur og frumlegur málsverður.
Apótekið hefur alltaf verið einn af mínum uppáhaldsveitingastöðum, fyrsta flokks matur, þjónusta, staðsetning og ekki síst yndislegur viðarkolailmurinn af og til úr eldhúsinu, og úr verður andrúmsloft þar sem manni líður vel og vill helst dvelja lengi. Það var því spennandi að vita hvort ítalska ævintýrið stæði undir væntingum.
— APÓTEK — FOOD & FUN —
.
Massimiliano Cameli hefur komið áður til Íslands, en hann var á Food & Fun í Hörpu. Þeir bræður Massimiliano og Matteo eiga fjölskylduveitingastaðinn/hótelið Al Vecchio Convento í 400 manna miðaldaþorpi, Portico di Romagna milli Flórens og Bologna.
Massimiliano tók á móti okkur brosandi með þessum dásamlega ítalska hreim og viðmóti og kom svo af og til á milli rétta og skemmti okkur með frásögnum af matnum og fleiru. Hann var svo vingjarnlegur að við vorum að hugsa um að senda honum jólakort, eða bara hreinlega heimsækja hann.
Hann kom með talsvert af grænmeti, sem hann ræktar sjálfur. Ítölsk matargerð er auðvitað byggð á fersku hráefni og hann segir það mikil forréttindi að bókstaflega taka upp af jörðinni og setja nánast beint á diskana.
Það var mikið adrenalín í eldhúsinu, margir kokkar og mikil gleði, enda mjög sérstakt kvöld í gangi. Kristinn og Sindri stjönuðu líka við okkur af einstakri alúð og glaðlegheitum. En fram á sunnudag er sem sagt ítalskt þema á Apótekinu.
Það eru sex réttir á þessum sérstaka seðli og það er góð hugmynd að fá sér smakkseðilinn, þar sem maður smakkar af þeim öllum, á kr. 10.900.-, en það er hreint gjafverð.
Fyrst fengum við súrdeigsbrauð með mjúku trufflusmjöri.
Við fengum okkur rauðvínið Poderi dal Nespoli úr sangiovese þrúgunni og það er hvergi fáanlegt á Íslandi frekar en maturinn, þar sem bræðurnir komu með það frá heimabænum, ljúffengt og mjög tannín-ríkt.
Fyrsti rétturinn var djúpsteikt eggjarauða með dúnmjúku fossa-ostafrauði, mildur og gómsætur réttur. Massimiliano reif hvítar trufflur yfir, en þær voru voru tíndar daginn áður en bræðurnir komu hingað.
Nauta- og hreindýratartar með krydduðum spírum, engifer, poppuðum villirís frá Kanada, ólífum og rucola kom næst. Yfir þetta var sáldrað finnsku jólatrjáa-barri, sem hafði verið súrsað með hvítvíni og sykri. Ég bjóst kannski ekki við að ég myndi fríka út, enda er ég svo gamaldags að ég er ekki mikið fyrir hrátt kjöt almennt, en þetta kom mjög á óvart, algjört lostæti!
Lasagna með svörtum trufflum, gerjaðri svart-hvítlaukssósu (hvítlaukurinn verður sem sagt svartur þegar hann er gerjaður) og stökkri geitamjólk var næst á dagskrá. Þetta er uppskrift frá pabba strákanna og Massimiliano ljómaði þegar hann sagði frá þessum rétti og sagðist ekki í vafa um að þetta væri besta lasagna sem hann hefði nokkru sinni smakkað. Ofan á þessu voru saffran blóm, en þetta er víst besti tíminn til að tína þau, þar sem rauða kryddið er enn inni í blóminu. Lýsingarnar voru ekki til að rýra upplifunina, þetta minnti ekki mikið á hefðbundið lasagna eins og við erum vöh, en var út úr öllu korti bragðgott.
Smokkfisk-blek cannelloni með humri, þorski og hvít-tómatsósu, vanilluolíu og stökkum þara ofan á, var nú borinn fram. Þetta var listaverk að sjá, þar sem Ísland var fyrirmyndin, þ.e. hraunið og ísinn ofan á. Eins og útlitið, var bragðsinfónían nýstárleg og samsetningin sérlega góð.
Djúpsteikt, fyllt lamba-konfekt með blómkáls-purée og blómkáls cous cous var síðasti rétturinn. Þótt nafnið gæfi það til kynna, var ekkert sætt í réttinum, en í staðinn beinlínis bráðnaði þetta upp í munninum. Nú voru sumir farnir að emja af gleðiseddu, svo að það var eins gott að eftirrétturinn var laufléttur.
Þetta var furubarkar-ís með kantarellusveppum og kastaníuhnetu crumble, alveg himneskur endir á frábærri máltíð. Þetta var eins og ganga úti í skógi, þar sem óvæntur ilmur af Sambuca, trufflum o.fl. og áferð var punkturinn yfir i-ið.
— APÓTEK — FOOD & FUN —
.